Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.
Bob Dylan er nýorðinn áttræður. Eins og var fyrirsjáanlegt spruttu Dylanmennirnir fram eins og grápöddur undan steinum og fögnuðu í einkamiðlum og á opinberum vettvangi. Fréttatími RÚV í gær fagnaði líka afmælinu með veglegri umfjöllun og einn menningarblaðamaður sagði í yfirskrift blaðagreinar að afmælinu fögnuðu allir góðir menn. Í morgun minntist vinkona mín á tíu ára gamla sænska grein, sem birtist í tilefni sjötugsafmælis nóbelsverðlaunahafans í nöldurkenndu rími (textinn við Positively 4th street hlýtur að vera eitt magnaðasta nöldur bókmenntasögunnar). Greinin Män som missbrukar Dylan , er eftir Hönnu Fahl og þar fjallar hún um Dylanmennina, en Hanna kveðst hafa hitt margan Dylanmanninn í lífi sínu. Nánasti vinur Hönnu, sagnfræðingurinn og skjalavörðurinn Fredrik Egefur, er Dylanmaður (hann er samt kannski fyrrverandi Dylanmaður núna), en Dylanmenn eru þeir sem vímast gjarna allir upp þegar Dylan berst í tal, þeir geta verið á öllum aldri og með ólíkar pólitískar skoðanir ...

Kommentarer
Skicka en kommentar