Fortsätt till huvudinnehåll

Enn í Åmål

Enn er ég í Åmål en skrapp reyndar til Karlstad um helgina til að fá hvíld frá fásinninu. Þangað er klukkutíma róleg lestarferð. Mér finnst hægar lestir betri en hraðar. Í Karlstad sá ég safnið með myndum eftir Lars Lerin, gamla steinbrú og fleira skemmtilegt.

Í Víðsjá í dag fjallaði Steinunn Inga Óttarsdóttir mjög vel um Velkomin til Ameríku, eftir Lindu Boström Knausgård. Bókin, sem ég þýddi í vetur, er nýkomin út og ef einhvern langar að hlusta þá er hann hér þátturinn og umfjöllunin hefst á 36. mínútu.  

Ljóðalesturinn í kúltúrhúsinu hjá okkur Louise Halvardsson gekk, held ég, ljómandi vel og hér er viðtal við mig sem birtist í héraðsfréttablaðinu. Það er pláss fyrir fólk í litlum bæ eins og Åmål.

Úr gönguferð í kvöld. Lestargöng sem hafa ekki verið notuð í áratugi.

Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

My friend and I

Undanfarið hef ég svolítið verið að hugsa um bókmenntagagnrýni, já eða mögulegan skort á henni og bókmenntaumræðu almennt, og um eitthvað sem Páll Baldvin Baldvinsson skrifaði í opnu bréfi fyrir nokkrum árum, þegar hann hætti að gagnrýna bækur. Í morgun, þegar ég vaknaði allt of snemma, datt mér í hug að fara á fætur og skrifa það sem ég var að hugsa og finna bréf Páls og hugleiðingu sem ég skrifaði í norska blaðið Klassekampen þar sem gagnrýni var til umræðu. Ég fór á fætur og inn á baðherbergi og rak þá augun í bók Jóhanns Hjálmarssonar, Malbikuð hjörtu , lúið eintak sem kom út árið 1961 og er með teikningu eftir Alfreð Flóka á kápunni. Ég fór að fletta bókinni (já, á klósettinu) og las meðal annars ljóð sem  heitir Skugginn . Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hefði heyrt að Jóhann Hjálmarsson hefði einhvern tíma lögsótt hljómsveitina Trúbrot fyrir að stela frá sér texta ljóðsins. Það tók ekki margar sekúndur að finna útúr því hvernig málinu lauk (dómurinn féll í desember árið 1974).

Drottninggatan

Ég er stödd á gistiheimili í Stokkhólmi. Í gærkvöldi át ég salat upp úr plastboxi í kvöldmat og hámhorfði svo á Skam. Mér finnst þetta skemmtilegir þættir en ég og vinir mínir vorum nú ekki alveg jafn þroskuð við upphaf menntaskólanáms eins og norsku ungmennin. Þau eru líka sennilega eldri en þau eiga að vera, ég meina sko leikararnir. Þannig virkar kannski leiklistarbransinn, fyrst leikur fólk niður fyrir sig og síðan upp fyrir sig og svo er það rekið. Hádegismaturinn var bökuð kartafla með skagenröra. Í kvöld ætla ég að hitta þýðanda og forleggjara og drekka með henni bjór. Á morgun held ég ferðinni áfram, þá er sex klukkustunda lestarferð á dagskrá.

Hlemmur

Ég held ekki að ég sýni dómgreindarleysi varðandi eigin persónu þó að ég haldi því fram að ég sé sjaldan utan við mig. Ég er ekki vön því að týna hlutum og gleyma, fara í öfug föt, koma of seint eða ruglast á dóti. En í morgun tókst mér samt að bursta tennurnar með andlitskremi úr túpu sem var keypt í sænsku apóteki um daginn. Ég var búin að bursta duglega í svona tíu sekúndur þegar ég fann beiskt krembragðið. Oj! Ég er ekki meðlimur í Costco svo ekki fer ég þangað í bili. Hins vegar fór ég áðan í pólsku búðina á Hlemmi og keypti pipar. Það er svolítið erfitt að versla þar vegna þess að allt er merkt á pólsku, en ég get nú ráðið í ýmislegt. Þar fæst líka brauð sem heitir chleb. Og talandi um Hlemm þá er spurning hvort mögulegt ofmat á fjölda túrista verði til þess að hótelið sem verið er að ljúka við, ásamt fjölda annarra hótela í grenndinni, muni kannski standa hálftómt. Ég hef reyndar litla trú á því, og fjölgi túristum ekki eins og kanínum verður örugglega hægðarleikur að breyta h

