Klukkan er korter yfir tíu og enn er dimmt úti. Áðan spilaði einhver á Rás 1 Vals moderato, ekki uppáhaldsútgáfuna mína með Elsu Sigfúss heldur ósungna útgáfu, instrúmental eins og það kallast. Elsa söng sennilega inn á hátt í 200 hljómplötur, það vita áreiðanlega ekki margir. En nú spilar KK Hey Nineteen, eitt af mínum máttlausu áramótaheitum var að hætta að hlusta eins mikið á snekkjurokk og ég geri, það mun sennilega ekki takast. Í dag ætla ég ekki að fara vestur í bæ að vinna, ég ætla að vera heima og lesa Millilendingu eftir Jónas Reyni Gunnarsson, fara í Sundhöllina og synda, drekka kaffi í stofunni og skrifa kannski smávegis. Í lok vinnudags hef ég svo mælt mér mót við fólk á opinberum stað, ef ég man rétt. Mynd dagsins er af Bodil Malmsten.
Starfandi framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, Mari Pangestu, segir í viðtali við DN að í coronafaraldrinum beri konur þyngsta krossinn. Hún vill kalla þetta alþjóðlega kvennakreppu, að covid-19 hafi breikkað bilið á milli kynjanna og rifið upp gamla mismunun. Kvennastéttir hafa orðið verst úti og konur hugsa mest um börnin sem sum hafa ekki hafa fengið að fara í skólann í lengri tíma. Meðan ég las viðtalið við hana, sem fjallar um konur um allan heim, rifjuðust upp fréttir sem ég hef lesið um að ekki sé hugað að jafnrétti í ákvörðunum á Íslandi, til dæmis er ein nýleg hérna um karllægar aðgerðir stjórnvalda . Í dag verður kynnt kæra níu íslenskra kvenna til Mannréttindadómstóls Evrópu . Konurnar kæra íslenska ríkið fyrir að fella niður mál þeirra. Þær höfðu kært kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi eða kynbundna áreitni en mál þeirra voru felld niður í íslensku réttarkerfi. Ofbeldi í garð kvenna er kerfisbundið. Til hamingju með baráttudag kvenna!

Kommentarer
Skicka en kommentar