Jólabókaflóðið er brostið á. Ég kíkti í Eymundsson á Skólavörðustíg í gær og sá að það er hellingur af nýjum bókum, þýddum og sömdum á íslensku, á borðunum, flestar þeirra hef ég ekki heyrt minnst á. Kannski fá margar þeirra enga umfjöllun í fjölmiðlum, nema kannski í einkafjölmiðlum höfundanna og þýðendanna, samfélagsmiðlunum. Það eru þó, sem betur fer, alltaf einhverjar bækur sem fá alvöru fjölmiðlaumfjöllun. Í Morgunblaðinu um daginn birtist gagnrýni um nýja bók þar sem þessi setning kemur fyrir: Bókin er flókin að því leyti að gagnrýnandi skilur ekki hvert hún er að fara. Gagnrýnandinn sem skrifar þetta gefur svo bókinni þrjár og hálfa stjörnu.
Í vikunni var pistill í sænska blaðinu Expressen eftir Lyru Ekström Lindbäck, sem er rithöfundur, blaðakona og doktor í heimspeki, þar sem því er haldið fram að bókmenntirnar þoli ekki lengur gagnrýni og að fólk þoli ekki að lesa eða hlusta á alvöru gagnrýni um bækur. Greinin er örugglega svar við því að nýlega ákvað ritstjórn Aftonbladet að hætta að birta gagnrýni um erfiðar bækur sem fáir lesa, nú eiga gagnrýnendur að einbeita sér að sölubókunum og hlusta með opnum huga á áhugaverðar skáldsögur á streymisveitum. Einhvern veginn þannig var það í alvörunni orðað. Þetta varð til þess að einhverjir gamlir gagnrýnendarefir hættu. Ég man eftir svipuðu atviki hér á landi fyrir mörgum árum þegar Páll Baldvin hætti að gagnrýna bókmenntir og sendi frá sér harðorða grein, mig minnir að hún hafi birst í Fréttablaðinu. Blaðakona Expressen segir að þetta minni hana á þegar borgarfulltrúi í Norrköping sagði um daginn að sinfóníuhljómsveit borgarinnar eigi bara að spila ABBA til að lokka til sín áheyrendur, það leysi rekstarvandann því alþýðan muni mæta á sinfó.
Verkefni gagnrýnandans er að bera skynbragð á gæði og kasta burt skítnum, segir Lyra Ekström í greininni í Expressen, dálítið hörkulega orðað hjá henni verð ég að segja, en hún vill meina að höfundar þurfi bara að þola það að verk þeirra séu vegin og metin, bókmenntirnar hafi ekkert gagn af því að umfjallanir um þær séu banala tidsfördriv, eins og hún orðar það. Lesendur eigi líka rétt á vandaðri gagnrýni um bókmenntir.
Í Dagens Nyheter í dag skrifar Åsa Bäckman um grein í bók eftir rithöfundinn Gunnar Ardelius sem fjallar um samband hans við gagnrýnendur. Þar ræðir hann ýmsar leiðir höfunda til að höndla gagnrýni, sumir rithöfundar gubba hreinlega af skelfingu vegna slæmrar gagnrýni, aðrir skammast sín svo mikið, fái verk þeirra slæma útreið, að þeir læðast með veggjum ef þeir sjá gagnrýnendur og sumir hætta hreinlega að skrifa vegna slæmrar gagnrýni. Sumir höfundar setja líka krækju á slæmu gagnrýnina á facebook og fá hjörtu og huggunarorð um að vinunum hafi samt þótt bókin frábær. Mér var einu sinni sagt að íslenskur höfundur hefði fengið slæma gagnrýni á bók eftir sig fjarlægða úr vefútgáfu blaðs. Åsa Bäckman, sem er bókmenntagagnrýnandi, segir að það sé auðvitað á vissan hátt leiðinlegt að höfundar gubbi af stressi, en að henni sé samt frekar sama því það sé ekki hægt að gera neitt í þessu. Sumar bækur verði bara að fá slæma umfjöllun því þær séu gallaðar Það er óþarfi fyrir gagnrýnanda að leggja sig fram um að vera kaldhæðinn og kvikindislegur, en að það fylgi starfi gagnrýnandans að leggja mat á gæði verkanna og sum séu kannski bara ekkert svo góð. Mig minnir að Kristín Ómarsdóttir hafi sagt eitthvað á þá leið að það geti ekki verið að bók sem höfundur sé búinn að eyða ári, eða jafnvel mörgum árum, í að skrifa sé vond. Þetta finnst mér fallega hugsað og sagt en ég er á báðum áttum með þetta.
Kommentarer
Skicka en kommentar