Fortsätt till huvudinnehåll

Inlägg

Visar inlägg från 2013

Urðu menn frá að hverfa

Svona er fallegt úti á horni á kvöldin Ferðahandbók Tómasar Cook segir maímánuð besta mánuðinn til að heimsækja Lyon. Veðrið gott og túrismann ekki brostinn á af fullu afli. Tómas getur auðvitað haft sínar skoðanir á veðrinu en það hefur rignt nánast þrotlaust í borginni síðan 10. maí. Nú er ég lífsreynd og þolgóð og veit að aldrei er hægt að stóla á neitt í þessu lífi, og allra síst veður, en ég er óneitanlega orðin hálfþreytt á vosbúðinni. Um daginn sló rafmagninu út í íbúðinni. Við hliðina á útidyrunum er rafmagnstafla sem var opnuð en hún var ekki alveg eins og íslenskar rafmagnstöflur og skýringar og krot við ýmsa takka á frönsku svo ekki þorði maður að fikta mikið í henni. Hnippt var í nágrannastúlku sem talaði við sambýlismann sinn en þau kunnu ekkert á svona lagað (aular). Þá var reynt að ná í bjórsalann á neðri hæðinni en í glugganum hjá honum var miði sem á stóð að hann væri í hádegismat á veitingahúsinu við hliðina og ekki kunnum við við að trufla hann við át og drykkj

Meira frá France

Lyon Miðsvæðis í Lyon eru gjarna gulli slegin skilti á húsunum sem vísa á klíník hjá höfuðbeina- og spjaldhryggs-jöfnurum, hnykkjurum, sálgreinum, hómópötum, sérhæfðum hárgreiðslumönnum, fótaaðgerðafræð-ingum, sérfræðingum í heildrænum kínverskum lækningum, tannfræðingum, lýtalæknum og spesjalistum í áfallahjálp og trámameðferð, svona fyrir utan sérfræðinga í heimilislækningum, kvensjúkdómum og hjarta- og æðasjúkdómum. Það er líka mikill fjöldi apóteka í borginni og þau eru oft eins og stórmarkaðir þar sem maður getur valsað á milli rekka og valið sér gyllinæðarsmyrsli, kvefúða, verkjalyf, móðurlífste, valeriana og allrahanda dót sem vinnur á ýmsum slæmum einkennum, bólgum og andvökum. Nú og svo eru hér auðvitað margar snyrtivöruhallir og deildir fullar af naglalökkum, meiki, kinnalitum, varalitum, augnskuggum og ilmvötnum. Hvort sem það er þessum meðferðaraðilum, lyfjum og snyrtivörum að þakka eða ekki þá er fólkið í miðborg Lyon almennt vel á sig komið, snyrtilegt og áferðarfalle

Þar sem strákarnir heilsast með kossum

Hús sem ég geng oft framhjá Líkt og í Norðurmýri er líklegt að maður vakni við svartþrastarsöng í gamla hverfinu í Lyon. Flest annað er ólíkt. Fyrir utan Nautastræti 9 er oft mjög margt um manninn seinnipart dags og um helgar. Það eru veitingahús í næstum öllum húsum í grenndinni, nema það sé bakarí, slátrari eða einhver smákaupmaður. Það er samt alveg magnað að ég verð næstum ekkert vör við allt fólkið sem er á sveimi um hverfið þegar ég er inni. Íbúðin snýr út að bakgarði og hér inni er yfirleitt algjör þögn. Ferðahandbókin heldur því fram að í borginni séu flestir veitingastaðir á kjaft í heimi. Og það er engin lygi að það sé mikið af góðum mat í Lyon. Allt sem ég hef keypt til að borða og drekka hefur verið gott. Misgott að vísu en samt alltaf gott og oftast mjög-mjög gott. Meira að segja texmex-borgarinn á McDonalds var með ætu brauði og góðu salati. Á torginu við dómkirkjuna Internetið í íbúðinni datt út fyrir viku. Skýringin er sú að leigusalinn okkar deildi þráðlaus

Lífsstílsbloggari í Lyon

Rue du Boeuf Við Snæbjörn erum búin að vera í Frakklandi síðan á föstudaginn. Flugið til Parísar var dúnmjúkt, enginn hristingur með tilheyrandi handsvita. Frá flugvellinum í París tókum við þægilega hraðlest hingað til Lyon, hún var bara tvo tíma að þeytast 470 kílómetra til borgarinnar við fljótið Rhône og leigubílstjóri ók okkur upp að dyrum á húsi númer 9 við Rue du Boeuf. Gatan er reyndar göngugata í gamla hverfinu en leigubílar mega hökta alla leið á áfangastað með ferðalúna góðborgara. Ég talaði frönsku við bílstjórann, þ.e.a.s. ég sagði götuheitið og númerið á húsinu. Það svínvirkaði. Annars er ég voðalega slök í frönsku, menntaskólalærdómurinn rétt nægir til að taka leigubíl og kaupa café au lait. Við hittum leigusalana, Stephane og Claire, sem ég fann á netinu og þau afhentu okkur lyklana og íbúðina sem er í húsi frá því um 1700 ef ég man rétt. Ferðahandbókin segir mér að gamla hverfið hafi verið í mikilli niðurníðslu eftir stríð og að upp úr 1950 hafi planið verið að ríf

