Í garðinum við húsið mitt í Kaupmannahöfn eru tunnur fyrir flokkað rusl, svona eins og gengur og gerist, þar á meðal ein fyrir lífrænan úrgang. Í horni garðsins er líka kúla fyrir gler og skot fyrir storskrald; húsgögn, raftæki, innréttingar og fleira, sem er sótt fólki að kostnaðarlausu. Þetta finnst mér algjörlega til fyrirmyndar, ég ergi mig stöðugt á því hvað grenndarstöðvar eru fáar í Reykjavík, það er alltaf gert ráð fyrir því að fólk komi akandi í þær. Þennan mánuð sem ég hef dvalið hérna hef ég leitað að fullkomlega niðurbrjótanlegum pokum undir lífrænt rusl. Þá hef ég oft keypt í Reykjavík en alls ekki fundið í búðum hér í kringum mig. Í gær tók ég mig til og fór að leita mér upplýsinga um dönsk ruslamál á vefsíðum. Þar komst ég að því að húsfélög geta pantað fötur og poka undir lífrænan úrgang sér að kostnaðarlausu og deilt til íbúanna. Einnig kom fram að það megi sækja poka og fötur í hin og þessi bókasöfn og einhverja fleiri opinbera staði. Mér fannst þetta eitthvað furðulegt en í dag gekk ég samt út í bókasafnið við Rauða torgið á Nørrebro og komst að því að þetta er satt. Þarna biðu fötur og pokar við innganginn.
Undanfarnar vikur hafa Halldór Guðmundsson og Þorgerður E Sigurðardóttir verið með mjög áhugaverða útvarpsþætti á RÚV um Íslendinga í Kaupmannahöfn. Síðasti þátturinn verður á dagskrá næsta laugardag og ég hlakka til að hlusta á hann. Í þáttunum, sem heita Skáld og skrælingjar , hefur Halldór meðal annars minnst á íslenska karla sem sátu hver yfir öðrum á knæpum í grennd við Kóngsins nýjatorg og uppnefndu Dani, en líka hefur verið minnst á nokkrar konur. Ég hef sjálf óseðjandi áhuga á íslenskum konum sem voru í Kaupmannahöfn á síðustu öld og er einmitt núna stödd í borginni og búin að lesa ýmis skjöl á Ríkisskjalasafni Dana og fletta upp í Borgarskjalasafninu. Ég hef ekki fundið nákvæmlega það sem ég er beinlínis að leita að og sem tengist íslenskri konu sem bjó í Kaupmannahöfn mikinn meirihluta ævinnar (hér eru útvarpsþættirnir um hana ), en ég hlýt samt að finna þetta á endanum, nú bíða mín tvær útkrotaðar bækur í Svarta demantinum. Ekki er ég sagnfræðingur og ekki geng ég mjög skip...
Kommentarer
Skicka en kommentar