Ég er stödd í Kaupmannahöfn og undir lok liðinnar viku var ég að fletta skrám frá Mæðrahjálp borgarinnar frá því á öðrum áratug síðustu aldar. Þar rakst ég á örfá nöfn íslenskra kvenna, og reyndar karla líka, en aðeins tvö sem ég lagði á minnið.
Mæðrahjálpin hefur í rúm hundrað ár rekið hjálparstarf í Kaupmannahöfn. Áður störfuðu þar tvö félagasamtök sem aðstoðuðu einstæðar, barnshafandi konur og konur sem höfðu átt börn utan hjónabands, sem var síðan steypt saman í Mæðrahjálpina. Hjálpin fólst meðal annars í að hafa uppi á fjarverandi feðrum, koma börnum til ættleiðingar og að aðstoða við framfærslu. Nöfnin sem vöktu athygli mína voru Elín Elísabet Jónsdóttir og Jóhann Jónsson. Seint á föstudagskvöldið sendi ég Kristínu Svövu Tómasdóttur skilaboð, mig rámaði í þessa færslu sem hún skrifaði á sínum tíma um bókina Angantý.
Ég sagði Kristínu að ég hefði ekki lesið bókina en að ég hefði hlustað á útvarpsþætti um Elínu, sem Sóley Stefánsdóttir, afkomandi hennar (sem einnig var nágranni minn og samdi einu sinni með mér sálm) hefði gert fyrir RÚV, þeir þættir eru aðgengilegir hér. Og ég spurði auðvitað hvort það hefði komið fram hvort Elín Thorarensen hefði átt barn með Jóhanni Jónssyni. Þetta leiddi til spjalls okkar KST um gömul faðernismál og ýmislegt annað sem okkur finnst gaman að ræða, en stutta sagan er sú að snemma á laugardagsmorgni fékk ég skilaboð frá Kristínu Svövu og tilvitnun í eftirmála Soffíu Auðar Birgisdóttur við Angantý:
Sú saga er kunn meðal ættingja Elínar og Jóhanns að Elín hafi orðið barnshafandi af völdum Jóhanns og alið barn þeirra í Kaupmannahöfn og skilið það eftir þar í forsjá góðra vina þegar hún hélt heim aftur að sex árum liðnum. Hér verður ekki farið nánar í þá sögu þar sem ekki liggja enn fyrir traustar heimildir hvað málið varðar.
Þar höfum við það. En það sem stendur í skrá Mæðrahjálpar Kaupmannahafnar er væntanlega traust heimild um að barn hefur orðið til.
Ég ákvað að skúbba þessu á þessa síðu, sem er hér með orðinn minn prívat skúbb-vettvangur, en sögunni er ekki lokið. Þegar ég var búin að skrifa um helminginn af þessu innleggi í gær fór ég í göngutúr og síðan á tónleika. Á meðan ég var á flandrinu barst mér póstur frá sagnfræðingi sem er að skrifa um ævi Jóhanns Jónssonar. Hann las ég í gærkvöldi. Erindi sagnfræðingsins var að spyrja mig hvort ég hefði nokkuð rekist á nafn Elínar Jónsdóttur við rannsóknir á lífi íslenskra kvenna í Kaupmannahöfn. Er þetta ekki merkileg tilviljun? Nú segi ég bara eins og Jósefína Eyjólfsdóttir spákona sagði stundum: Þetta er eins satt og að Guð er sannur yfir okkur.
Sæl, ég er svo forvitin um hvort nafn Guðrúnar Sigríðar Skúladóttur f 31.mars 1896 (d 1920) kom einhvern tíma upp í grúskinu í Kaupmannahöfn, Hún á að hafa verið þar við nám, veit ekki hvenær.
SvaraRaderaMig rekur ekki minni til að hafa rekist á nafnið hennar. Eru einhverjar meiri upplýsingar til um hana? Hvar hún bjó eða hvort hún eignaðist barn?
SvaraRaderaNei hún eignaðist ekkk barn, þær voru þrjár systur frá Odda á Rangárvöllum sem dóu allar kornungar konur, ógiftar og barnlausar.
SvaraRaderaÞórhildur (1889-1918) var í lýðháskóla í Askov í Danmörku og Anna Soffía (1897-1938) var í Reykjavík 1930. Þær voru afasystur mínar.
Sendu mér skilaboð á thordisg@gmail.com Ella Sigga.
Radera