Fortsätt till huvudinnehåll

Karl skrifar bók - kona les bók

Nú er ég búin að lesa aðra bókina sem ég hef keypt hérna í Kaupmannahöfn. Það er bókin Store Kongensgade 23 eftir Søren Ulrik Thomsen (f.1956). Ég held að mér sé óhætt að segja að Søren Ulrik sé eitt þekktasta ljóðskáld Dana. Hann byrjaði sem módernisti en hefur seinni árin verið að færa sig yfir í alþýðlegri kveðskap (þetta las ég einhvers staðar og sel ekki dýrar en ég keypti, ekki ætla ég að þykjast vera vel lesin eða búin að ígrunda ljóð hans). Litla bókin (et essay, kallar hann hana), sem ber nafn heimilisfangs þar sem hann bjó í eitt ár þegar hann flutti með fjölskyldunni til Kaupmannahafnar utan af landi 17 ára gamall, er eins konar endurminningabók. Hún fjallar um mótunarár höfundarins og móður hans sem veiktist á geði þegar hann var ungur. Søren Ulrik Thomsen er níu árum eldri en ég. Það má auðvitað segja að við séum bæði svolítið roskin og með annan fótinn á grafarbakkanum, en mér finnst samt fyndið að hann skrifar svolítið eins og hann sé háaldraður maður. Það er samt kannski skiljanlegt ef horft er til höfundarferilsins, hann gaf út fyrstu bók 26 ára (mín fyrsta bók kom út þegar ég var 45 ára). Mér sýnist Søren Ulrik hafa gefið út sex eða sjö ljóðabækur á svona fjörutíu ára bili (hér er Wikipedia-síða og listi yfir verk hans) og einhverjar esseiur í viðbót, hann hefur sem sagt langan höfundarveg að líta yfir og hann hefur setið í áratugi í Dönsku Akademíunni. 

Í Boghallen við Ráðhústorgið er skilti sem segir að Store Kongensgade 23 hafi fengið tólf stjörnur samtals frá tveimur gagnrýnendum. Danir gefa bókum greinilega sex stjörnur í einum pakka! Svo fær hann líka fimm hjörtu í Politiken. Tilvitnunin í einn gagnrýnandann er mjög klisjukennd; að það sé hvorki orði ofaukið eða orði of lítið í þessari bók. Það var ekki vegna allra þessara stjarna og lofsamlegra ummæla sem ég keypti bókina (mér finnst svona hæp oft tortryggilegt), ég bara sá hana á tilboði í bókabúð á Nørrebrogade og keypti hana af forvitni og almennum áhuga á endurminningum. 

Um leið og ég byrjaði að lesa fékk ég áhuga á bók Sørens Ulriks Thomsens. Hann skrifar gamaldags dönsku með mörgum aukasetningum og þar sem ég er að reyna að bæta dönskukunnáttu mína hentar það mér mjög vel að lesa dálítið snúinn stíl þar sem ég þarf að velta fyrir mér setningum og orðum og svo er efnið mjög áhugavert. Hann er töluvert að velta fyrir sér tíma okkar og hvert hann fer eiginlega á meðan ævin líður. Gagnrýnandi bókarinnar tjáði sig eins og þetta væri eitthvað mjög sérstakt (eins gott að ég er bara að skrifa á mína eigin síðu og þarf ekki að finna tilvitnanir) en þetta er auðvitað það sem höfundar eru alltaf að skrifa um. Í bókinni Barndommens gade eftir Tove Ditlevsen, sem kom út 1941, stendur til dæmis: Hvor bliver tiden af? Hvor glider vi i grunden hen? Þetta datt mér bara í hug því ég var að þýða bókina Gift eftir Tove í sumar og endurlas ýmislegt eftir hana af því tilefni.

Undanfarin ár hef ég lesið ýmislegt um sögu geðlækninga, ég skrifaði um það á þessa síðu fyrir einhverju síðan. Søren Ulrik hefur mjög ákveðnar skoðanir á geðlækningum og tjáir sig um það í bókinni í tengslum við að mamma hans var geðveik í sjö ár á miðjum aldri. Hún dvaldi langdvölum á geðdeildum, fór í fjölmargar raflækningar og fékk mikið af geðlyfjum á þessu tímabili. Svo læknaðist hún skyndilega eftir samtal við sálgreinanda og lifði lífi sínu algjörlega laus við geðræn vandamál í yfir fjörutíu ár. Af þessu dregur höfundurinn þá ályktun að geðlækningar séu á talsverðum villigötum, það sé samtalið sem skipti mestu máli þegar geðheilsan er annars vegar. Hann trúir líka lítið á ýmsar nútímagreiningar, t.d. ADHD/ADD og lyfjagjafir við slíkum eiginleikum. Hér er viðtal við hann um eitthvað af þessu.

