Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.
Það er mánudagur og rétt komið hádegi. Efsta atriðinu á listanum yfir það sem ég ætlaði að gera í dag er samt þegar lokið. Ég er búin að senda inn umsókn um listamannalaun fyrir árið 2025. Eiríkur Örn Norðdahl gerði listamannalaunaumsóknarskrifum skil um daginn og talar (í léttum tóni samt) um þessa h*$#*s ritlaunaumsókn . Hann vill fá fastráðningu og ég lái honum það svo sem ekki, það er ákveðin áskorun að sækja árlega um laun fyrir vinnu næsta árs og lifa síðan í nokkurra mánaða óvissu um hvort þau fáist. Það er hins vegar fjarri mér að kvarta, í fyrsta lagi er ég mjög þakklát fyrir hvern einasta mánuð sem ég hef fengið listamannalaun fyrir að sinna skrifum (ég fékk jákvætt svar við launaumsókn í fyrsta skipti þegar ég var að nálgast fimmtugt og var búin að gefa út þó nokkrar frumsamdar bækur og þýðingar) og svo finnst mér ekkert leiðinlegt að skrifa umsóknina. Þá gefst færi á að rifja upp verkefni ársins sem er að líða (það þarf auðvitað að uppfæra ferilsskrána) og setja saman text...
Kommentarer
Skicka en kommentar