Ég sakna Lesbókar Morgunblaðsins. Þegar hún fylgdi blaðinu var ég helgaráskrifandi og las greinar á íslensku um menningu og bókmenntir með morgunkaffinu á laugardögum. Núna les ég greinar um bókmenntir og menningu á ensku eða norðurlandamálunum af skjá. Það er ekki eins gaman. Ég man til dæmis eftir að hafa lesið eitthvað um Thomas Pynchon í Lesbókinni. Ég hef aldrei lesið bók eftir þann mann og það er ósennilegt að ég geri það nokkurn tíma. Ég held að bækurnar hans séu mér ekki að skapi. Mér finnst þessi Pynchon samt forvitnileg týpa, eins og ég held að flestum þyki. Um hann hefur skapast heilmikið költ, eiginlega heill heimur, en höfundurinn fer aldrei í viðtöl og vill ekki láta taka af sér myndir. Ég hef blendnar tilfinningar til höfunda sem eru svona rosalega mannafælnir, mér finnst þetta stælar og yfirlæti, en um leið finnst mér höfundar sem eru út um allt að plögga sjálfa sig líka svolítið ósvalir. Hér er grein sem ég las í morgun um Pynchon, hún er mjög skemmtileg.
Það sem mér finnst sérstaklega áhugavert í greininni og tengdi við er að höfundurinn segir á einum stað „Curiously, I never liked talking too much about the writer, maybe because I wanted to keep him for myself.“ Þessa reynslu á ég af nokkrum höfundum, mér finnst nóg að lesa bækurnar þeirra, ég nenni ekki að ræða þær og sjaldnast að lesa um þær heldur. Einn slíkur höfundur er Þórbergur Þórðarson. Ég sökkti mér á unglingsárum ofan í bækurnar hans, kunni Ofvitann á tímabili aftur á bak og áfram, en ég forðaðist að ræða hann og það hvarflaði ekki að mér að sjá leikgerð bókarinnar.
Kommentarer
Skicka en kommentar