Fortsätt till huvudinnehåll

Stórir rassar og stór hús

 


 

Áðan las ég smartlandsumfjöllun um mann sem hætti að leigja íbúð í Grafarvogi vegna dýrtíðar (og vegna þess að hann var ekkert mjög mikið heima hjá sér) og keypti sér hjólhýsi sem hann býr í ásamt sambýliskonu. Um daginn las ég líka um danska konu sem fannst borgarlífið í venjulegri íbúð tilgangslaust og óvistvænt. Konan keypti sér hirðingjatjald og flutti ásamt ungum syni inn í sænskan skóg og þar hafa þau búið um árabil við aðstæður sem flestum þykja frumstæðar. Mér finnst þetta áhugaverðar sögur því ég velti því svo oft fyrir mér hvað fólk þarf marga fermetra undir rassinn á sér (svo ég tali nú ekki um alla bílana sem þjóna hlutverki yfirhafna fyrir mjög marga - sumt fólk sem ég þekki ekur alltaf eitt í bíl, það virðist ekki einu sinni geta deilt bíl með þeim sem það deilir rúmi með). Hvers vegna þarf fólk svona mikið pláss? Hafið þið séð hvað mörg hús og íbúðir sem eru til sölu og eru óheyrilega stór? Nú skil ég alveg að einhver kjósi að hafa rúmt um sig en mér finnst of lítið rætt um kostnað og óhagkvæmni af allt of stórum íbúðum. Hvers vegna eru ekki byggðar fleiri 20-30 fermetra íbúðir? Og hvers vegna eru ekki til einhvers konar millibilshíbýli á milli gistiheimila og íbúða? Ég sé alveg fyrir mér að einhver, óháð aldri, væru til í að búa í einu rúmgóðu herbergi (eða tveimur litlum) með sameiginlegt eldhús og stofu og samkvæmisrými. Einmana hjörtum myndi líklega fækka ef það væri í boði að setjast til borðs með öðrum daglega eða stöku sinnum og við vitum að mjög margt fólk er einmana. Það væri jafnvel hægt að ráða kokk í slík hús svo fólk fengi hollan mat á hverjum degi. Kannski er ég að tala um pensjónat. Kannski er ég ólæknanlegur hippi.

Í götunni sem ég bý við í Kaupmannahöfn er kirkja. Þar er vikulega í boði sameiginleg máltíð fyrir fólk sem langar að borða kvöldverð með öðrum. Þangað kemur kokkur og eldar heimilislega og barnvæna máltíð og einstaklingar og fjölskyldur geta komið og borgað 20 krónur og borðað með fólkinu í hverfinu. Það eru engin skilyrði, allir geta bókað sig og komið í mat. Veitingahús í næstu götu er með svipað fyrirkomulag vikulega, fólk í hverfinu er hvatt til að koma og kaupa sér þriggja rétta máltíð á vægu verði á mánudagskvöldum og eiga notalega spjallstund í leiðinni.

Fyrir ykkur sem hlustuðuð og höfðuð ánægju af hlaðvarpinu sem ég benti á í haust, um arkitektsfúskarann sem bjó í húsinu sem er nú sendiherrabústaður Íslendinga bendi ég á annað áhugavert hlaðvarp um barnamorð og furðulegheit í menningarelítu Danmerkur, þar sem ljósahönnuðurinn Poul Henningsen kemur við sögu. Sonur hans kynlífssálfræðingurinn Sten Hegeler, sem dó í ágúst í sumar tæplega tíræður, kemur því miður ekkert við sögu í þáttunum, mig vantar hlaðvarp um hann, það hlýtur að koma. 

Um daginn kom út bók sem við Hildur Knútsdóttir skrifuðum saman. Ég er víðs fjarri íslensku jólabókaflóði og fylgist með því úr fjarska en eitt eintak er komið til Danmerkur.

Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Mætti ég biðja um ...

Danir eru kurteisir (kannski er allur heimurinn kurteisari en Íslendingar). Þeir segja „Må jeg be’ om …“ þegar þeir panta pítsu á veitingahúsum eða kaupa sér snúð á Nørrebrogade. En Danir eru líka öðruvísi kurteisir. Undanfarna daga hefur eitthvað verið að trufla mig í öðru auganu svo ég fann mig knúna til að reyna að finna augnlækni til að lækna mig. Eftir flettingar á netinu varð mér fullljóst að ekki væri hlaupið að því að fá læknatíma verandi framandi vera í dönsku þjóðfélagi, eiginlega bara hreinræktaður túristi, og auk þess er heimsfaraldur covid-19 að setja mörg strik í reikning heilbrigðiskerfisins. En ég fann heimasíðu læknastofu niðri í bæ og sendi póst í gærkvöldi og spurði hvort einhver möguleiki væri á að koma mér að. Snemma í morgun fékk ég svar frá læknaritaranum Hanne, sem sagði að það væri hálfs árs bið eftir tíma hjá þeim og engin leið að troða mér að. Þá sendi ég stórri augnlæknastöð í Charlottenlund póst (plan B) og viti menn, ég fékk svar hálftíma síðar. Hálftíma s

Dánarstaður menningarmanns

Dr. Priemes Vej 1 árið 1947 Einu sinni var nítján ára stúlka sem hét Eleanor Christie. Hún bjó með móður sinni, ekkju eftir lögmann, í Bolfracks Cottage, nálægt Aberfeldy í miðjum skosku hálöndunum. Eleanor hafði gengið í einkaskóla á heimaslóðum og heimavistarskóla í York, hún var drátthög og áhugasöm um listir og málaði blómamyndir. Hún átti gamla tónelska frænku sem bjó í Wales, frænkan hét Helen Powell. Stundum kom vinur Helen í heimsókn til hennar og dvaldi hjá henni í Wales. Þetta var miðaldra músíkant sem ættaður var frá Íslandi, en hann hafði hátt í tvo áratugi búið í Edinborg og kompónerað tónlist og stundað píanóleik og kennslu. Eitt sinn þegar píanóleikarinn heimsótti gömlu vinkonu sína rak hann augun í mynd af stúlku sem honum þótti sjarmerandi og spurðist fyrir um hana. Helen sagði honum að þetta væri Eleanor frænka hennar sem byggi í Skotlandi. Manninum leist svo vel á stúlkuna að hann bað um að hann yrði kynntur fyrir mömmu hennar. Gömlu frænkunni fannst það sjálfsagt má

Vígt vatn af skornum skammti

Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.