Kann ég ennþá að blogga? Erla er byrjuð aftur og mér finnst það svo skemmtilegt að ég ákvað að taka líka upp þráðinn. Mér finnst þessi bloggsíða reyndar ekki sérlega fallega útlítandi, kannski föndra ég eitthvað í henni við tækifæri og fegra hana. Nema ég láti það vera og verði mér úti um alvöru heimasíðu (svoleiðis halda margir rithöfundar úti) og hafi bloggmöguleika á henni, en það er annað mál. Ástæða þess að ég nota þessa síðu, en ekki gamla bloggið mitt sem ég skrifaði á um árabil, er sú að þessi var aðallega ferðablogg. Síðast þegar ég skrifaði á þessa síðu var ég stödd í Lyon í Frakklandi þar sem ég skrifaði Randalín og Mundi í Leynilundi. Sú bók er auðvitað löngu komin út og síðan hef ég skrifað þó nokkrar bækur á ýmsum stöðum. Á morgun legg ég af stað í mánaðarlangt ferðalag og ætlunin er að vinna í tveimur bókum í ferðinni. Önnur er framhald af þessari hérna en hin er ekki framhald af neinu. Ég býst við að bærinn sem ég ætla að dvelja í næstu vikurnar líkist ekki vitund Lyon í Frakklandi.
Ég er stödd í Kaupmannahöfn og undir lok liðinnar viku var ég að fletta skrám frá Mæðrahjálp borgarinnar frá því á öðrum áratug síðustu aldar. Þar rakst ég á örfá nöfn íslenskra kvenna, og reyndar karla líka, en aðeins tvö sem ég lagði á minnið. Mæðrahjálpin hefur í rúm hundrað ár rekið hjálparstarf í Kaupmannahöfn. Áður störfuðu þar tvö félagasamtök sem aðstoðuðu einstæðar, barnshafandi konur og konur sem höfðu átt börn utan hjónabands, sem var síðan steypt saman í Mæðrahjálpina. Hjálpin fólst meðal annars í að hafa uppi á fjarverandi feðrum, koma börnum til ættleiðingar og að aðstoða við framfærslu. Nöfnin sem vöktu athygli mína voru Elín Elísabet Jónsdóttir og Jóhann Jónsson. Seint á föstudagskvöldið sendi ég Kristínu Svövu Tómasdóttur skilaboð, mig rámaði í þessa færslu sem hún skrifaði á sínum tíma um bókina Angantý. Ég sagði Kristínu að ég hefði ekki lesið bókina en að ég hefði hlustað á útvarpsþætti um Elínu, sem Sóley Stefánsdóttir, afkomandi hennar (sem einnig var nágrann...
Kommentarer
Skicka en kommentar