Fyrrverandi bókaútgefandi sem er núna rithöfundur segir hér að bækur séu að styttast. Ég veit ekki hvort það sé rétt en sumar þykkar bækur eru samt farnar að fara í taugarnar á mér. Vissulega las ég alla doðrantana í ritröð Karls Ove Knausgårds, sem fjalla mestmegnis um hann sjálfan (og svo er langt innslag í einni bókinni um Hitler, en ég nennti nú ekki að lesa það allt), en eftir á hugsaði ég með mér að þetta væri auðvitað óþolandi manspreading hjá karlinum, hvers vegna finnst þessum manni hann mega taka svona mikið pláss í hillum og svona langan tíma af lífi okkar? Ein bók þar sem þetta kemur aðeins við sögu er Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson. Sú bók er 118 blaðsíður, sem mér finnst einmitt rétta lengdin. Hún er líka mjög skemmtileg og ég væri til í að sjá bíómynd eftir henni. Það gerist raunar ekki mikið í bókinni, þarna er einhver maður sem býr í hjólhýsi og málar myndir af trjám og veltir ýmsu fyrir sér. Til dæmis því að bækur séu búnar til úr trjám og að það sé óvistvænt og frekt að saga niður tré til að prenta bækur. Kannski er bókin ekkert um þetta, mig minnir það samt. Ég þekki konu sem segist vera hætt að lesa bækur sem eru lengri en 250 síður, ef höfundur geti ekki komið því til skila sem hann hefur fram að færa á þeim blaðsíðufjölda eigi hann ekki erindi við hana. Ég hef fullan skilning á þessu viðhorfi.
Nú í haust kemur út bók eftir mig sem heitir Aksturslag innfæddra. Þegar ég skilaði handritinu til forlags var það nefnt að bókin væri kannski fullstutt. Ég sagði að þessi bók væri ákveðið konsept sem væri einmitt þessar sjö sögur sem verkið geymir og útgefandinn lét það gott heita. Svo stytti ég hana raunar aðeins, strikaði út nokkrar setningar og orð því ég vil ekki taka of mikið pláss og ekki skilja eftir mig stórt sótspor. Í sumar þýddi ég bók eftir Tove Ditlevsen sem kemur líka út í haust. Þegar ég fór að kanna málið komst ég að því að bækurnar okkar eru næstum nákvæmlega jafn langar. Eða jafn stuttar ætti ég kannski að segja. Þær eru 116 blaðsíður.
Kommentarer
Skicka en kommentar