Þessa vikuna dvel ég á hótel Egilsen í Stykkishólmi. Frá mánudegi hef ég verið eini hótelgesturinn, reyndar eina manneskjan í húsinu, og mér finnst það mjög skemmtilegt. Hér er góð kaffivél sem heitir Moccamaster, húsið er fallegt og útsýnið dásamlegt. Í gær tók ég við því sem pósturinn kom með og talaði við mann sem las af mæli.
Í morgun fór ég fyrir tilviljun að hlusta á hlaðvarpsþátt þar sem maður sem heitir Snæbjörn talar við mann sem bjó í Stykkishólmi á unglingsárum. Þetta er fjögurra tíma samtal (eru íslensk podköst oft svona löng?) sem fjallar að mestu um dapurlega hluti, en þetta er samt mjög áhugavert. Flosi er á svipuðum aldri og ég, við ólumst bæði upp á tímum Marteins Mosdals þegar fólk harkaði áföll lífsins af sér, bjór var bannaður og unglingar drukku íslenskt brennivín. Meðan ég hlustaði á þetta samtal gekk ég meðfram sjónum og síðan eftir ýmsum götum í Hólminum og út í Bónus. Ég mætti engri gangandi manneskju, jú reyndar einum manni sem fór síðan upp í bílinn sinn. Flest fólk fer líklega ferða sinna á bílum hér í bænum. Reyndar er ekki margt fólk almennt á ferðinni þessa dagana, það voru samt nokkrar manneskjur í Bónus í hádeginu og í gær voru fimm manns í sundi og nokkrir karlar að tala um grásleppuveiðar í bakaríinu sem er líka kaffihús.
Hér á hótelinu er ágæt bókahilla, í hana mætti gjarna bæta Vatnaleiðinni eftir Óskar Árna, ég hef hana með mér næst þegar ég kem hingað og lauma í hilluna. Í hillunni fann ég bók eftir Eydísi Blöndal. Þar er þessi setning.
Kommentarer
Skicka en kommentar