Ég fékk mikinn áhuga á mömmu Sørens Ulriks Thomsens. Þeim áhuga er bara ekki nægilega svalað við lesturinn. Og mér finnst hann skrifa býsna mikið eins og geðlækningar í dag séu eins og geðlækningar fyrir 1970. Mér datt í hug fólk sem gagnrýnir grunnskólann á Íslandi en hefur varla komið inn í grunnskóla síðan 1980. Auk þess er hann alveg kynblindur. Hann virðist aldrei velta því fyrir sér að mamma hans var kona, hún var ómenntuð (en skrifaði ljóð og hefði átt að verða málvísindakona, segir sonurinn) og missti fyrsta barnið sitt. Hann horfir einhvern veginn á hana utan frá - eins og mömmu - en kafar ekki djúpt í sögu hennar og tráma lífs hennar. Hann veltir því ekkert fyrir sér hvort eða hvernig heilbrigðiskerfið komi öðru vísi fram við konur en karla og hvernig það hefur leikið margar konur í gegnum árin. Mér finnst þetta mjög undarlegt og mjög sjálfhverft. Reyndar hefði þetta ekki átt að koma mér á óvart, á einum stað í bókinni nefnir Søren Ulrik að eftir að hann skrifaði einu sinni grein um lestur í Politiken hafi hann verið gagnrýndur fyrir að nefna nöfn 32 karlhöfunda og 2 kvenhöfunda, svo segist hann hafa komist að því, eftir að hafa rennt yfir eigin bókahillur, að líklega finnist honum bækur eftir karla bara skemmtilegri. Gamli menningarkarlinn gengur þarna ljósum logum, hann er algjörlega ómeðvitaður um ólíkt hlutskipti kynjanna og að setja á sig kynjagleraugu hefur aldrei hvarflað að honum. Ætli enginn ritstjóri/yfirlesari hafi hnippt í hann? Store Kongensgade 23 kom út núna rétt fyrir mánaðamót svo það er ekki mikið búið að skrifa um hana, en ég mun reyna að fylgjast með umræðum um bókina. Eitthvað segir mér að þessar tólf stjörnur og fimm hjörtu hafi lagt línurnar. 


Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Bloggvinsældir og hipsteraskegg Raspútíns

Eitthvað hefur gerst á þessu bloggi. Undanfarnar vikur hafa daglegir gestir verið örfáir tugir, jafnvel bara tveir, en skyndilega fór að rjúka úr teljaranum og nú nálgast gestakomur síðan í gær þúsund. Ég óttast þó ekki að vinsældirnar verði varanlegar, gestum fækkar væntanlega aftur þegar Costco verður opnað. Fyrr í dag hittumst við Gunnþórunn Guðmundsdóttir í Efstaleiti og ræddum við Höllu Þórlaugu um bók vikunnar . Það var mjög skemmtilegt, mér finnst eiginlega jafn gaman að tala um bækur og að lesa bækur (og líka skemmtilegra að tala um bækur annarra en mínar eigin). Í stúdíóinu var ég spurð hvort ég væri úr sveit, svoleiðis spurningu fær fólk sem tekur að sér að tjá kaldlyndi gagnvart viðkvæmum og sjálfsleitandi hipsterum; í mér blundar sennilega harðbrjósta spegilsjálf Óttars Guðmundssonar. Á meðan ég beið eftir strætó á Rauðarárstígnum í morgun bölvaði ég ísköldu norðanroki og íhugaði að flytja til heitu landanna (eða að minnsta kosti til Danmerkur). Nú eftir hádegi rofaði h

Kaupmannahöfn

Í annað skipti á þessu ári er ég stödd í borginni við Eyrarsund. Ég er í miklu hipsteragettói á Norðurbrú. Hér er fólkið fagurt, kaffið með jurtamjólkinni gott og baðherbergin endurnýjuð. En fólk reykir samt enn á börum og svölum og í gær gekk ég í gegnum grasreykingaský, það minnti mig nú örlítið á miðbik Laugavegar. Það er reyndar eitthvað um það að fólk sé skotið hér í grenndinni, ég nenni samt ekki að vera stressuð og í skotheldu vesti, held líka að í bili sé búið að semja um vopnahlé við eiturlyfjarússaða og byssuóða unglinga í tilvistarkreppu. Íbúðina fann ég á airbnb og hún er alveg dásamleg, með svölum sem snúa inn í garð og full af vínylplötum og ljóðabókum. Á ísskápnum er ástarbréf og það er svo fallega orðað að þegar ég las það (auðvitað má lesa bréf sem hanga framan á ísskápum) hefði ég tárast smá væri ég ekki svellkaldur nagli með hjarta úr steini. Skrifarinn fær næstum óþægilega öran púls við að hugsa um íbúðareigandann og viðkomandi elskar hvern einasta sentimetra af

