Í Boghallen við Ráðhústorgið er skilti sem segir að Store Kongensgade 23 hafi fengið tólf stjörnur samtals frá tveimur gagnrýnendum. Danir gefa bókum greinilega sex stjörnur í einum pakka! Svo fær hann líka fimm hjörtu í Politiken. Tilvitnunin í einn gagnrýnandann er mjög klisjukennd; að það sé hvorki orði ofaukið eða orði of lítið í þessari bók. Það var ekki vegna allra þessara stjarna og lofsamlegra ummæla sem ég keypti bókina (mér finnst svona hæp oft tortryggilegt), ég bara sá hana á tilboði í bókabúð á Nørrebrogade og keypti hana af forvitni og almennum áhuga á endurminningum.
Um leið og ég byrjaði að lesa fékk ég áhuga á bók Sørens Ulriks Thomsens. Hann skrifar gamaldags dönsku með mörgum aukasetningum og þar sem ég er að reyna að bæta dönskukunnáttu mína hentar það mér mjög vel að lesa dálítið snúinn stíl þar sem ég þarf að velta fyrir mér setningum og orðum og svo er efnið mjög áhugavert. Hann er töluvert að velta fyrir sér tíma okkar og hvert hann fer eiginlega á meðan ævin líður. Gagnrýnandi bókarinnar tjáði sig eins og þetta væri eitthvað mjög sérstakt (eins gott að ég er bara að skrifa á mína eigin síðu og þarf ekki að finna tilvitnanir) en þetta er auðvitað það sem höfundar eru alltaf að skrifa um. Í bókinni Barndommens gade eftir Tove Ditlevsen, sem kom út 1941, stendur til dæmis: Hvor bliver tiden af? Hvor glider vi i grunden hen? Þetta datt mér bara í hug því ég var að þýða bókina Gift eftir Tove í sumar og endurlas ýmislegt eftir hana af því tilefni.
Undanfarin ár hef ég lesið ýmislegt um sögu geðlækninga, ég skrifaði um það á þessa síðu fyrir einhverju síðan. Søren Ulrik hefur mjög ákveðnar skoðanir á geðlækningum og tjáir sig um það í bókinni í tengslum við að mamma hans var geðveik í sjö ár á miðjum aldri. Hún dvaldi langdvölum á geðdeildum, fór í fjölmargar raflækningar og fékk mikið af geðlyfjum á þessu tímabili. Svo læknaðist hún skyndilega eftir samtal við sálgreinanda og lifði lífi sínu algjörlega laus við geðræn vandamál í yfir fjörutíu ár. Af þessu dregur höfundurinn þá ályktun að geðlækningar séu á talsverðum villigötum, það sé samtalið sem skipti mestu máli þegar geðheilsan er annars vegar. Hann trúir líka lítið á ýmsar nútímagreiningar, t.d. ADHD/ADD og lyfjagjafir við slíkum eiginleikum. Hér er viðtal við hann um eitthvað af þessu.
Ég fékk mikinn áhuga á mömmu Sørens Ulriks Thomsens. Þeim áhuga er bara ekki nægilega svalað við lesturinn. Og mér finnst hann skrifa býsna mikið eins og geðlækningar í dag séu eins og geðlækningar fyrir 1970. Mér datt í hug fólk sem gagnrýnir grunnskólann á Íslandi en hefur varla komið inn í grunnskóla síðan 1980. Auk þess er hann alveg kynblindur. Hann virðist aldrei velta því fyrir sér að mamma hans var kona, hún var ómenntuð (en skrifaði ljóð og hefði átt að verða málvísindakona, segir sonurinn) og missti fyrsta barnið sitt. Hann horfir einhvern veginn á hana utan frá - eins og mömmu - en kafar ekki djúpt í sögu hennar og tráma lífs hennar. Hann veltir því ekkert fyrir sér hvort eða hvernig heilbrigðiskerfið komi öðru vísi fram við konur en karla og hvernig það hefur leikið margar konur í gegnum árin. Mér finnst þetta mjög undarlegt og mjög sjálfhverft. Reyndar hefði þetta ekki átt að koma mér á óvart, á einum stað í bókinni nefnir Søren Ulrik að eftir að hann skrifaði einu sinni grein um lestur í Politiken hafi hann verið gagnrýndur fyrir að nefna nöfn 32 karlhöfunda og 2 kvenhöfunda, svo segist hann hafa komist að því, eftir að hafa rennt yfir eigin bókahillur, að líklega finnist honum bækur eftir karla bara skemmtilegri. Gamli menningarkarlinn gengur þarna ljósum logum, hann er algjörlega ómeðvitaður um ólíkt hlutskipti kynjanna og að setja á sig kynjagleraugu hefur aldrei hvarflað að honum. Ætli enginn ritstjóri/yfirlesari hafi hnippt í hann? Store Kongensgade 23 kom út núna rétt fyrir mánaðamót svo það er ekki mikið búið að skrifa um hana, en ég mun reyna að fylgjast með umræðum um bókina. Eitthvað segir mér að þessar tólf stjörnur og fimm hjörtu hafi lagt línurnar.
Kommentarer
Skicka en kommentar