Í gær sagði ég á skrifstofunni, sem ég deili með nokkrum konum sem allar eru snillingar, að X-kynslóðin væri búin að eyðileggja svo margt. Mér var auðvitað svarað með "ókei boomer" og "farðu nú ekki ofan í þessa gröf, Þórdís" en mér fannst ég mega segja þetta því ég skilgreini sjálfa mig sem X-kynslóð (svona þannig séð, ég skilgreini mig svo sem ekkert sem einhverja kynslóð). Það sem ég var að vísa í var að það er búið að loka flestum gamaldags kaffihúsum sem seldu venjulegt kaffi með ábót og heiðarlegt ristað brauð með osti, í staðinn drekk ég súrt kaffi sem kostar 890 krónur bollinn og borða súrdeigsbrauð með avókadó sem ég veit ekki hvar vex. Ég sakna Kaffi Roma á Rauðarárstíg þar sem ófrítt fólk sat og drakk kaffi með kennarastofubragði og las Séð og heyrt. Ég reiknaði út að það kostar mig um 300 þúsund krónur á ári að drekka einn svona dýran kaffibolla á dag. Þetta fór ég að spá í vegna þess að maður í hlaðvarpsþættinum Leitin að peningunum segir að það kosti um 200 þúsund að drekka einn orkudrykk á dag, sem mér skilst að menntaskólanemar geri gjarna. 300 þúsund fyrir að drekka gott kaffi með fallegu fólki er kannski alveg afsakanlegt, hafi fólk efni á því, en það er varla í boði fyrir blankt eða nískt fólk.
Ég er búin að sækja fullt af sveppum upp á heiði í landi Reykjavíkur og slatti er kominn í frystinn og magann. Sveppirnir vaxa ekki í lúpínubreiðum heldur í lyngbreiðum og mosa í grennd við gömul birkitré og furur. Á meðan ég var að toga þá upp úr lynginu hoppaði ropandi rjúpa um skammt frá mér.
Kommentarer
Skicka en kommentar