Síðdegi flísaleggjarans

Það er eitthvað mjög áhugavert við að leggja flísar. Púsl með tilgang, verk sem er ekki beinlínis mjög auðvelt, en samt ekkert sérlega flókið og getur gengið býsna hratt. Það getur samt alveg tekið á taugarnar. Nú erum við að leggja lokahönd á flísagólf, annað kvöld mun ég fúga og í lok vikunnar verður glænýtt gólf á einu herbergi í kjallaranum. Á meðan ég lagði síðustu flísarnar áðan fór ég að hugsa um bók eftir höfund sem ég hef miklar mætur á. Það er maður sem skrifaði texta sem ég sogast oft inn í því hann er svo óskaplega tær og þægilegur, tilgerðarlaus og innihaldsríkur. Bókin sem ég hugsaði um heitir En kakelsättares eftermiddag eða Síðdegi flísalagningamanns og höfundurinn heitir Lars Gustafsson. Hann var meðal annars prófessor í Austin í Texas en  ættaður frá Västerås og gamall skólafélagi P. O. Enqvist. Lars Gustafsson dó fyrir rúmu ári síðan. Bókin um síðdegi flísaleggjarans er stutt (margar bækur LG eru stuttar og þéttar), hún kom út 1991 en ég las hana nokkrum árum síð

Vatnaleiðin og Álabókin

Það voru ekki margir á leið frá Stykkishólmi niður í Borgarfjörð í gær (ætli það megi ekki að segja niður í því samhengi?). Veðrið var fallegt, nokkrir hestar í vetrarbúningi átu hey og kindur vöppuðu á stöku stað fyrir utan bæi. Ég veit ekkert um landbúnað en klakabunkarnir yfir sumum túnum ímynda ég mér að geti valdið kali. Þegar ég fer um sveitir hugsa ég stundum með mér, þegar ég sé fallegt hús eða áhugavert bæjarstæði, ekki síst ef það er nálægt sjó og ekki hangandi utan í ógnvænlegu fjalli, að þarna gæti ég búið með nokkur hross og einhver smádýr, rekið flóamarkað í hlöðu og boðið einum og einum skiptinema til dvalar. Í fyrradag las ég einmitt frétt í einhverjum fjölmiðli um að Guðmundur í Brimi hefði keypt Þingvelli í Helgafellssveit, sjávarjörð í grennd við Stykkishólm. Mig minnir endilega að í fréttinni hafi staðið að hann eigi aðra jörð á Snæfellsnesi, hann er kannski að safna Snæfellsnesinu. Nú hvarflar skyndilega að mér að biðja Guðmund að selja mér skika í Helgafellssveit

Með veggteppi fyrir gluggunum

Þegar þessar línur eru skrifaðar er ég stödd í húsi í jaðri Reykjavíkur. Húsið er byggt 1968 sem sumarbústaður og þess vegna ekki einangrað með það í huga að í því sé dvalið þegar hitinn utanhúss nálgast tíu mínusgráður. Þegar ég kom hingað var hitinn inni við frostmark og frosið í blöndunartækjunum í eldhúsinu. Eftir þriggja tíma dvöl og kyndingu með rafmagnsofnum og kamínu er hitastigið orðið bærilegt, en rétt áðan var ég samt að prjóna vettlinga með ullarhúfu á höfðinu.  Fyrir nokkrum árum keypti ég þrjú hnausþykk, ofin ullarveggteppi á fimm hundruð krónur stykkið í nytjamarkaði. Eitt þeirra fór strax upp á vegg en tvö lentu í kistli, eins og gerist stundum með hluti sem fólki áskotnast og það kann að meta, en veit ekki hvað það á að gera við. Áðan blasti lausnin skyndilega við; teppin eru fullkomin fyrir gluggana með örþunna, einfalda glerinu. Þau eru falleg og einangra lygilega vel.

