Fortsätt till huvudinnehåll

Norræn hlaðvörp og íslensk ættfræði

Ekki hef ég mátt vera að því að skrifa mikið hér undanfarið. Trúið mér eða trúið mér ekki en ég hef haft mikið að gera. Um daginn skrapp ég til Svíþjóðar, nánar til tekið til Emmaboda í Smálöndum þar sem var tekið vel á móti mér. Þangað tók ég lest frá Kaupmannahöfn og auðvitað eru lestar langbesti ferðamátinn. Ég var með nesti og bókað sæti og rak stelpu úr sætinu mínu við gluggann. Fékk auðvitað samviskubit (ég er svo vonlaus í að vera frekjubeygla og á svo erfitt með að láta hafa fyrir mér) en ég hef svo oft verið rekin úr bókuðum sætum sem ég hef hlammað mér í í sænskum og dönskum lestum að ég ákvað að taka þetta alla leið. Skandinavíska kerlingaleiðin er að vera jobbig týpa sem kann mun á réttu og röngu og er með prinsipp. Ég þekki mitt fólk og hef ákveðið að svara í sömu mynt. 

Undanfarið hef ég vanið mig á að hlusta á podköst áður en ég sofna. Margt fólk segist láta hlaðvarpsþætti svæfa sig svo ég ákvað að prófa. Í fyrstu valdi ég of áhugaverða þætti, ég var oftast svo áhugasöm að ég sofnaði alls ekki. Þá fór ég yfir í minna áhugaverð podköst og hef svona smátt og smátt fundið hvað getur mögulega svæft mig. Þetta er samt oft á tæpasta vaði því stundum heyri ég óljóst eitthvað áhugavert eða skræka rödd í óáhugaverðum umræðum og samstundis sperri ég eyrun. Þannig komst ég smám saman að því að það er röddin sem skiptir mestu máli í kvöldþáttunum. 

Eitt kvöldið í vikunni náði ég að hlusta á danskan þátt sem heitir Hvad tænder du på? þar sem kona sem heitir Helene Marie ræðir um það sem Danir kalla lyst við margfalt grammyverðlaunaða rapparann og DJ-inn Nick Coldhands (þið munið kannski eftir laginu Spændt op til li’r með Den Gale Pose – ef ekki þá finnið þið það á Spotify). Þetta er svona kynlífsspjallþáttur með undirleik lyftutónlistar og mér tókst að láta hann vagga mér í svefn því Nick Coldhands er með sérlega kósí rödd og viðkunnanlegt viðhorf til lyst. Hann talaði samt líka um bókina sem hann er með í smíðum og fjallar um málshætti. Ég ætlaði að endurtaka leikinn kvöldið eftir og hlusta meira á Handkalda-Nikka en fann bara einn annan þátt þar sem hann talar og sá þáttur fjallar um tónlist og er með tóndæmum og þau eru mér ekki að skapi. Nick Coldhands heitir reyndar Nicholas Kvaran í opinberum skjölum og er sonur Gunnars Kvaran, eins okkar allra besta sellóleikara, sem er örugglega alveg jafn viðkunnanlegur maður og sonurinn. 

Í fyrrakvöld kveikti ég á fyrsta hlaðvarpinu sem sænska ríkisútvarpið sýndi þegar ég opnaði síðuna þeirra, sennilega er það bara það nýjasta sem þau hafa sett inn í spilarann, nema það vinsælasta birtist fyrst. Sá þáttur heitir Uteliggaren som blev advokat (Heimilislausi maðurinn sem varð lögmaður) og fjallar um Stefan sem nú sprangar um í dýrum og stífum fatnaði en fyrir nokkrum árum bjó hann á götunni, var heimilislaus sprautufíkill og glæpamaður. Ég var ekki kominn langt inn í þáttinn þegar klippt er inn viðtal við móður aðalpersónunnar, sem þáttarstjórnandi kallaði Helgu. Nú veit ég mínu viti og hef góð eyru þegar tungumál eru annars vegar og þó að Helga tali góða sænsku þá heyrði ég samstundis að þessi kona væri af íslensku bergi brotin. Ég reif upp símann, opnaði Íslendingabók og fór að leita að þessu fólki. Tveimur mínútum seinna hafði ég komist að því að Stefán, sá sem tókst til allrar hamingju að snúa baki við ógæfunni og gerast próper maður sem lætur gott af sér leiða, er fimmmenningur við mig. 

