Til að byggja mig upp fyrir ýmis verkefni sem ég er með á minni könnu (ég er að reyna að forðast orðið frestunarárátta) les ég ævisögur. Í gær las ég Þjófur, fíkill, falsari - Sjálfsævisaga síbrotamanns eftir Guðberg Guðmundsson og með morgunkaffinu las ég Sendiherrafrúin segir frá, eftir Hebu Jónsdóttur. Þessar bækur eru báðar um og eftir gallaðar og brothættar manneskjur en mjög áhugaverðar á margan hátt. Þær gjalda þó fyrir það (eins og kannski allar ævisögur) að það er skautað of mikið á yfirborðinu, kannski vegna þess að höfundarnir sjá ekki vel undir yfirborðið eða hugsanlega vegna þess að þau eru ekki fær um að ræða það sem hefði mátt ræða, og auk þess hefðu bækurnar þá orðið allt of langar og ruglingslegar. Þarna kemur líka inn í takmörkun tungumálsins og frásagnarinnar. En þá kemur að lesandanum að túlka og reyna að skilja. Ég tek fyrrnefndu bókina með mér á skrifstofuna á eftir og þar tekur annar lesandi við henni og fljótlega getum við rætt atburði og allan þann aragrúa persóna sem nefndar eru í bókinni.
Ég er líka að lesa sænska bók sem forleggjari sendi mér, hún heitir Stacken og er eftir Anniku Norlin, sem er líka tónlistarkona sem ég hlusta stundum á. Mér sýnist sú bók vera að fá góða umfjöllun í Svíþjóð, ég er ekki komin nógu langt til að vera búin að gera upp við mig hvað mér finnst um hana. Nú og svo bíður þetta margumrædda jólabókaflóð, sem fólk ræðir samt lítið utan okkar sem tilheyrum þessum svokallaða bókmenntaheimi. Það er heimur fyrir utan hann og hann er stór. Fólkið sem var að selja og kaupa fíkniefni fyrir utan Sundhöllina í síðustu viku og á Njálsgöturóló í fyrradag er til dæmis örugglega ekkert að spá í jólabækurnar. Ég veit ekkert hvernig á að bregðast við þessum svokallaða fíkniefnafaraldri, og hann er nú aldeilis ekki nýtilkominn eins og bókin Þjófur, fíkill, falsari sannar, en hins vegar finnst mér alveg hrikalegt að Njálsgöturóló sé ekki haldið við. Ég las einhvern tíma að það ætti að byggja einhverja mjög fallega byggingu þarna fyrir aftan Austurbæjarbíó, fyrir börn og fullorðna, löngu síðar las ég svo að engin viðunandi tilboð hefðu komið í að byggja það mannvirki og nú er þessi staður bara mjög niðurdrepandi. Um daginn bjó einhver þar inni í runna og í fyrradag var maður að vigta fíkniefni þar á bekk, sem hann síðan seldi börnum. Á þessari stundu plagar þetta mig meira en jólabókaflóðið, sem mér finnst raunar auðvitað fullkomlega gleðilegt svo þetta er fáránlegur samanburður.
Þetta er að minnsta kosti mjög áhugaverður samanburður. Dóp og jólabókaflóð. Og annað... lestu í alvöru heila bók fyrir hádegi?
SvaraRaderaJá, hef oft lesið bók fyrir hádegi.
SvaraRadera