Klukkan er korter yfir tíu og enn er dimmt úti. Áðan spilaði einhver á Rás 1 Vals moderato, ekki uppáhaldsútgáfuna mína með Elsu Sigfúss heldur ósungna útgáfu, instrúmental eins og það kallast. Elsa söng sennilega inn á hátt í 200 hljómplötur, það vita áreiðanlega ekki margir. En nú spilar KK Hey Nineteen, eitt af mínum máttlausu áramótaheitum var að hætta að hlusta eins mikið á snekkjurokk og ég geri, það mun sennilega ekki takast. Í dag ætla ég ekki að fara vestur í bæ að vinna, ég ætla að vera heima og lesa Millilendingu eftir Jónas Reyni Gunnarsson, fara í Sundhöllina og synda, drekka kaffi í stofunni og skrifa kannski smávegis. Í lok vinnudags hef ég svo mælt mér mót við fólk á opinberum stað, ef ég man rétt. Mynd dagsins er af Bodil Malmsten.
Undanfarnar vikur hafa Halldór Guðmundsson og Þorgerður E Sigurðardóttir verið með mjög áhugaverða útvarpsþætti á RÚV um Íslendinga í Kaupmannahöfn. Síðasti þátturinn verður á dagskrá næsta laugardag og ég hlakka til að hlusta á hann. Í þáttunum, sem heita Skáld og skrælingjar , hefur Halldór meðal annars minnst á íslenska karla sem sátu hver yfir öðrum á knæpum í grennd við Kóngsins nýjatorg og uppnefndu Dani, en líka hefur verið minnst á nokkrar konur. Ég hef sjálf óseðjandi áhuga á íslenskum konum sem voru í Kaupmannahöfn á síðustu öld og er einmitt núna stödd í borginni og búin að lesa ýmis skjöl á Ríkisskjalasafni Dana og fletta upp í Borgarskjalasafninu. Ég hef ekki fundið nákvæmlega það sem ég er beinlínis að leita að og sem tengist íslenskri konu sem bjó í Kaupmannahöfn mikinn meirihluta ævinnar (hér eru útvarpsþættirnir um hana ), en ég hlýt samt að finna þetta á endanum, nú bíða mín tvær útkrotaðar bækur í Svarta demantinum. Ekki er ég sagnfræðingur og ekki geng ég mjög skip...

Kommentarer
Skicka en kommentar