Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.
Starfandi framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, Mari Pangestu, segir í viðtali við DN að í coronafaraldrinum beri konur þyngsta krossinn. Hún vill kalla þetta alþjóðlega kvennakreppu, að covid-19 hafi breikkað bilið á milli kynjanna og rifið upp gamla mismunun. Kvennastéttir hafa orðið verst úti og konur hugsa mest um börnin sem sum hafa ekki hafa fengið að fara í skólann í lengri tíma. Meðan ég las viðtalið við hana, sem fjallar um konur um allan heim, rifjuðust upp fréttir sem ég hef lesið um að ekki sé hugað að jafnrétti í ákvörðunum á Íslandi, til dæmis er ein nýleg hérna um karllægar aðgerðir stjórnvalda . Í dag verður kynnt kæra níu íslenskra kvenna til Mannréttindadómstóls Evrópu . Konurnar kæra íslenska ríkið fyrir að fella niður mál þeirra. Þær höfðu kært kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi eða kynbundna áreitni en mál þeirra voru felld niður í íslensku réttarkerfi. Ofbeldi í garð kvenna er kerfisbundið. Til hamingju með baráttudag kvenna!

Kommentarer
Skicka en kommentar