Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.
Ég hef mjög gaman af sögum um fjölskylduleyndarmál. Allskonar safaríkum og leyndardómsfullum sögum sem Íslendingabók og minningargreinar afhjúpa ekki, því fólki er svo umhugað að leyndarmálin komi ekki upp á yfirborðið. Það er oft ekki fyrr en í þriðju kynslóð, þegar þeir sem málið varðar eru komnir í gröfina, að afkomendur fara að leita sér upplýsinga eða kveikja á perunni, að flettist ofan af sögunum. Svona leyndarmál eru mun algengari en margt fólk heldur, það eru mjög margar manneskjur sem eiga sér dulafulla fortíð, eru narsissísk flögð undir fögru skinni eða hafa eitthvað magnað að dylja. Um síðustu helgi skemmti ég mér yfir svakalegri fjölskyldusögu í sex þáttum sem er á vef Danmarks radio og er vinsælasta hlaðvarpssería Dana um þessar mundir. Þættirnir heita Mors afskedsbrev . Adrian Lloyd Hughes er tæplega sextugur, vel þekktur og snobbaður, danskur fjölmiðlamaður sem gerði þetta vinsæla hlaðvarp. Þar fjallar hann um mömmu sína, Jette Dreyer Hughes, og hennar fjölskyldu og það...

Kommentarer
Skicka en kommentar