Áfram með lífsstílsbloggið

Það er aldeilis ekki verið að standa sig hérna á ferðalífsstílsblogginu. Einhvern tíma í febrúar kom ég fljúgandi heim frá München og enn hefur ekki verið minnst á þá borg hér. Reyndar er ekki eins og eftirspurnin eftir þessu bloggi sé emjandi og ég þurfi eitthvað að vera að afsaka mig fyrir að hafa ekki skrifað neitt. En ég er eiginlega soldið búin að gleyma München, nema hvað hvítvínið sem ég drakk kostaði það sama og hér í Reykjavík (ónýt króna þið vitið) og mig minnir að allir í borginni hafi verið í sparifötum. Það var að minnsta kosti mikið af gömlu fólki í fínum fötum þarna í Bæjaralandi. Það er ekkert mjög langt í að ég byrji aftur að ferðast um lönd þar sem ég skil ekki mikið hvað innfæddir segja, ætli ég skrifi ekki næst þegar ég er komin í þessa litapallettu .

Meira frá Tékkó

Bloggsíða leggur fólki skyldur á herðar. Ekki síst ef um er að ræða ferðablogg. En flakk um Evrópu undanfarið hefur tafið fyrir skriftum og það er ekki fyrr en núna, í mínum eigin stofusófa með götóttu áklæði, að ég gef mér tíma til að rekja aðeins flandrið undanfarna viku. Hótel Antík á Dlouhá Eftir tveggja vikna dvöl í fagra og þægilega, gamla bænum Český Krumlov í Tékklandi lá leiðin til Prag. Við tókum rútu og gátum því horft á fallegt landslag þar sem ránfuglar sátu á staurum, dádýr nörtuðu gras sem stóð upp úr snjóföl, moldvörpuhrúgur mátti sjá á engjum og hér og þar glitti í bjórverksmiðjur. Við bóndabæi sáust líka svín í girðingum og brúnar hænur á vappi. Þvílík sæla ef íslenskir bændur hleyptu svínunum sínum út! Við ókum líka í gegnum borgirnar Budejovice og Písek sem aðdáendur góða dátans Svejks vita ýmislegt um. Ég hefði alveg getað hugsað mér að stökkva úr rútunni og dvelja nokkra daga á þeim stöðum. Þegar við komum til Prag tókum við jarðlest á næstu lestarstöð við H

Flökt í hjarta Evrópu

Hótelgluggarnir eru óþéttir og þegar vindhviðurnar þjóta um steinlögð stræti og á milli húsanna berst andvari um herbergið. Ef ég væri í draugamynd eða miðaldaseríu myndi logi á kerti flökta og skrjáfa í nátthúfu þegar ég hrasaði í stiganum. Í netblaðinu er viðtal við dósent við Háskóla Íslands sem segir frá Dr. Piers Steel sem „er helsti fræðimaður á sviði frestunaráráttu“, en fræði hans eru kennd í MBA-námi. Samkvæmt viðtalinu er 95% fólks með frestunaráráttu. Er ekki rétt að normalisera þetta bara og slaka á samviskubitinu? Já og láta frekar MBA-nemendur á öðru ári lesa ljóð? Í gær las ég ljóð sem heitir Another day og það er svona: Take some initiative... Do something with your life: I get up from the sofa, Walk across to the table And write these words Down on a scrap of paper. Then I return to the sofa and Fall asleep.

Ljótar ljósmyndir

Stolin mynd af bæjarleikhúsinu  Í krummaskuðinu Krummaborg er gamalt leikhús sem á sér langa sögu . Það stendur við götu sem heitir Horní og er um 200 metra frá aðaltorginu þar sem ég er stödd núna. Í leikhúsinu er kaffihús/bar, eina slíka lókalið ég hef komið inn á í Tékklandi þar sem ekki má reykja. Anddyri leikhússins minnir mig pínulítið á gamla Nýja bíó eða jafnvel Hafnarfjarðarbíó (sem var eitt fallegasta bíó Íslands - en auðvitað var það eyðilagt), það er einhver svoleiðis stemning þarna. Kaffihúsið á neðstu hæð er skemmtilega gamaldags og ekkert of fínt, mismunandi ljósakrónur og lampar og þjónustustúlkan var hressileg. Mér leið samt dálítið eins og á kaffistofu sagnfræðinga við Háskóla Íslands þarna inni í gærkvöldi. Á svæðinu voru nefnilega tólf karlar og ein kona (ég). Já og skömmu síðar bættist þrettándi karlinn í hópinn. Úr anddyrinu Hann hefur komið sér upp listamannslegu yfirbragði dávaldurinn og stjörnu- spekingurinn frá Budejovice. Kannski han

