Ég lauk við að lesa bókina Millilendingu (sem ég átta mig núna á að hefur sama titil og plata með Megasi, endurnýttir titlar er efni sem ég hef stundum rætt um við vini mína) og fannst hún virkilega skemmtileg og vel skrifuð. Hefði ég verið valdamikill yfirlesari handrits hefði ég samt breytt endinum örlítið, þ.e.a.s. hnikað orðalagi og á einum stað (bls. 151) hefði ég líka bætt orðinu við inn í. Málbreyting sem ég tók eftir fyrir einhverju síðan hefur nefnilega ratað inn í bókina, hún felst í því að sleppa því að hafa orðið við við hliðina á orðunum hliðina á. Stundum skrifar fólk jafnvel hliðiná og sleppir orðinu við. Til útskýringar: Í bókinni stendur Að dansa hliðina á þessu liði (aðalpersónan er að dansa á skemmtistaðnum B5). Mér finnst þetta áhugaverð málbreyting og sé hana víða, til dæmis á Twitter og í fasteignaauglýsingum. Annað sem mér finnst umhugsunarvert er að á baki bókarinnar er klausa eftir Hallgrím Helgason (ég hef líka rætt svona tilvitnanir í merkilegt fólk á bókakápum við vini mína, svoleiðis er eitthvað sem sífellt meira sést af) þar sem stendur meðal annars Óþægilega sannfærandi portrett af Íslandi samtímans. Mér finnst eiginlega ekkert óþægilegt við þessa bók, enda er ég aðdáandi raunsæis og fagna öllum sannfærandi portrettum, en það sem mér finnst svolítið fyndið er að fólkið í bókinni fer á Celtic og Tíu dropa, en þeir staðir eru ekki til lengur. B5 er meira að segja líka lokað þessa dagana, en mér skilst að þar verði opnað aftur innan skamms. Það endist eiginlega ekkert í Reykjavík, ég held að Hornið sé langsamlega elsta veitingahúsið, stofnað 1979, Mokka er sennilega eina gamla kaffihúsið, fyrir utan Prikið sem flokkast samt varla sem kaffihús lengur. Það er erfitt að lýsa Íslandi samtímans í bókum, samtíminn er alltaf horfinn áður en við er litið. Í byrjun bókarinnar fannst mér aðalpersónan, sem er rúmlega tvítug stelpa sem segir frá í 1. persónu, vera strákur. Kannski er það vegna þess að höfundurinn er karlkyns, ég held samt að það hafi ekki verið þess vegna, kannski er bara eitthvað kynlaust við hana eða að hún minnir mig á Holden Caulfield. Ekki að það skipti endilega miklu máli fyrir söguna en ég hætti samt að ímynda mér þessa persónu sem strák þegar ég var komin áleiðis inn í bókina og hafði komist að því að hún hét María. Það síðasta sem ég ætla að segja um skáldsöguna Millilendingu á þessum vettvangi er að ég lærði af henni frábært orð sem ég mun líklega nota bráðum, orðið er ananasklipping. Mér finnst gaman að læra ný orð og líka að lauma nýjum orðum að fólki. Í minni eigin skáldsögu reyndi ég að lauma einhverjum orðum að lesendum, ég vona til dæmis að einhver lesenda hennar hafi lagt orðið kvellislekja á minnið, samt er það örugglega mun gagnslausara en orðið ananasklipping.
Dæmi um orðalag sem finnst víða en samræmist ekki minni málkennd |
Kommentarer
Skicka en kommentar