Stykkishólmur

Þessa vikuna dvel ég á hótel Egilsen í Stykkishólmi. Frá mánudegi hef ég verið eini hótelgesturinn, reyndar eina manneskjan í húsinu, og mér finnst það mjög skemmtilegt. Hér er góð kaffivél sem heitir Moccamaster, húsið er fallegt og útsýnið dásamlegt. Í gær tók ég við því sem pósturinn kom með og talaði við mann sem las af mæli.     Í morgun fór ég fyrir tilviljun að hlusta á hlaðvarpsþátt þar sem maður sem heitir Snæbjörn talar við mann sem bjó í Stykkishólmi á unglingsárum. Þetta er fjögurra tíma samtal (eru íslensk podköst oft svona löng?) sem fjallar að mestu um dapurlega hluti, en þetta er samt mjög áhugavert. Flosi er á svipuðum aldri og ég, við ólumst bæði upp á tímum Marteins Mosdals þegar fólk harkaði áföll lífsins af sér, bjór var bannaður og unglingar drukku íslenskt brennivín. Meðan ég hlustaði á þetta samtal gekk ég meðfram sjónum og síðan eftir ýmsum götum í Hólminum og út í Bónus. Ég mætti engri gangandi manneskju, jú reyndar einum manni sem fór síðan upp í bílinn sinn.

Bækur og tré

Fyrrverandi bókaútgefandi sem er núna rithöfundur segir hér að bækur séu að styttast. Ég veit ekki hvort það sé rétt en sumar þykkar bækur eru samt farnar að fara í taugarnar á mér. Vissulega las ég alla doðrantana í ritröð Karls Ove Knausgårds, sem fjalla mestmegnis um hann sjálfan (og svo er langt innslag í einni bókinni um Hitler, en ég nennti nú ekki að lesa það allt), en eftir á hugsaði ég með mér að þetta væri auðvitað óþolandi manspreading hjá karlinum, hvers vegna finnst þessum manni hann mega taka svona mikið pláss í hillum og svona langan tíma af lífi okkar? Ein bók þar sem þetta kemur aðeins við sögu er Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson. Sú bók er 118 blaðsíður, sem mér finnst einmitt rétta lengdin. Hún er líka mjög skemmtileg og ég væri til í að sjá bíómynd eftir henni. Það gerist raunar ekki mikið í bókinni, þarna er einhver maður sem býr í hjólhýsi og málar myndir af trjám og veltir ýmsu fyrir sér. Til dæmis því að bækur séu búnar til úr trjám og að það sé óvistvænt og f

Stórir rassar og stór hús

    Áðan las ég smartlandsumfjöllun um mann sem hætti að leigja íbúð í Grafarvogi vegna dýrtíðar (og vegna þess að hann var ekkert mjög mikið heima hjá sér) og keypti sér hjólhýsi sem hann býr í ásamt sambýliskonu. Um daginn las ég líka um danska konu sem fannst borgarlífið í venjulegri íbúð tilgangslaust og óvistvænt. Konan keypti sér hirðingjatjald og flutti ásamt ungum syni inn í sænskan skóg og þar hafa þau búið um árabil við aðstæður sem flestum þykja frumstæðar. Mér finnst þetta áhugaverðar sögur því ég velti því svo oft fyrir mér hvað fólk þarf marga fermetra undir rassinn á sér (svo ég tali nú ekki um alla bílana sem þjóna hlutverki yfirhafna fyrir mjög marga - sumt fólk sem ég þekki ekur alltaf eitt í bíl, það virðist ekki einu sinni geta deilt bíl með þeim sem það deilir rúmi með). Hvers vegna þarf fólk svona mikið pláss? Hafið þið séð hvað mörg hús og íbúðir sem eru til sölu og eru óheyrilega stór? Nú skil ég alveg að einhver kjósi að hafa rúmt um sig en mér fi

Skólabörn

Sænska ríkistjórnin vill banna kynjaskipta bekki . Málið hefur verið rætt mikið undanfarið eftir að kom í ljós að einhverjir múslimskir einkaskólar hafa stelpur og stráka aðskilin í leikfimi og reyndar kom í ljós fyrir skömmu að á einum stað fá stelpur og strákar ekki að nota sömu dyr á skólarútum . Ríkisstjórnarfólk sem vill banna aðskilnaðinn, meðal annarra menntamálaráðherrann, segir alla skóla í Svíþjóð eiga að vinna markvisst að jafnrétti og að það verði ekki gert með aðskilnaði kynjanna. Núna er leyft í Svíþjóð að skilja kynin að í einstaka fögum en ekki er vitað hversu algengt það er. Ég hef aldrei skilið hvað mörgum á Íslandi finnst sjálfsagt að skilja kynin að í skólabekkjum. Og hvar lenda þau sem upplifa sig ekki endilega sem strák eða stelpu? Gegn kynjaaðskilnaði skólabarna börðust margar kvenréttindakonur á sínum tíma víða um heim. Um daginn las ég um finnska uppeldisfrömuðinn og femínistann Lucinu Hagman sem fæddist 1853 og dó um miðja síðustu öld. Hún barðist ötullega