Ég hef sjálf óseðjandi áhuga á íslenskum konum sem voru í Kaupmannahöfn á síðustu öld og er einmitt núna stödd í borginni og búin að lesa ýmis skjöl á Ríkisskjalasafni Dana og fletta upp í Borgarskjalasafninu. Ég hef ekki fundið nákvæmlega það sem ég er beinlínis að leita að og sem tengist íslenskri konu sem bjó í Kaupmannahöfn mikinn meirihluta ævinnar (hér eru útvarpsþættirnir um hana), en ég hlýt samt að finna þetta á endanum, nú bíða mín tvær útkrotaðar bækur í Svarta demantinum.
Ekki er ég sagnfræðingur og ekki geng ég mjög skipulega til verka, en ég yrði kannski ágætur einkaspæjari því ég er forvitin og þolinmóð þegar ég hef áhuga á einhverju og svo er ég mjög góð í að lesa hrafnaspark á gömlum dánarvottorðum og í lögregluskýrslum og dómabókum. Á fyrri hluta 20. aldar voru fleiri íslenskar konur í Kaupmannahöfn en karlar. Þessar konur hafa fæstar farið á bari, margir barir voru líka bannaðir konum. Þær unnu fyrir sér sem kaffijómfrúr, saumakonur, vændiskonur, vinnukonur, skúringakonur, húsmæður, bústýrur, straukonur, ljósmæður, hjúkrunararkonur, búðarkonur og þær ráku gistihús og voru listakonur og alla vega ein var bókmenntaþýðandi. Nafn einnar íslenskrar konu í Kaupmannahöfn rakst ég á þegar ég var að rekja ferðir Guðnýjar Eyjólfsdóttur þegar ég vann að útvarpsþáttunum um hana. Það sem vakti athygli mína varðandi þá konu var að í skjalasafni Kaupmannahafnarborgar er nóta þar sem segir að hún hafi látist árið 1939 vegna eitrunar af völdum kakerlakpulver. Konan hét Laufey Árný Ólafsdóttir og var fædd í janúar 1905. Í gær rakst ég aftur á nafn þessarar konu og ákvað að reyna að finna út hvað hún hefði verið að gera í Kaupmannahöfn. Mér tókst að rekja ferðir hennar um borgina frá árinu 1920, þegar hún var 15 ára. Hún starfaði á gistihúsum og veitingastöðum og bjó víða um borgina og í Humlebæk á árunum 1920-1923. Árið 1922 var hún buffetnemi og bjó í Købmagergade og hafði þá logið sig tveimur árum eldri en hún var, væntanlega til að komast í námið (upploginn aldur íslenskra kvenna í Kaupmannahöfn er sérstakt efni, ég veit um eina sem laug sig áratug yngri en hún var því hún átti mun yngri mann, og svo laug hún líka upp á sig fínum starfstitli, en það er annað söguskott). Laufey Árný átti áreiðanlega áhugaverða ævi, sú saga er sennilega öllum hulin og verður tæpast sögð, en þegar hún dó á Bispebjerg Hospital, 4. maí árið 1939, er hún titluð garderobedame og hún deyr, sem fyrr segir, af völdum kakkalakkaeiturs, sem ég held að sé bórsýra. Læknir skrifar í dánarvottorðið að um sjálfsvíg sé að ræða, konan hafi fundist rænulaus og köld og dáið klukkustund eftir að hún var flutt á spítala. Á dánarvottorðinu stendur líka að lögreglan sjái enga þörf á rannsókn og að óhætt sé að jarða líkið. Á dánarstundu bjó Laufey Árný í nýlegri blokk í Valby og var jarðsett frá Jesúskirkjunni. Dánartilkynning birtist í íslenskum blöðum nokkrum dögum eftir andlátið.
Eftir að hafa flett upp í kirkjubók og skoðað dánarvottorð Laufeyjar Árnýjar, sem stakk af til Kaupmannahafnar fimmtán ára gömul, fór ég auðvitað í Íslendingabók. Þar er dánardagur hennar ekki skráður en það kemur fram að hún hafi búið í Reykjavík 1910. Foreldrar hennar, Sæmundur Ólafur Guðmundsson (1871-1961) og Guðríður Árnadóttir (1881-1940), hafa líklega aldrei búið saman, Guðríður er skráð vinnukona í Kaldaðarnessókn 1901 og lausakona á Skólavörðustíg 1920 og á Bergþórugötu 1930. Sæmundur Ólafur er einhvers staðar annars staðar.
Amma Laufeyjar Árnýjar hét Rannveig Jóelsdóttir. Það þarf ekki annað en að slá nafnið hennar inn á timarit.is eða einhverja leitarvél til að finna út að hún var dæmd fyrir dulsmál á sama tíma og Skúli Thoroddsen stóð í frægum málaferlum, það var árið 1893. Í dómnum yfir Rannveigu kemur fram að hún hafi fyrirfarið nýfæddu barni vegna hræðslu við mann sem hún átti tvö börn með fyrir, nú var hún ólétt eftir annan (sennilega húsbóndann þar sem hún var vinnukona) og óttaðist hinn barnsföðurinn. Hún henti barnslíkinu í Ölfusá en það rak á land og hún var dæmd til sex ára betrunarhúsvistar. Þetta stendur um hana í Íslendingabók.
Ekki hef ég kynnt mér hvort og þá hvar Rannveig sat inni en manntölin og Íslendingabók gerðu mér fært að rekja ferðir hennar norður í land og Rannveig bjó síðast á Raufarhöfn með manni sem hún hefur hugsanlega kynnst í fangelsi. Sá maður hét Sigurjón Einarsson (1868-1938) og hann hafði fengið tíu ára dóm fyrir að eignast barn með systur sinni, Sólborgu, og nú kviknar væntanlega á perunni hjá einhverjum því margt hefur verið rætt og ritað um það draugalega mál þar sem Einar Benediktsson kom mjög við sögu og sem Matthías Johannessen, Thor Vilhjálmsson, Guðjón Friðriksson og margir blaðamenn hafa fjallað um, málið dúkkar reglulega upp og um það eru margar kenningar. Hér eru nokkrar krækjur um Sólborgarmálið:
https://timarit.is/page/1924555#page/n23/mode/2up
https://www.visir.is/g/20151786496d/jon-ottar-raedur-gatuna-um-solborgarmalid
https://www.dv.is/fokus/2022/11/26/sagan-af-solborgu-og-sigurjoni-sifjaspellsmalid-sem-markadi-skaldid-til-lifstidar/
Ekki hef ég fundið neina mynd af Laufeyju Árnýju Ólafsdóttur, því miður. Ég held nú áfram að reyna að finna það sem ég leita að, en takist það ekki þá finn ég alla vega alltaf einhverjar áhugaverðar sögur um íslenskar konur, ég gæti sagt ykkur nokkrar verulega magnaðar og geri það kannski síðar.
En spennandi !
SvaraRadera