Í gær fór ég í ondúleringu og las slatta af glansblöðum. Það er menningarkimi sem ég tek skorpu í á þriggja mánaða fresti á hárgreiðslustofunni. Sumt finnst mér mjög skemmtilegt í svona blöðum, til dæmis að skoða myndir af innlitum á heimili fólks og sjá hvað er mikið tekið í híbýlum sem talin eru til fyrirmyndar. Hnútapúðarnir, sem hafa verið vinsælir í örfá ár, koma enn sterkir inn hjá þeim sem eiga falleg heimili. Ég fæ alltaf aðkenningu af minnimáttarkennd þegar ég sé baðherbergin og svefnherbergin í tímaritunum. Það er er ansi ljótt heima hjá mér miðað við þessi fínu heimili, en stundum fyllist ég eldmóði við lesturinn og heiti því að taka mig á og smartvæða heimili mitt. Svo eru það viðtölin. Mér finnst oft mjög skemmtileg viðtöl í glansblöðum. Ég finn eiginlega alltaf eitt viðtal við þekkta manneskju sem segist hafa verið mjög gáfað barn. Viðkomandi kunni að lesa fjögurra ára og var almennt á undan skólafélögum sínum í þroska. Oftar en ekki dvaldi umrætt gáfubarn líka töluvert hjá ömmu sinni og afa í bernsku. Þetta brást ekki í glansblaðalestrartörninni í gær, ég fann auðvitað viðtal sem var alveg á þessum nótum og meira að segja las konan sem talað var við Laxness og Þórberg á æskuárum.
Í gærkvöldi fórum við á Ban Thai, sem einnig gengur undir nafninu Mötuneytið hér á heimilinu, og fengum okkur sterkan mat. Ég er enginn kettlingur þegar kemur að chili og pipar en mér dettur samt aldrei í hug að fá mér rétti sem merktir eru með mjög mörgum pipurum á Ban Thai, tveir eða þrír eru alveg nóg. Ekki vil ég vera eins og maðurinn í örsögunni, sem pantaði sér alltaf sterkasta réttinn á matseðlinum og logaði svo niður í rassgat. Við þurftum ekki að bíða mjög lengi eftir matnum en á meðan við biðum rauk einn reiður túristi út og bölsótaðist yfir langri bið. Hann gleymdi úlpunni sinni og þurfti að koma aftur inn og ná í hana svo hann tvítók dramatíska æsinginn yfir lélegri þjónustu.
Um daginn las ég, á einhverri útlenskri síðu, lista yfir spurningar sem fólk á ekki að spyrja rithöfunda að. Ein spurningin sem ekki mátti spyrja var hvað viðkomandi væri að skrifa þessa dagana og önnur hvort eitthvað væri upp úr þessu að hafa. Þessi grein rifjaðist upp fyrir mér áðan þegar ég las á spjallsíðu íslenskra rithöfunda að ein örfárra tekjulinda höfunda, Bókasafnssjóður, væri þornuð upp í bili vegna þess að menntamálaráðherra hefði ekki skipað úthlutunarnefnd. Þá rifjaðist líka upp fyrir mér það sem danskur þýðandi sagði mér á ráðstefnu í fyrra varðandi greiðslur úr danska bókasafnssjóðnum. Sú kona hefur þýtt slatta af bókum í gegnum árin og fær að jafnaði andvirði um 4-5 íslenskra milljóna úr danska bókasafnssjóðnum árlega og sjóðurinn er hennar helsta tekjulind. Þegar ég varð stóreyg yfir summunni sem hún sagðist hafa fengið árið 2016 sagði hún að þetta væri ágætt en alls ekki neitt svimandi, svo nefndi hún nöfn nokkurra höfunda og þýðenda sem ég kannast við og upphæðir sem voru svo háar að ég varð verulega undrandi og smá öfundsjúk. Áðan fór ég að efast um að ég hefði reiknað dönsku krónurnar rétt yfir í íslenskar svo ég rannsakaði málið. En nei, ég kann að reikna. Bjarne Reuter, sem er aðallega þekktur fyrir barna- og unglingabækur, fær andvirði hátt í tólf íslenskra milljóna úr danska bókasafnssjóðnum í ár, og Kim Fups Aakeson, sem margir Íslendingar þekkja, góðan slatta líka. Hér eru tölurnar. Nú vil ég hvorki líkja mér við þessa meistara né viðurkenna að ég sé vanþakklát, en þegar ég heyri minnst á Bókasafnssjóð íslenskra höfunda og þýðenda þá hugsa ég yfirleitt að ég sé jafn dauð hvoru megin sem ég ligg. Ég fékk rúmar 300 þúsund krónur úr þessum sjóði í fyrra og mun minna árið þar á undan. Samanlagður fjöldi bóka sem ég hef þýtt og skrifað er vel á þriðja tuginn og þar á meðal eru metsölukrimmar og barnabækur, sem eru víst bókmenntir sem lánast vel út á söfnum (ekki spyrja um ljóðabækur). En ekki misskilja mig; ef þið rekist á menntamálaráðherra þá megið þið gjarna spyrja hann hvort hann ætli ekki að skipa nefndina sem sér um að höfundar og þýðendur fái sína árlegu hungurlús greidda. Já og því má svo við bæta að það má alveg spyrja mig hvað ég sé að skrifa og hvort eitthvað sé upp úr því að hafa.