Hallarheimsókn og súrsuð bjúgu

Í Krummaborg er  kastali , gríðarlegt mannvirki, sem er á minjaskrá Sameinuðu þjóðanna og aðeins örfáa mánuði á ári fá nokkrar hræður að fara með leiðsögumanni um ranghala hans þar sem leynast meðal annars á fjórða hundrað herbergi, gullvagn frá Rómaborg, sérlega fagurt leikhús, ævintýralegir gangar sem virðast aldrei taka enda og allrahanda dót sem aristókratarnir réðu yfir allt fram á fimmta áratug síðustu aldar. Síðasta fjölskyldan sem átti kastalann áður en ríkið tók hann yfir er Schwarzenberg-slektið, en annar kandídatinn í lokabaráttu forsetakosninganna sem fóru fram í gær er einmitt sjötíu og fimm ára aðalsmaður af þeirri ætt, utanríkisráðherrann og furstinn Karl Johannes Nepomuk Josef Norbert Friedrich Antonius Wratislaw Menas, kallaður  Karel , en hann ku hafa tapað kosningunum. Veggplatti í höllinni Þrátt fyrir að kastalinn sé formlega séð lokaður bauðst okkur að komast í göngu með leiðsögumanni um nokkrar vistarverur hans og eftir morgunverð í morgun hófst sú för. Það

Í Bæheimi

Horft yfir borgina fyrsta daginn Þórunn Hrefna biður mig að skrifa eitthvað um svaðilfarir mínar í Tékkó. Það er auðvitað gleðilegt að fólk vilji heyra af mögulegum svaðilförum mínum og ég er reyndar búin að vera í heila viku hér í Český Krumlov í Tékklandi án þess að skrifa neitt  á þessa bloggsíðu sem ég ákvað eiginlega að ætti að vera upphafið að nýju bloggi, og það ekki síst ferðabloggi. Tími til kominn skulum við segja. Hins vegar var alltaf ætlunin að vinna hér í þessum mannfáa miðaldabæ og það hef ég svo sannarlega gert undanfarna viku. Ég hef þýtt margar síður og lesið heilar þrjár bækur. En ég hef líka borðað mikið af ódýrum og góðum mat og drukkið vín frá Moravíu og tékkneskan bjór.

Augnlok og heimsstyrjöld

Karen Blixen sagði eitthvað í þá átt að öll sorg yrði bærileg ef maður skrifaði hana inn í sögu. Ég veit ekki hvort þetta er rétt, enda er ég talsmaður bælingar og geri mér far um að bæla marga slæma hluti eins vel og ég get og myndi aldrei skrifa um þá. En mér finnst ósennilegt að óþolandi snyrtivöruofnæmið, með tilheyrandi bólgu og kláða, hverfi af augnlokunum á mér ef ég skrifa um það. Voðalegur fáviti var ég að klína á mig þessum augnskugga um daginn. Það er einkennilegt að hugsa til þess að ég hafi fæðst  aðeins 20 árum eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk. Synir mínir eru 22ja og 24ra ára og mér finnst frekar stutt síðan þeir fæddust. Hér er þriðji þátturinn í sjónvarpsþáttaröð . Þarna er líka hægt að horfa á 1. og 2. þátt.

Draslið

Vinnuherbergið mitt er á hvolfi; bækur í stöflum, jólaskraut í kössum og hrúgum, leikföng og allskonar dót á gólfinu og ef ég opna skápinn þá hrynja gamlar tölvur, tölubox, snúrur, kassar og allskonar dót á móti mér. Stemningin er sem sagt ekki eins og á neinum af myndunum á þessari síðu . Ég er að spá í að gera eitthvað í þessu en veit bara ekki hvar ég á að byrja. Kannski gerist eitthvað ef ég set Miles Davis eða Moses Hightower á. Já og ef það birtir einhverntíma af degi. Myrkrið er dálítið langvarandi.

Skriftir

Ég skrifa of lítið. Ég held að fólk skrifi almennt of lítið. Háskólakennari með áratugalanga reynslu segir mér að nemendur sem tóku próf hjá honum í desember hafi flestir skrifað einnar til einnar og hálfrar síðu svör við ritgerðarspurningu sem flestir svöruðu á þremur til fjórum síðum fyrir áratug. Hvað er að gerast?

Nýtt ár og nýtt blogg

Byrjum á Ninu Hemmingsson. Ég er einmitt með nýju ljóðabókina hennar á náttborðinu.