Við Handelshögskolan í Stokkhólmi er búið að stofna Center for wellbeing, wellfare and happiness, sem á að verða fjölþjóðlegt þekkingarsetur um hamingju og vellíðan. Það er líka búið að ráða prófessor við þetta setur, hann heitir Micael Dahlén og var áður prófessor við sama skóla í markaðsfræði og neytendahegðun. Micael Dahlén hef ég oft séð í sjónvapsviðtölum, hann er skemmtilegur og mjög töff prófessor, svo töff að hann er með húðflúr á puttunum, það er auðvitað bara ofursvalt fólk sem er með svoleiðis. Micael Dahlén er fæddur 1973 og varð prófessor 34 ára, yngstur Svía. Hann er líka svo töff að hann gerir æfingavídeó fyrir fólk og hefur skrifað bók um líkamsrækt, hann fjuff-tränar, eins og hann kallar það, sem þýðir að hann æfir lítið og oft.
Í morgun las ég viðtal við Micael Dahlén sem er tekið í tilefni af nýja prófessorsstarfinu (sem ég öfunda hann smá af, hversu mikið væri ég ekki til í að vera hálaunaður prófessor í hamingjufræðum einmitt núna þegar listamannalaunatímabilinu mínu er að ljúka?) en þann 24. október næstkomandi hefst kennsla í Center for wellbeing, wellfare and happiness. Mér finnst þetta hljóta að vera mjög sniðugt nám, hversu mörg okkar þurfa ekki einmitt á því að halda að læra hvernig á að öðlast hamingjuna eða spá í að það er ekkert hægt að vera alltaf hamingjusöm, lífið er náttúrlega bara endalaust vesen og áhyggjur og við erum öll alltaf meira og minna á þriðju vaktinni, sú vakt er nefnilega bara lífið sjálft, krakkar mínir.
Það var einhver ríkur grósser sem gaf Viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi fullt af pening og nú á Micael Dahlén að fá tíu ár til að byggja upp stofnunina sem á að verða þekkingarsetur á heimsmælikvarða og verður það öruglega. Og auðvitað eru vellíðan og hagfræði alveg nátengdir hlutir, ég get til dæmis svo svarið það að mér finnst líf mitt mun skemmtilegra eftir að ég byrjaði að kaupa hlutabréf og spara í verðbréfasjóðum (það var í fyrra þegar ég áttaði mig á því að ég fengi eiginlega engin eftirlaun og ætti engan viðbótarlífeyrissparnað) jafnvel þó að ég hafi þegar þetta er skrifað tapað 7,35% af peningunum sem ég hef fjárfest fyrir. Það er líka svo augljóst að fólk sem líður vel er meira skapandi, geðbetra, skemmtilega og betri vinnukraftar en þeir sem líður illa. Micael Dahlén hefur áður kennt námskeið í vellíðan og hamingju sem hefur verið vinsælt hjá nemendunum í Handels, eins og skólinn er kallaður. Nemendurnir verða margir yfirmenn og þeir þurfa að kunna að stuðla að hamingju starfsmannanna og það gera þeir með því að gera vinnustaðina betri og þar með allan heiminn, myndi ég halda.
Það sem mér fannst skemmtilegast í viðtalinu við Micael Dahlén (það birtist í DN í gær) er það sem hann segir um ákvarðanatöku í lífinu. Ákvarðanir sem eru mjög erfiðar og óþægilegar og við ýtum kannski á undan okkur eða sleppum því að taka eru nefnilega oftast ekkert svo erfiðar og óþægilegar þegar öllu er á botninn hvolft. Það sem miðaldra og gamalt fólk sér eftir í lífinu er, þegar upp er staðið, mjög oft það sem það gerði ekki, segir Micael Dahlén. Þetta fannst mér gaman að lesa vegna þess að þetta hef ég sagt við fólk síðan ég var unglingur og segi oft enn. Það er mjög ólíklegt að þú sjáir eftir að hafa hætt í leiðinlegri vinnu, flutt til Hamborgar í tvö ár eða keypt þér hjól og byrjað að hjóla í vinnuna! Í upphafi var þetta allt kannski frekar yfirþyrmandi en þegar málin eru skoðuð eftir á þá var þetta allt saman rétt og gerði lífið skemmtilegra og innihaldsríkara. Ástæða þess að ég hef oft sagt fólki, sem hefur leitað ráða hjá mér, að flytja endilega, hætta í vinnunni og fara að læra eitthvað skemmtilegt eða kaupa sér saumavél eða setja niður kartöflur, svona ef það er að pæla í einhverju af þessu á annað borð, er sú að ég las þessa speki, sem Micael Dahlén hefur kannski líka lesið án þess að hann muni það, í viðtali þegar ég var unglingur. Mér fannst þessi orð svo skynsamleg að ég klippti þau út úr blaði og límdi inn í bók sem ég á enn. Þetta var þegar ég var 15 ára og þá var það sænska leikkonan Ingrid Bergman sem haft var eftir að hún sæi ekki eftir því sem hún hefði gert í lífinu heldur því sem hún hefði ekki gert.
P.S. Lóa Björk er bloggvinkona mín, fylgist endilega með skemmtilega blogginu hennar. Það er hér.
Micael Dahlén með húðflúr á puttunum |
Kommentarer
Skicka en kommentar