Í gærkvöldi fórum við á Ban Thai, sem einnig gengur undir nafninu Mötuneytið hér á heimilinu, og fengum okkur sterkan mat. Ég er enginn kettlingur þegar kemur að chili og pipar en mér dettur samt aldrei í hug að fá mér rétti sem merktir eru með mjög mörgum pipurum á Ban Thai, tveir eða þrír eru alveg nóg. Ekki vil ég vera eins og maðurinn í örsögunni, sem pantaði sér alltaf sterkasta réttinn á matseðlinum og logaði svo niður í rassgat. Við þurftum ekki að bíða mjög lengi eftir matnum en á meðan við biðum rauk einn reiður túristi út og bölsótaðist yfir langri bið. Hann gleymdi úlpunni sinni og þurfti að koma aftur inn og ná í hana svo hann tvítók dramatíska æsinginn yfir lélegri þjónustu.
Um daginn las ég, á einhverri útlenskri síðu, lista yfir spurningar sem fólk á ekki að spyrja rithöfunda að. Ein spurningin sem ekki mátti spyrja var hvað viðkomandi væri að skrifa þessa dagana og önnur hvort eitthvað væri upp úr þessu að hafa. Þessi grein rifjaðist upp fyrir mér áðan þegar ég las á spjallsíðu íslenskra rithöfunda að ein örfárra tekjulinda höfunda, Bókasafnssjóður, væri þornuð upp í bili vegna þess að menntamálaráðherra hefði ekki skipað úthlutunarnefnd. Þá rifjaðist líka upp fyrir mér það sem danskur þýðandi sagði mér á ráðstefnu í fyrra varðandi greiðslur úr danska bókasafnssjóðnum. Sú kona hefur þýtt slatta af bókum í gegnum árin og fær að jafnaði andvirði um 4-5 íslenskra milljóna úr danska bókasafnssjóðnum árlega og sjóðurinn er hennar helsta tekjulind. Þegar ég varð stóreyg yfir summunni sem hún sagðist hafa fengið árið 2016 sagði hún að þetta væri ágætt en alls ekki neitt svimandi, svo nefndi hún nöfn nokkurra höfunda og þýðenda sem ég kannast við og upphæðir sem voru svo háar að ég varð verulega undrandi og smá öfundsjúk. Áðan fór ég að efast um að ég hefði reiknað dönsku krónurnar rétt yfir í íslenskar svo ég rannsakaði málið. En nei, ég kann að reikna. Bjarne Reuter, sem er aðallega þekktur fyrir barna- og unglingabækur, fær andvirði hátt í tólf íslenskra milljóna úr danska bókasafnssjóðnum í ár, og Kim Fups Aakeson, sem margir Íslendingar þekkja, góðan slatta líka. Hér eru tölurnar. Nú vil ég hvorki líkja mér við þessa meistara né viðurkenna að ég sé vanþakklát, en þegar ég heyri minnst á Bókasafnssjóð íslenskra höfunda og þýðenda þá hugsa ég yfirleitt að ég sé jafn dauð hvoru megin sem ég ligg. Ég fékk rúmar 300 þúsund krónur úr þessum sjóði í fyrra og mun minna árið þar á undan. Samanlagður fjöldi bóka sem ég hef þýtt og skrifað er vel á þriðja tuginn og þar á meðal eru metsölukrimmar og barnabækur, sem eru víst bókmenntir sem lánast vel út á söfnum (ekki spyrja um ljóðabækur). En ekki misskilja mig; ef þið rekist á menntamálaráðherra þá megið þið gjarna spyrja hann hvort hann ætli ekki að skipa nefndina sem sér um að höfundar og þýðendur fái sína árlegu hungurlús greidda. Já og því má svo við bæta að það má alveg spyrja mig hvað ég sé að skrifa og hvort eitthvað sé upp úr því að hafa.
Svona lítur heggurinn út í dag - hann blómstrar því miður ekki í ár. |
Kommentarer
Skicka en kommentar