Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.
Það eru nokkrar rásir sem spilast í höfðinu á mér á hverjum tíma. Það er svo sem ekkert beinlínis að því (ég hélt einu sinni að allt fólk væri svona en nú skilst mér að það séu tekin lyf við þessu) en alla vega ákvað ég að skrifa niður eitthvað af því sem hefur bergmálað innra með mér í morgun. Byrjum á einni spurningu: Hvenær tók Vanilla Black, sem er útum allt í flösku sem pinnar standa uppúr, við af Ariel Ultra sem íslenska ríkislyktin? Ég hef oft rætt um Norðmanninn sem sagði mér að hann þekkti Íslendinga í strætó í Osló á þvottaefnislyktinni, en núna er það þessi Vanilla Black-lykt sem hefur yfirtekið þjóðfélagið. Mér persónulega finnst hún betri en þvottaefnislykt (ég nota bara svansmerkt og lyktarlaust þvottaefni) og er alveg í vanillu-teyminu, en þetta er samt kannski að verða gott með þessa lykt? Á meðan lesendur velta þessu fyrir sér ætla ég að snúa mér að næsta máli: Það bjó svokallaður svikahrappur í íbúð Félagsbústaða í um það bil áratug og át þar lyf út á resept látinnar ...
Kommentarer
Skicka en kommentar