Það voru ekki margir á leið frá Stykkishólmi niður í Borgarfjörð í gær (ætli það megi ekki að segja niður í því samhengi?). Veðrið var fallegt, nokkrir hestar í vetrarbúningi átu hey og kindur vöppuðu á stöku stað fyrir utan bæi. Ég veit ekkert um landbúnað en klakabunkarnir yfir sumum túnum ímynda ég mér að geti valdið kali. Þegar ég fer um sveitir hugsa ég stundum með mér, þegar ég sé fallegt hús eða áhugavert bæjarstæði, ekki síst ef það er nálægt sjó og ekki hangandi utan í ógnvænlegu fjalli, að þarna gæti ég búið með nokkur hross og einhver smádýr, rekið flóamarkað í hlöðu og boðið einum og einum skiptinema til dvalar. Í fyrradag las ég einmitt frétt í einhverjum fjölmiðli um að Guðmundur í Brimi hefði keypt Þingvelli í Helgafellssveit, sjávarjörð í grennd við Stykkishólm. Mig minnir endilega að í fréttinni hafi staðið að hann eigi aðra jörð á Snæfellsnesi, hann er kannski að safna Snæfellsnesinu. Nú hvarflar skyndilega að mér að biðja Guðmund að selja mér skika í Helgafellssveit fyrir slikk, svona hektari eða rúmlega það myndi líklega duga. Þingvellir í Helgafellssveit kostuðu 170 milljónir, jörðin er yfir 300 hektarar svo ég hefði alveg efni á einum hektara. Já, og hæfilegt flatlendi er eiginlega lykilatriði. Það verður ekki um mig sagt að ég sé fjallagarpur. Ég komst hálfa leið upp tröppurnar upp á Súgandisey, þar varð ég skyndilega lofthrædd, sneri við og fór niður aftur. Svo horfði ég út um gluggann á Sýslumannshúsinu á fólk þarna uppi og hafði áhyggjur af að það færi of nærri brúninni og myndi hrapa niður með stuðlaberginu.
Það er komin ný vinnuvika. Ég þarf að velja kafla úr Álabókinni til upplestrar, ég ætla að lesa úr bókinni í Gunnarshúsi síðar í vikunni. Svo þarf ég líka að skrifa ýmislegt. Undanfarið hef ég heyrt höfunda nota frasann að eitthvað skrifi sig sjálft. Mín reynsla er sú að ekkert skrifi sig sjálft. Hins vegar skil ég alveg hvað átt er við með fyrrnefndri klisju og skil jafn illa höfunda sem eru með mjög flóknar vinnuaðferðir, sem hægt er að hafa mörg orð um, og þá sem stunda einhvers konar ósjálfráð skrif. Hugsanlega yrði mér betur ágengt með það sem ég er að skrifa ef ég tæki upp markvissari vinnubrögð og aðferðir sem kenndar eru á ritlistarnámskeiðum, mér myndi bara leiðast það svo mikið. Mér finnst líklega mestu forréttindin við að skrifa vera þau að ég þarf takmarkað að nota aðferðir sem kenndar eru við verkefnastjórnun. Það er vandlifað myndi sennilega einhver klisjuvél segja.
Kommentarer
Skicka en kommentar