Í kvöld er ég að hugsa um að reyna að sofna eftir að hafa hlustað á Gunnar Kvaran flytja fagra tónlist eftir Schubert. 

P. S. Hér fyrir neðan birtast Saga Garðarsdóttir og Ragnar Kjartansson í mynd úr myndbandi sem ég sá í verki þess síðarnefnda í Louisiana í gær. Ég mæli með sýningunni en mun ekki fjalla neitt um ættir þessara skötuhjúa á þessum vettvangi að svo stöddu. 

 

Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Þýðingar

Ekki hef ég enn lesið bók eftir nýjan Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum en ég hef heyrt umræður um bækurnar hennar, bæði þegar Grænmetisætan kom út á íslensku og eftir að tilkynnt var að Han Kang fengi verðlaunin. Í gær birtist lesendabréf í sænska blaðinu DN þar sem kona sem heitir Anne-Marie Morberg er að býsnast yfir því hvað þýðendur fái litla athygli í stóra bókmenntasamhenginu. Þeirra tungumálaþekking og málkennd byggir brýr yfir landamæri á milli tungumála og þegar Han Kang er hyllt fyrir ljóðrænan prósa á Norðurlöndum þá er líka verið að hrósa þýðendunum sem koma textanum til skila, það ætti alla vega að vera þannig, segir Anne-Marie sem skrifar lesendabréfið. Hún segist hins vegar hafa þurft að hafa fyrir því að fletta upp nafni þess sem hefur þýtt Han Kang á sænsku því á það hefur varla verið minnst í sænskum fjölmiðlum. Eftir að þetta lesendabréf birtist hefur fleira fólk stigið fram og tekið undir, meira að segja hefur verið bent á það að þýðandi eigi höfundarrétt á sænskum

Áfram gakk

Eldsnemma í morgun las ég þráð á samskiptamiðlinum Threads, sem var spjall um hvernig fólk komst að því að nánir aðstandendur voru CIA-njósnarar, einhverjir þeirra höfðu meira að segja verið gagnnjósnarar. Þegar afi eins á spjallinu dó fundust fimm ólík vegabréf sem hann átti, með mismunandi nöfnum, ein hafði búið með fjölskyldunni í Líberíu, Guatemala og einhverjum fleiri löndum og pabbi hennar vann hjá hernum og nú var að renna upp fyrir henni að hann var starfsmaður CIA og ein á spjallinu sagði pabba sinn alltaf hafa verið með tölvuherbergi með fimm mismunandi tölvum og allskonar græjum, áður en almenningur var með tölvur heima hjá sér, og nú var hún að komast að því að hann var njósnari. Þetta fannst mér skemmtilegt í ljósi þess að ég gerði fjóra útvarpsþætti s em finna má á í sarpinum á RÚV og þar er einmitt minnst á CIA í síðasta þættinum . Þættirnir fjalla um blaðbera sem hvarf árið 1976. Í þáttunum er líka minnst á sænskan spjallþráð þar sem rætt er um hvarf bréfberans, sem hét

Kynlíf langömmu þinnar

Í Politiken er greinarflokkur þar sem starfsfólk safna er spurt um áhugaverða gripi á söfnunum sínum. Í dag var ég að lesa um græju sem var víst til á langflestum dönskum heimilum á fyrri hluta síðustu aldar og var að sögn safnvarðar á dönsku safni notuð sem getnaðarvörn í áratugi. Tækið var notað til að skola út sæði eftir samfarir, en einnig til skolunar eftir fæðingar og ólögleg þungunarrof. Ílátið var fyllt af vatni og hengt hátt upp og svo var spúlað út með hjálp þrýstings og vatns. Þetta tæki mun hafa verið algengt frá 1920 til 1950, en var einnig töluvert notað eftir það því pillan kom jú ekki á markaðinn fyrr en á sjöunda áratugnum. Ýmist var notað hreint vatn eða að út í það var blandað ediki eða sítrónusafa, en það mun ekki hafa verið hollt fyrir líkamann, sýrustigið gat farið í tómt rugl. Svo er þetta ekki sérlega góð getnaðarvörn heldur, en sennilega betra en ekki neitt.  Safnvörðurinn sem er til viðtals í Politiken segir að þessi græja hafi verið gríðarlega mikið notuð á s

Þú veist hvað ég meina, mær ...

