Klukkan er korter yfir tíu og enn er dimmt úti. Áðan spilaði einhver á Rás 1 Vals moderato, ekki uppáhaldsútgáfuna mína með Elsu Sigfúss heldur ósungna útgáfu, instrúmental eins og það kallast. Elsa söng sennilega inn á hátt í 200 hljómplötur, það vita áreiðanlega ekki margir. En nú spilar KK Hey Nineteen, eitt af mínum máttlausu áramótaheitum var að hætta að hlusta eins mikið á snekkjurokk og ég geri, það mun sennilega ekki takast. Í dag ætla ég ekki að fara vestur í bæ að vinna, ég ætla að vera heima og lesa Millilendingu eftir Jónas Reyni Gunnarsson, fara í Sundhöllina og synda, drekka kaffi í stofunni og skrifa kannski smávegis. Í lok vinnudags hef ég svo mælt mér mót við fólk á opinberum stað, ef ég man rétt. Mynd dagsins er af Bodil Malmsten.
Ekki hef ég enn lesið bók eftir nýjan Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum en ég hef heyrt umræður um bækurnar hennar, bæði þegar Grænmetisætan kom út á íslensku og eftir að tilkynnt var að Han Kang fengi verðlaunin. Í gær birtist lesendabréf í sænska blaðinu DN þar sem kona sem heitir Anne-Marie Morberg er að býsnast yfir því hvað þýðendur fái litla athygli í stóra bókmenntasamhenginu. Þeirra tungumálaþekking og málkennd byggir brýr yfir landamæri á milli tungumála og þegar Han Kang er hyllt fyrir ljóðrænan prósa á Norðurlöndum þá er líka verið að hrósa þýðendunum sem koma textanum til skila, það ætti alla vega að vera þannig, segir Anne-Marie sem skrifar lesendabréfið. Hún segist hins vegar hafa þurft að hafa fyrir því að fletta upp nafni þess sem hefur þýtt Han Kang á sænsku því á það hefur varla verið minnst í sænskum fjölmiðlum. Eftir að þetta lesendabréf birtist hefur fleira fólk stigið fram og tekið undir, meira að segja hefur verið bent á það að þýðandi eigi höfundarrétt á sænskum
Kommentarer
Skicka en kommentar