Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.
Í gær skrifaði ég að ég hefði fundið sönnun þess í skrá Mæðrahjálpar Kaupmannahafnar að Elín Elísabet Jónsdóttir hefði eignast son með Jóhanni Jónssyni. Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, sem er að safna efni í bók um Jóhann, er sá sem hafði samband við mig um hvort ég hefði rekist á nafn Elínar og það var svo skemmtileg tilviljun að það hafði ég gert alveg óvænt. Eftir að hafa verið í sambandi við Guðmund og hann sent mér eitt heimilisfang og ég síðan fundið eitthvað um ferðir Elínar í Kaupmannahöfn sagði ég honum að skrár yfir fæðingar á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn væru á vef danska Ríkisskjalasafnsins en að það væri þolinmæðisverk að stauta sig í gegnum þær. Eftir að ég sendi honum póstinn datt mér samt í hug að taka smástund í að lesa nöfn fæðandi kvenna í Protokol over ugifte fødende (hemmeligfødende) á Ríkisspítalanum. Árið sem nafn Elínar er í bók Mæðrahjálparinn er 1917 svo ég gerði ráð fyrir að barnið hefði fæðst snemma það ár, hún mun hafa komið til Danmerkur 1916. Ég ...

Kommentarer
Skicka en kommentar