Málfar

Málbreytingar hafa mér alltaf fundist áhugaverðar. Ég man nákvæmlega hvar og hvenær ungur maður otaði að mér konfektkassa árið 1985 og bauð mér mola með orðunum: „Ég var að versla mér konfekt“. Mér fannst þetta merkilegt orðfæri, ég hafði aldrei heyrt sögnina að versla notaða nema um magninnkaup og verslunarleiðangra. Nú er alvanalegt að menn versli sér skópar eða pulsu og ég er löngu hætt að velta þessu orðalagi fyrir mér. Ég man líka að ég heyrði dvalarhorfið fyrst notað eins og nú er mjög algengt þegar kona sem ég vann með á leikskóla í Austurbænum árið 2001 sagði „Ég er ekki að skilja þetta barn.“ Mér fannst þetta áhugavert, enda skrifaði Jón G. Friðjónsson pistil í Moggann nokkrum árum síðar og sagði þetta komið frá íþróttafréttamönnum og brjóta í bága við málvenjur. Ég held samt að mér hafi fundist þetta töff og að það hafi liðið mjög skammur tími þar til ég hafði tekið upp þennan dvalarhorfsósið. Áðan byrjaði ég að lesa nýja bók eftir ungan höfund (ég er líklega byrjuð á a

Frosið brokkólí, skáldalaun og erótískar gáfur

Kofi í snjó Í útjaðri borgarinnar á ég gamalt A-hús, sumarbústað sem var byggður á sjöunda áratug síðustu aldar. Á lóðinni við kofann er ýmislegt ræktað þegar ég nenni, en þar grotnar líka oft gamli rabarbarinn frá fyrri eigendum niður því ég nenni ekki að taka hann upp og nota hann. Í fyrravor sáði ég slatta af (löngu útrunnum) fræjum í beð, þar á meðal var brokkólí. Vegna viðvarandi óveðurs framan af sumri óx lítið af því sem ég sáði og brokkólíið var svo smávaxið í haust að mér fannst ekki taka því að taka það upp. Hins vegar hefur verið ágætt veður í vetur svo að í dag datt mér í hug að fara uppeftir og skoða grænmetið. Það þurfti að dusta snjó af brokkólíinu (það er enginn snjór í póstnúmeri 105 en töluverður í 113 og mun meira frost en í lægri númerum) og brjóta það af stilkunum. Öll uppskeran fór í eitt grænmetislasanja, sem er einmitt núna í ofninum. Hrímað brokkólí Í morgun las ég grein í Dagens Nyheter þar sem nokkur sænsk ljóðskáld eru spurð hvernig þau sjái fyr

Þjóð í hlekkjum

Í dag fékk ég skemmtilegan póst frá konu og rithöfundi sem stingur upp á að við fáum okkur kaffi. Hún segist líka hafa verið að láta frá sér marga árganga af Tímariti Máls og menningar. Þeir voru fullir af greinum eftir misyfirlætislega karlmenn, en hún lét mig vita að hún hefði klippt eina grein úr, það er þessi grein sem ég skrifaði fyrir tuttugu árum , og var auðvitað búin að gleyma hvað stæði í. Mér sýnist þetta standast tímans tönn ágætlega hugmyndafræðilega, en núna myndi ég skrifa svona grein í allt öðrum stíl, svona ef ég á annað borð gæfi mér tíma til að skrifa grein. Mér finnst áhugavert að það eru engar millifyrirsagnir settar inn í svona langa grein. Sem ritstjóri í dag hefði ég brotið þetta upp. En nú er ég komin í vinnugír og ætla ekki að skrifa meira, þess vegna ætla ég ekkert að ræða ferð mína í gær á barinn Mónakó á Laugaveginum.

Stjörnurnar í Alabama

Er ein á skrifstofunni að hlusta á Ellu Fitzgerald syngja Stars fell on Alabama og Blue Moon. Ég á ný föt, það er ýmislegt að frétta og það er snjór í sendiráðshverfinu.

