Fyrir áratugum tók ég námskeið við Háskóla Íslands í hagnýtum skrifum og þýðingum. Lokaverkefni mitt í námskeiðinu var þýðing á upphafsköflum bókar eftir kvenkyns höfund, sem hafði þá verið látin í nokkur ár, en ég hafði lengi haft miklar mætur á þessu skáldi og hef lesið bækur hennar reglulega í gegnum árin. Upp úr 1970 komu út, að ég held, þrjár bækur eftir höfundinn á íslensku. Ein þeirra fékk ekki mjög lofsamlega dóma hjá Jóhanni Hjálmarssyni í Morgunblaðinu, sem er óskiljanlegt því bókin er frábærlega vel skrifuð og áhugaverð og margútgefin í heimalandinu. En ég fékk alla vega góða umsögn um þýðingarverkefnið og ákvað að fara með það til útgefanda og spyrja hvort ekki væri hugmynd að halda áfram að gefa út bækur þessa góða höfundar, ég væri alveg til í að þýða alla bókina. Í minningunni finnst mér útgefandinn hafa hlegið að mér þegar hann sagði að hann hefði engan áhuga á þessari bók. Það var svo sem allt í lagi, ég bara fór heim og gleymdi þessu.
Í vetur sendi annar útgefandi mér góða umfjöllun úr New York Times um bækur umrædds höfundar. Um þessar mundir er víða verið að endurútgefa þær, meðal annars eru þær nýlega komnar út í ritröðinni Penguin Classics. Ég svaraði útgefandanum og sagði að þessar bækur væru alveg einstakar og að það væri svo sannarlega stórkostlegt að verk þessarar góðu skáldkonu væru reglulega kynnt fyrir nýjum lesendum. Svo gerðist það núna fyrir helgina að útgefandinn sendi mér línu, sagðist hafa lesið og heillast af umræddum bókum og nú lítur út fyrir að ég sé mögulega loksins að fara að þýða þennan uppáhaldshöfund.
Kommentarer
Skicka en kommentar