Dr. Priemes Vej 1 árið 1947 |
Einu sinni var nítján ára stúlka sem hét Eleanor Christie. Hún bjó með móður sinni, ekkju eftir lögmann, í Bolfracks Cottage, nálægt Aberfeldy í miðjum skosku hálöndunum. Eleanor hafði gengið í einkaskóla á heimaslóðum og heimavistarskóla í York, hún var drátthög og áhugasöm um listir og málaði blómamyndir. Hún átti gamla tónelska frænku sem bjó í Wales, frænkan hét Helen Powell. Stundum kom vinur Helen í heimsókn til hennar og dvaldi hjá henni í Wales. Þetta var miðaldra músíkant sem ættaður var frá Íslandi, en hann hafði hátt í tvo áratugi búið í Edinborg og kompónerað tónlist og stundað píanóleik og kennslu. Eitt sinn þegar píanóleikarinn heimsótti gömlu vinkonu sína rak hann augun í mynd af stúlku sem honum þótti sjarmerandi og spurðist fyrir um hana. Helen sagði honum að þetta væri Eleanor frænka hennar sem byggi í Skotlandi. Manninum leist svo vel á stúlkuna að hann bað um að hann yrði kynntur fyrir mömmu hennar. Gömlu frænkunni fannst það sjálfsagt mál og skömmu síðar var hann kominn upp í skosku hálöndin þar sem hann hitti ekkjuna og dóttur hennar. Til að gera stutta tilhugalífssögu enn styttri þá voru Eleanor Christie og Sveinbjörn Sveinbjörnsson fljótlega trúlofuð og skömmu síðar, í apríl 1890, gefin saman í hjónaband. Þá var hún tvítug en hann fjörutíu og þriggja ára. Þau lifðu í hjónabandi sem var, að sögn kunnugra, farsælt og eignuðust fljótlega tvö börn. Hann lést um áttrætt á heimili þeirra í Danmörku en hún lést í Kanada árið 1969, tæplega hundrað ára gömul.
Satt að segja hef ég aldrei nennt að lesa bókina Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn því ég er með fordóma og held að þetta sé bara eitthvað neimdropp um oflofaða menningardýrlinga sem voru alltaf á Hviids Vinstue og að norpa í Store Kannikestræde og á þessum Garði þarna niðri í bæ. En ég las bróðurpart bókar um Jón Sigurðsson eftir Pál Björnsson þegar ég dvaldi í Jónshúsi og minnir að hún hafi verið býsna áhugaverð. Svo er ég hrifin af tuðinu í Benedikt Gröndal í Dægradvöl og endurminningabókum margra Íslendinga sem hafa dvalið lengur og skemur í Kaupmannahöfn og víðar í Danmörku, Götustrákur á spariskóm eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur og Lífsjátning, ævisaga Guðmundu Elíasdóttur, eru mér ofarlega í huga núna.
Í Kaupmannahafnardvöl minni á þessu ári hef ég stund og stund reynt að finna eitthvað á timarit.is um íslenskar konur sem bjuggu eða dvöldu í Danmörku fyrir löngu. Þar er nú ekkert svo mikið að sökkva sér í, en þó má lesa hitt og þetta í pistlum og minningargreinum, hér í borg hafa nefnilega búið fjölmargar íslenskar konur. Eitt blaðið sem minnist stundum á konur í Danmörku heitir Heima og erlendis. Það kom stopult út á árunum 1940-1959, útgefandinn var prentarinn Þorfinnur Kristjánsson í Kaupmannahöfn. Hann hefur greinilega ekki alveg haft vald á fínni blæbrigðum íslenskunnar og skrifar dálítið eins og Bibba á Brávallagötunni, en mér finnst hann oft skemmtilegur. Þorfinnur skrifar minningargreinar, afmælisgreinar og pistla um Íslendinga erlendis, aðallega í Danmörku, og það skemmtilega er að hann skrifar oft um alþýðufólk og iðnaðarmenn. Þegar ég var að fletta Heima og erlendis frá 1947 rakst ég á pistil sem Þorfinnur skrifaði af því tilefni að 28. júní það ár hefði Sveinbjörn Sveinbjörnsson, tónskáld og höfundur lagsins sem sungið er við íslenska þjóðsönginn, orðið hundrað ára. Honum finnst ekki nóg hafa verið gert til að halda upp á þennan dag, útvarpið hafi reyndar nefnt hann eitthvað en íslensk blöð hafi hann ekki séð minnast á Sveinbjörn og aldarafmælið. Í þessari grein kemur fram að Sveinbjörn hafi búið á Dr. Priemes Vej 1 á Friðriksbergi þegar hann dó, nánar til tekið í íbúð sem var beint fyrir ofan mjólkurbúð. Íbúðina leigði hann með húsgögnum og hljóðfæri. Eleanor Sveinbjörnsson nafngreinir Þorfinnur ekki, en hann segist oft hafa heimsótt þau hjón og að þau hafi verið sérstök prýði meðal gesta og hvers manns hugljúfi.
Í stuttu máli þá varð þessi grein um dánarstað Sveinbjörns Sveinbjörnssonar til þess að ég fór að velta fyrir mér hver konan hans hefði verið og það fann ég auðvitað auðveldlega út. Hér má til dæmis lesa um hana í Fálkanum árið 1958. Og hér er líka ágætt ágrip um Sveinbjörn.
Í greinum um Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld segir oft að hann hafi dáið við píanóið, hann hafi verið að spila en skyndilega hafi hljóðfærið þagnað og hann hafi þá verið örendur. Þetta hljómar óneitanlega fallega. Þess má svo geta að Sveinbjörn samdi líka lagið við ljóðið Sprettur eftir Hannes Hafstein; Ég berst á fáki fráum fram um veg ...
Í gær datt mér í hug að kanna hvort húsið sem Sveinbjörn og Eleanor bjuggu í og glugginn, sem Þorfinnur segir að píanóið hafi staðið við, væri enn á sínum stað. Ég var nákvæmlega níu mínútur að hjóla að horninu á Hollændervej og Dr. Priemes Vej og þar stendur húsið á sínum stað. Mjólkurbúðin er orðin að íbúð en að öðru leyti er fátt breytt. Ég velti því fyrir mér hvort fólkið sem býr í íbúðinni hafi hugmynd um að maðurinn sem samdi lagið við þjóðsöng Íslendinga hafi gefið upp öndina þarna leikandi á slaghörpu.
Kommentarer
Skicka en kommentar