|
Kofi í snjó |
Í útjaðri borgarinnar á ég gamalt A-hús, sumarbústað sem var byggður á sjöunda áratug síðustu aldar. Á lóðinni við kofann er ýmislegt ræktað þegar ég nenni, en þar grotnar líka oft gamli rabarbarinn frá fyrri eigendum niður því ég nenni ekki að taka hann upp og nota hann. Í fyrravor sáði ég slatta af (löngu útrunnum) fræjum í beð, þar á meðal var brokkólí. Vegna viðvarandi óveðurs framan af sumri óx lítið af því sem ég sáði og brokkólíið var svo smávaxið í haust að mér fannst ekki taka því að taka það upp. Hins vegar hefur verið ágætt veður í vetur svo að í dag datt mér í hug að fara uppeftir og skoða grænmetið. Það þurfti að dusta snjó af brokkólíinu (það er enginn snjór í póstnúmeri 105 en töluverður í 113 og mun meira frost en í lægri númerum) og brjóta það af stilkunum. Öll uppskeran fór í eitt grænmetislasanja, sem er einmitt núna í ofninum.
|
Hrímað brokkólí |
Í morgun las ég
grein í Dagens Nyheter þar sem nokkur sænsk ljóðskáld eru spurð hvernig þau sjái fyrir sér. Það er auðvitað upp og ofan hvaðan þau fá peninga, ein er á tíu ára skáldalaunum (þvílík lukka sem það hlýtur að vera) en hin sjá í raun varla fyrir sér með ljóðaframleiðslu, þau eru öll í allskonar smáverkum hingað og þangað sem tengjast stundum skáldskapnum; þau skrifa ýmislegt, sitja í dómnefndum, kenna, halda fyrirlestra og gagnrýna og fá svo einn og einn styrk. Ég tengdi auðvitað við þetta fólk, það er ekki raunhæft að ætla að sjá fyrir sér eingöngu með ljóðagerð og ljóðalestri, ég geri ýmislegt annað en að skrifa til að þéna peninga fyrir salti og pipar og smurbrauði og bjór - nú og svo rækta ég brokkólí þegar til þess viðrar. En ég fékk úthlutað níu mánaða starfslaunum listamanna í ár og fyrir það er ég ósegjanlega þakklát. Ég er með nokkur handrit mislangt komin í tölvunni og þrjú eingöngu í höfðinu. Í fyrramálið fer ég í stúdíó á RÚV því skáldsagan mín verður bráðlega bók vikunnar á Rás1 og ég ætla að lesa nokkrar síður. Eftir hádegi hef ég í hyggju að setjast við skrifborð og opna tölvuskjal með ýmsum punktum varðandi nýja skáldsögu. Sem lið í rannsóknarvinnu vegna fyrirhugaðra skrifa hef ég meðal annars eytt helginni í að lesa mér til í bók um það sem höfundurinn kallar erotic intelligence.
Kommentarer
Skicka en kommentar