Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.
Stundum les ég eða heyri að þeir sem tjái sig um bókmenntir fái oft yfir sig ægilegar gusur frá óhressum höfundum eða útgefendum. Þetta hef ég aldrei upplifað persónulega þrátt fyrir að hafa skrifað og spjallað um bókmenntir á ýmsum stöðum. Einu sinni skrifaði ég á fjölmiðil (sem nú er dauður) eitthvað í áttina að því að kafli í ákveðinni, þá nýrri, bók hlyti að vera leiðinlegasti kafli gjörvallrar íslenskrar bókmenntasögu, en enginn sendi mér skammarpóst hvað þá kúk í poka. Í mesta lagi hefur einhver hent mér út af facebook-vinalistanum og það er nú bara hressandi. En ég man að höfundur þakkaði mér einu sinni persónulega fyrir skrif um bók eftir sig. Það gerðist í gamla Blómavali við Sigtún. Viðkomandi höfundur, sem er nýbúinn að gefa út ljóðabók, skrifar á þessa síðu . Ég tek það samt fram að ég hef aldrei þurft að gefa bókum stjörnur. Þegar ég skrifaði gagnrýni fyrir Morgunblaðið, það var sennilega fyrir áratug, var stjörnugjöf ekki enn orðin regla. Fyrir nokkrum árum hætti Páll B...

Kommentarer
Skicka en kommentar