Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.
Ef ég héldi mína persónulegu kvikmyndahátíð þá yrði hún gamaldags og full af myndum sem ég sá sem krakki og nokkrum sem ég sá á kvikmyndahátíð þegar ég var í menntaskóla. Mögulega veldi ég einhverja eftir Fassbinder og þessa um kvöldverðarboðið hjá borgarastéttinni eftir Luis Buñuel, Midnight Cowboy yrði líka sýnd og sömuleiðis 3 Women eftir Robert Altman. Psycho væri einhvers staðar á dagskránni, Fílamaðurinn , Nosferatu , Fanny og Alexander, Crossing Delancey, Frankie og Johnny og kannski Romancing the Stone eða Smokey and the Bandit . Íslenska bíómyndin yrði mögulega Fíaskó , hana sá ég reyndar bara í fyrsta skipti um daginn, en mér fannst hún mjög skemmtileg. Þetta yrði augljóslega mjög illa sótt kvikmyndahátíð og teldist til lítilla tíðinda. Þetta fór ég nú bara að hugsa um í morgun þegar ég las um norska rannsókn sem sýnir að talhraði fólks hefur aukist um 50 % síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Mér finnst nefnilega allt gerast allt of hratt í nýjum bíómyndum, ég á ...

Kommentarer
Skicka en kommentar