Fortsätt till huvudinnehåll

Sapere aude


Ég sit í lest. Lestin er stopp, hún stöðvaðist harkalega á teinunum fyrir nokkrum mínútum. Á aðra hönd er urð og á hina er skógur. Við hliðina á mér situr viðkunnanlegur karl sem lítur út fyrir að vera embættismaður. Jakkafötin, skyrtan, gleraugun, hárgreiðslan, úrið og skórnir benda til þess. Ég er búin að fletta blaði sem ég fann í sætisvasanum. Þar er enn ein greinin um mikilvægi fyrirmynda. Förebilder eins og þær heita á sænsku. Hvenær hófst hin suðandi umræða um mikilvægi fyrirmynda? Einu sinni las ég eitthvað eftir Foucault, ég man ekki hvert umfjöllunarefnið var nema að hann notaði hugtakið sapere aude. Það rifjaðist upp þegar ég fór að lesa um fyrirmyndir. Ég gúgglaði og komst að því að Fúkki hefur stolið þessu frá Immanúel Kant sem stal þessu frá rómversku skáldi, sniðugir karlar eru alltaf að stela einhverju sniðugu. En já, ég lærði einu sinni smávegis í latínu (mér fannst það frekar skemmtilegt en ég var ekki sérlega góður námsmaður) og þetta sapere aude sat í mér. Ég held að það þýði að maður eigi að þora að fara eftir eigin innsæi og skynsemi í stað þess að leita uppi fyrirmyndir til að elta. En nú brunar lestin aftur eftir teinunum.

Kommentarer