Bob Dylan er nýorðinn áttræður. Eins og var fyrirsjáanlegt spruttu Dylanmennirnir fram úr öllum hornum og fögnuðu í einkamiðlum og á opinberum vettvangi. Fréttatími RÚV í gær fagnaði líka afmælinu með veglegri umfjöllun og einn menningarblaðamaður sagði í yfirskrift blaðagreinar að afmælinu fögnuðu allir góðir menn.
Í morgun minntist vinkona mín á tíu ára gamla sænska grein, sem birtist í tilefni sjötugsafmælis nóbelsverðlaunahafans í nöldurkenndu rími (textinn við Positively 4th street hlýtur að vera eitt magnaðasta nöldur bókmenntasögunnar). Greinin Män som missbrukar Dylan, er eftir Hönnu Fahl og þar fjallar hún um Dylanmennina, en Hanna kveðst hafa hitt margan Dylanmanninn í lífi sínu. Nánasti vinur Hönnu, sagnfræðingurinn og skjalavörðurinn Fredrik Egefur, er Dylanmaður (hann er samt kannski fyrrverandi Dylanmaður núna), en Dylanmenn eru þeir sem vímast gjarna allir upp þegar Dylan berst í tal, þeir geta verið á öllum aldri og með ólíkar pólitískar skoðanir en eiga það sameiginlegt að elska og dá Bob Dylan.
Hanna Fahl segir Dylanmennina ekki endilega vilja umgangast eða ræða goðið mikið sín á milli. Fredrik vinur hennar vildi samt að hún lærði að meta Dylan og þarna fyrir tíu árum hafði hún hlustað á Highway 61 revisitet og fundist það fín plata, en það náði ekkert lengra. Fredrik vinur hennar hélt því líka fram að hún myndi aldrei ná honum fyllilega, frekar en aðrir, þeir Bob væru í svo sérstöku sambandi, eða eins og Hanna orðar það: Alla Dylanmän verkar ha
sin egen, helt privata uppfattning om hur man är en riktig, korrekt
Dylanman.
Erik lýsir því hvernig hann lá á gólfinu með vini sínum og þeir hlustuðu naktir á – Highway 61 revisited og fylleríssungu Ballad of a thin man aftur og aftur. Það var ekkert kynferðislegt við þetta, að sögn Eriks, kannski smá hómóerótík í undirmeðvitundinni, en aðallega bara svo gott að finna svona nándina með hvor öðrum og Bob. Þetta var hluti Dylanmannshegðunarinnar, að hlusta á textana og skilja innihaldið algjörlega nakinn.
Fredrik vinur Hönnu segir að þetta sé eins og að sökkva sér í bókaflokk eða tölvuspilaheim, því meira sem Dylanmaðurinn veit um Dylan því betur líður honum. Og hann segir að starfsval sitt sé örugglega undir áhrifum frá Dylan, hann er sagnfræðingur sem sekkur sér í neðanmálsgreinar og efni á söfnum.
Yfirskrift greinar Hönnu, Män som missbrukar Dylan, vísar til þess að Fredrik vinur hennar hefur oft notað Dylan sem valdatæki í samskiptum. Það er ákveðinn merkimiði, ákveðinn persónuleiki, að vera Dylanmaður og hún varð vitni að því þegar hann reyndi við stelpu á bar með því að setja út á að hún skildi ekki hvað Dylan væri stórkostlegur. Fredrik viðurkennir að þetta sé valdatæki og að hann yrði beinlínis hræddur ef hann myndi hitta konu sem væri jafn hrifin af Dylan og hann sjálfur.
Einhvers konar niðurstaða greinar Hönnu Fahl, sem hún kemst að eftir að hún hefur í örvæntingu reynt allt til að ná andlegu sambandi við Dylan, líka lagst full og nakin á gólfið með Highway 61 revisited á fóninum, er sú að hún geti ekki tengt sig við Dylan heldur tengir hún sig miklu frekar við horaða manninn með blýantinn, Mr. Jones.
Fimm árum eftir að grein Hönnu Fahl um Dylanmanninn birtist fékk Bob Dylan nóbelsverðlaun í bókmenntum. Þá fór hugtakið Dylanmaður fyrir alvöru á flug og Fredrik vinur Hönnu, skjalavörðurinn, mætti í viðtal og sagðist efins um að hann kærði sig um að vera Dylanmaður lengur, þrátt fyrir að það hefði verið mikill hluti sjálfsmyndar hans lengi vel. Líkt og aðrir aðdáendur las hann sjálfan sig inn í textana, hann sagði í viðtalinu að það væri auðvelt fyrir hlustendur að finnast Dylan beina orðum sínum beint til þeirra sjálfra, en Fredrik Egefur er á því að með aldrinum finnist honum Bob Dylan bara vera að tala fyrir sjálfan sig.
Um þetta er meðal annars fjallað í grein sem birtist árið 2016 í tímaritinu Modern psykologi. Þar má lesa hvers vegna Leonard Cohen virkar betur til að fá fólk til fylgilags og halda við það góðu sambandi, en Bob Dylan. Í stuttu máli þá eru textar Cohens samtal á meðan Dylan er eintal. Cohenmennirnir eru, samkvæmt kenningu sálfræðingsins Daniels Frydmans, betri í samtölum og samskiptum en Dylanmennirnir.
Einu sinni fór ég á Dylantónleika með vini mínum frá New York. Það var árið 1991 og tónleikarnir voru haldnir í litlum íþróttasal háskóla á Long Island. Ég skemmti mér ágætlega, en mér fannst Bob virka frekar ellilegur og brothættur á sviðinu. Hann var fimmtugur þegar þarna var komið sögu!
Kommentarer
Skicka en kommentar