2019

Klukkan er korter yfir tíu og enn er dimmt úti. Áðan spilaði einhver á Rás 1 Vals moderato, ekki uppáhaldsútgáfuna mína með Elsu Sigfúss heldur ósungna útgáfu, instrúmental eins og það kallast. Elsa söng sennilega inn á hátt í 200 hljómplötur, það vita áreiðanlega ekki margir. En nú spilar KK Hey Nineteen, eitt af mínum máttlausu áramótaheitum var að hætta að hlusta eins mikið á snekkjurokk og ég geri, það mun sennilega ekki takast. Í dag ætla ég ekki að fara vestur í bæ að vinna, ég ætla að vera heima og lesa Millilendingu eftir Jónas Reyni Gunnarsson, fara í Sundhöllina og synda, drekka kaffi í stofunni og skrifa kannski  smávegis. Í lok vinnudags hef ég svo mælt mér mót við fólk á opinberum stað, ef ég man rétt. Mynd dagsins er af Bodil Malmsten.

Í Bæheimi

Horft yfir borgina fyrsta daginn Þórunn Hrefna biður mig að skrifa eitthvað um svaðilfarir mínar í Tékkó. Það er auðvitað gleðilegt að fólk vilji heyra af mögulegum svaðilförum mínum og ég er reyndar búin að vera í heila viku hér í Český Krumlov í Tékklandi án þess að skrifa neitt  á þessa bloggsíðu sem ég ákvað eiginlega að ætti að vera upphafið að nýju bloggi, og það ekki síst ferðabloggi. Tími til kominn skulum við segja. Hins vegar var alltaf ætlunin að vinna hér í þessum mannfáa miðaldabæ og það hef ég svo sannarlega gert undanfarna viku. Ég hef þýtt margar síður og lesið heilar þrjár bækur. En ég hef líka borðað mikið af ódýrum og góðum mat og drukkið vín frá Moravíu og tékkneskan bjór.

Fuglasöngur

Spói ( Numenius phaeopus) Í gær fékk ég póst frá ritstjóra tímarits. Þar var ég beðin um að skrifa pistil um ákveðið efni í tímaritið. Að launum fyrir pistilinn er í boði árs áskrift að tímaritinu. Ég brást vel við erindi ritstjórans, ég hef sjálf verið ritstjóri tímarits og veit að það er ekki hlaupið að því að fá fólk til að skrifa pistla eftir dyntum ritstjóra og ég veit líka að það er erfitt að halda úti tímaritum í örlitlu málsamfélagi. Ég kýs að líta á skrifin sem eins konar samfélagsþjónustu, svona svipað og að Vitabar sinnir ýmsum þörfum samborgaranna (þessi loðna samlíking þyrfti hugsanlega útskýringar við en ég stend ekki í því að útskýra neitt, þetta les hvort sem er enginn). Gallinn við pistlaskrifin er hins vegar sá að ég þarf að skila pistlinum fyrir mánudag. Ég passaði mig á því þegar ég var ritstjóri að biðja fólk um að skila skrifum með löngum fyrirvara, fólk tekur miklu frekar vel í það að gera eitthvað smáræði ef því er sagt að það hafi marga mánuði til að vinna verk

Bækur

Ég hef ekki opnað þetta blogg síðan ég var á Sikiley fyrir tæpum tveimur mánuðum, en ákvað rétt í þessu að ég hefði tíma og væri í stuði til að skrifa smávegis. Það er dálítið mikið að gera, ég þeysist um landið ásamt Atla/Kött Grá Pje því við erum skáld í skólum þessa dagana. Í vikunni höfum við verið í skólum í Reykjavík, á Flúðum og í Grindavík að hitta skemmtilega unglinga en í dag er frí frá því verkefni. Í dag þarf ég hins vegar að flengjast upp á Funahöfða og lesa úr nýrri bók sem við Hildur skrifuðum saman, það er framhald af bókinni um Dodda sem kom út fyrir nákvæmlega ári, ég mæli með henni! Nú og svo er ég byrjuð að þýða nýja (en samt gamla) bók. Í gærkvöldi horfði ég á heimildarmynd á Netflix um Joan Didion. Myndin er alveg ágæt, kannski dálítið yfirborðsleg, en mér finnst samt heimildarmyndir um áhugavert fólk alltaf forvitnilegar. Í myndinni kom fram að Joan drakk (eða drekkur) kók og borðaði hnetur í morgunmat, það finnst mér svalt. Í kjölfarið rifjaði ég upp blogg sem