Í gær skrifaði ég að ég hefði fundið sönnun þess í skrá Mæðrahjálpar Kaupmannahafnar að Elín Elísabet Jónsdóttir hefði eignast son með Jóhanni Jónssyni. Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, sem er að safna efni í bók um Jóhann, er sá sem hafði samband við mig um hvort ég hefði rekist á nafn Elínar og það var svo skemmtileg tilviljun að það hafði ég gert alveg óvænt. Eftir að hafa verið í sambandi við Guðmund og hann sent mér eitt heimilisfang og ég síðan fundið eitthvað um ferðir Elínar í Kaupmannahöfn sagði ég honum að skrár yfir fæðingar á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn væru á vef danska Ríkisskjalasafnsins en að það væri þolinmæðisverk að stauta sig í gegnum þær. Eftir að ég sendi honum póstinn datt mér samt í hug að taka smástund í að lesa nöfn fæðandi kvenna í Protokol over ugifte fødende (hemmeligfødende) á Ríkisspítalanum.
Árið sem nafn Elínar er í bók Mæðrahjálparinn er 1917 svo ég gerði ráð fyrir að barnið hefði fæðst snemma það ár, hún mun hafa komið til Danmerkur 1916. Ég byrjaði að lesa, hóflega vongóð, og las hvert einasta nafn konu sem fæddi á laun frá desember 1916. Þeim lestri lauk á því að ég fann skráð að Elín Elísabet Jónsdóttir Thorarensen, fráskilin vinnukona, hefði fætt son þann 24. maí 1917 og að við fæðinguna hafi hún verið búsett hjá Thoroddsen á Raadhusgade 21 í Charlottenlund.
Næsta skref var þá að finna kirkjubók. Ríkisspítalinn var sérstök sókn og þar voru fæðingar skráðar. Ég vissi að sú bók væri öll skönnuð því ég hef áður kíkt í hana og það tók mig ekki langa stund að finna þetta. Í bókinni stendur að Knud Jónsson Østergaard sonur Elínar Elísabetar Thorarensen f. Jónsdóttur hafi verið skírður í kirkjunni í Lyngby 26. júlí 1919 og skírnarvottar hafi verið gårdsejer Peder Christiansen Østergaard og kona hans Christine Sørine.
Næsta hænufet var að finna kirkjubók frá Lyngby og hún var á sínum stað á internetinu (guð blessi Dani fyrir að vera duglegir að skanna skjöl). Þar kemur fram að Knud Østergaard, sonur ógiftrar Elínar Jónsdóttur hafi verið skírður í Lyngby kirkju 26. júlí 1919 og að ættleiðingarforeldrar séu landeigandinn Peder Christiansen Østergaard og kona hans Christine Sørine og að þau séu búsett í Hissinge. Í kirkjubókinni koma líka fram nöfn skírnarvotta en meðal þeirra er forstöðukona barnaheimilis í Lyngby.
Þið getið ímyndað ykkur að ég var himinlifandi með að vera komin með þetta allt, mér fannst ég alveg vera að standa undir framhaldsskúbbi við fréttina frá í gær. Ég ákvað samt, þó að komið væri vel fram yfir miðnætti, að hætta ekki strax og reyna að finna meira um Knud. Ég byrjaði auðvitað á því að slá nafnið Knud Østergaard inn í leitarvél og samstundis birtist danskur pólitíkus. Þetta gat ekki verið minn Knútur því þessi var fæddur árið 1922. Þegar ég renndi yfir æviatriði þessa Knuds, sem var menntaður í hernum, handtekinn af Gestapo, ráðherra í tveimur ríkisstjórnum og almennt mikill spaði sem meira að segja skrifaði ævisögu sína, sá ég að foreldrar hans voru engin önnur en ættleiðingarforeldrar sonar Elínar og Jóhanns. Þar með dró ég þá ályktun að hann hefði verið nefndur í höfuðið á syni þeirra og að sá drengur hefði sennilega ekki orðið langlífur.
Þar sem Sherlock Holmes sefur aldrei þá klóraði ég mér í hausnum og hélt ótrauð áfram.
Hissinge, stóð í kirkjubókinni frá Lyngby og hvaða staður er það? Jú, hann er á Jótlandi og ekki langt frá Álaborg. Ég fann kirkjubók frá Vestra Hissinge á vef Ríkisskjalasafnsins og skrá yfir látna á árunum uppúr 1920. Sem betur fer er þetta ekki svimandi stór sókn. Ég byrjaði að fletta kirkjubókinni aftur á bak frá seinni hluta ársins 1922 og komst að því að Knútur litli hefði dáið 20. maí það ár og verið jarðsettur í Hissinge 26. maí.
Bróðirinn, sem fæddist örfáum mánuðum á undan Knud eldri, hefur verið látinn heita í höfuðið á honum. Sagan um barn Elínar Elísabetar Jónsdóttur Thorarensen og Jóhanns Jónssonar var sem sagt komin. Ég hætti samt ekki alveg strax, eins og kom fram í færslu sem ég skrifaði hér fyrir nokkrum dögum eru Danir búnir að skanna inn mörg dánarvottorð og einhvern tíma þegar allt heiðarlegt fólk var steinsofnað fann ég dánarvottorð Knuds litla Østergaard og þar stendur (á latínu) að hann hafi látist úr lungnaberklum.
Þetta er nokkuð athyglisvert. Elín Elísabet Jónsdóttir er einmitt langamma mín og pabbi, Lárus, ólst upp hjá henni, og þær tvíburasystur, Herdís og Ólína Andrésdætur voru á heimilinu um það leyti sem pabbi var að alast upp, skilst mér, en Herdís er móðir Elínar Elísabetar.
SvaraRaderaÉg er að skrifa bók um Jóhann Jónsson. Leita að ljósmyndum af Elínu og fjölskyldu hennar. Geturðu aðstoðað eða bent á einhvern sem getur það?
RaderaBlessaður, Guðmundur, ætti að geta kannað málið.
Radera