Ekki hef ég enn lesið bók eftir nýjan Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum en ég hef heyrt umræður um bækurnar hennar, bæði þegar Grænmetisætan kom út á íslensku og eftir að tilkynnt var að Han Kang fengi verðlaunin. Í gær birtist lesendabréf í sænska blaðinu DN þar sem kona sem heitir Anne-Marie Morberg er að býsnast yfir því hvað þýðendur fái litla athygli í stóra bókmenntasamhenginu. Þeirra tungumálaþekking og málkennd byggir brýr yfir landamæri á milli tungumála og þegar Han Kang er hyllt fyrir ljóðrænan prósa á Norðurlöndum þá er líka verið að hrósa þýðendunum sem koma textanum til skila, það ætti alla vega að vera þannig, segir Anne-Marie sem skrifar lesendabréfið. Hún segist hins vegar hafa þurft að hafa fyrir því að fletta upp nafni þess sem hefur þýtt Han Kang á sænsku því á það hefur varla verið minnst í sænskum fjölmiðlum. Eftir að þetta lesendabréf birtist hefur fleira fólk stigið fram og tekið undir, meira að segja hefur verið bent á það að þýðandi eigi höfundarrétt á sænskum texta í þýddri bók! Það virti Sænska ríkissjónvarpið ekki þegar umræður um verðlaunin, sem nokkrar menningartýpur tóku þátt í, voru í sjónvarpinu og lesið var upp úr Grænmetisætunni. Auðvitað komu nöfn umsjónarmanns þáttarins og allrahanda tæknimanna og þátttakenda fram í lok þáttar en ekki nafn þýðanda textans sem var lesinn. Ég hef svo sem ekkert skoðað þetta kerfisbundið á Íslandi en veit að eftir að tilkynnt var um verðlaunahafann var strax haft samband við Ingunni Snædal sem þýddi Grænmetisætuna. Sem þýðanda er mér málið skylt og veit að oft er ekkert minnst á þýðanda þegar fjallað er um bókmenntir. Það er líka ekkert endilega þannig að þýðendur vilji fá of mikla athygli fyrir vinnuna sína eða mæta í viðtöl um bækurnar sem þýddar eru (ekki frekar en rithöfundar, það er allur gangur á því hvað þeir kjósa að vera mikið í sviðsljósinu) en auðvitað er þetta réttlætismál og gott að einhver nenni að röfla yfir þessu og mér finnst líka mjög líklegt að af þessum Svíum í Nóbelsverðlaunanefndinni sé ekki einn einasti sem hefur lesið bók eftir Han Kang á frummálinu.
Ég er stödd í Kaupmannahöfn og undir lok liðinnar viku var ég að fletta skrám frá Mæðrahjálp borgarinnar frá því á öðrum áratug síðustu aldar. Þar rakst ég á örfá nöfn íslenskra kvenna, og reyndar karla líka, en aðeins tvö sem ég lagði á minnið. Mæðrahjálpin hefur í rúm hundrað ár rekið hjálparstarf í Kaupmannahöfn. Áður störfuðu þar tvö félagasamtök sem aðstoðuðu einstæðar, barnshafandi konur og konur sem höfðu átt börn utan hjónabands, sem var síðan steypt saman í Mæðrahjálpina. Hjálpin fólst meðal annars í að hafa uppi á fjarverandi feðrum, koma börnum til ættleiðingar og að aðstoða við framfærslu. Nöfnin sem vöktu athygli mína voru Elín Elísabet Jónsdóttir og Jóhann Jónsson. Seint á föstudagskvöldið sendi ég Kristínu Svövu Tómasdóttur skilaboð, mig rámaði í þessa færslu sem hún skrifaði á sínum tíma um bókina Angantý. Ég sagði Kristínu að ég hefði ekki lesið bókina en að ég hefði hlustað á útvarpsþætti um Elínu, sem Sóley Stefánsdóttir, afkomandi hennar (sem einnig var nágrann...
Kommentarer
Skicka en kommentar