Í garðinum við húsið mitt í Kaupmannahöfn eru tunnur fyrir flokkað rusl, svona eins og gengur og gerist, þar á meðal ein fyrir lífrænan úrgang. Í horni garðsins er líka kúla fyrir gler og skot fyrir storskrald; húsgögn, raftæki, innréttingar og fleira, sem er sótt fólki að kostnaðarlausu. Þetta finnst mér algjörlega til fyrirmyndar, ég ergi mig stöðugt á því hvað grenndarstöðvar eru fáar í Reykjavík, það er alltaf gert ráð fyrir því að fólk komi akandi í þær. Þennan mánuð sem ég hef dvalið hérna hef ég leitað að fullkomlega niðurbrjótanlegum pokum undir lífrænt rusl. Þá hef ég oft keypt í Reykjavík en alls ekki fundið í búðum hér í kringum mig. Í gær tók ég mig til og fór að leita mér upplýsinga um dönsk ruslamál á vefsíðum. Þar komst ég að því að húsfélög geta pantað fötur og poka undir lífrænan úrgang sér að kostnaðarlausu og deilt til íbúanna. Einnig kom fram að það megi sækja poka og fötur í hin og þessi bókasöfn og einhverja fleiri opinbera staði. Mér fannst þetta eitthvað furðulegt en í dag gekk ég samt út í bókasafnið við Rauða torgið á Nørrebro og komst að því að þetta er satt. Þarna biðu fötur og pokar við innganginn.
Bob Dylan er nýorðinn áttræður. Eins og var fyrirsjáanlegt spruttu Dylanmennirnir fram eins og grápöddur undan steinum og fögnuðu í einkamiðlum og á opinberum vettvangi. Fréttatími RÚV í gær fagnaði líka afmælinu með veglegri umfjöllun og einn menningarblaðamaður sagði í yfirskrift blaðagreinar að afmælinu fögnuðu allir góðir menn. Í morgun minntist vinkona mín á tíu ára gamla sænska grein, sem birtist í tilefni sjötugsafmælis nóbelsverðlaunahafans í nöldurkenndu rími (textinn við Positively 4th street hlýtur að vera eitt magnaðasta nöldur bókmenntasögunnar). Greinin Män som missbrukar Dylan , er eftir Hönnu Fahl og þar fjallar hún um Dylanmennina, en Hanna kveðst hafa hitt margan Dylanmanninn í lífi sínu. Nánasti vinur Hönnu, sagnfræðingurinn og skjalavörðurinn Fredrik Egefur, er Dylanmaður (hann er samt kannski fyrrverandi Dylanmaður núna), en Dylanmenn eru þeir sem vímast gjarna allir upp þegar Dylan berst í tal, þeir geta verið á öllum aldri og með ólíkar pólitískar skoðanir ...

Kommentarer
Skicka en kommentar