Í dag er 1. september og spáð óveðri. Mér finnst það dálítið hressandi. Ég lufsast um garðinn eins og múmínpabbi og vonast eftir alvöru hvelli, ekki væri verra ef hengirúm bísamrottunnar fyki út í hafsauga og kassa af rommi myndi skola á land. Í gærkvöldi sóttum við sveppi upp á heiði, þeir eru enn í körfu úti því ég nenni ekki að hreinsa þá strax. Það er töluverð hauststemning sem fylgir villisveppum sem finnast á heiðum Reykjavíkur. Ég hef verið að lesa dönsku bókina Rúmmálsreikningur I eftir Solvej Balle í vandaðri þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur. Sú bók fékk, ásamt tveimur næstu bindum í röðinni (bækurnar verða samtals sjö), Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í fyrra og hún er verulega skemmtileg og áhugaverð. Ég geymdi mér að lesa hana þar til hún kom í íslenskri þýðingu, ekki vegna þess að ég lesi ekki dönsku heldur vegna þess að þó að ég lesi frummálið þá vel ég frekar góðar þýðingar á íslensku þegar þær eru í boði. Og talandi um þýðingar úr dönsku þá var einmitt verið að laga

Karladýrkun

Ein birtingarmynd karlasamfélagsins æpti á mig úr hillu með óskálduðum bókum sem ég gekk framhjá á Kastrupflugvelli í gær (það stendur non-fiction fyrir ofan hilluna). Þarna er nú aldeilis enginn skortur á bókum um og eftir karlmenn þar sem kápumyndin er af aðalkarlinum. Svo lúrir þarna Britney Spears innan um karlana, en hún er ber að ofan. Og svipuð sjón er auðvitað svo algeng að fæst fólk sér nokkuð athugavert við þetta. Þegar athygli er vakin á þessu er gjarna sagt að þetta sé alveg örugglega bara einhver tilviljun.   

Táin á Tollundmanninum

Í Silkeborg á Jótlandi eru varðveittar leifar af manni sem fannst í danskri mýri um miðja síðustu öld. Þegar ég var unglingur fór ég og skoðaði Tollundmanninn og fékk þessa rúmlega tvö þúsund ára gömlu múmíu svolítið á heilann og póstkort af karlinum hékk árum saman uppi á vegg í herbergjum sem ég bjó í. Á þeim árum var ekki til neitt internet og ég fann sáralitla umfjöllun um þennan forvitnilega mann svo póstkortið varð að duga mér í mörg ár. Þegar ég, ásamt góðum meðhöfundi, skrifaði kennslubók fyrir miðstig grunnskóla fyrir nokkrum árum, sá ég til þess að koma Tollundmanninum inn í bókina og ég vona að börnin sem lesa hana og kennarar þeirra kunni að meta það. Þegar ég sé fjallað um Tollundmanninn, og fleira fólk sem hefur fundist í mýrum í Danmörku, verð ég alltaf forvitin og meðal þess sem mér hefur fundist skemmtilegt er frétt sem birtist í dönskum fjölmiðlum fyrir nokkru síðan. Fréttin fjallar um tá sem var á fæti Tollundmannsins en lenti á flækingi. Það hafa ýmis vandamál ko

Félagsbústaðir og vélanám

Það eru nokkrar rásir sem spilast í höfðinu á mér á hverjum tíma. Það er svo sem ekkert beinlínis að því (ég hélt einu sinni að allt fólk væri svona en nú skilst mér að það séu tekin lyf við þessu) en alla vega ákvað ég að skrifa niður eitthvað af því sem hefur bergmálað innra með mér í morgun. Byrjum á einni spurningu: Hvenær tók Vanilla Black, sem er útum allt í flösku sem pinnar standa uppúr, við af Ariel Ultra sem íslenska ríkislyktin? Ég hef oft rætt um Norðmanninn sem sagði mér að hann þekkti Íslendinga í strætó í Osló á þvottaefnislyktinni, en núna er það þessi Vanilla Black-lykt sem hefur yfirtekið þjóðfélagið. Mér persónulega finnst hún betri en þvottaefnislykt (ég nota bara svansmerkt og lyktarlaust þvottaefni) og er alveg í vanillu-teyminu, en þetta er samt kannski að verða gott með þessa lykt? Á meðan lesendur velta þessu fyrir sér ætla ég að snúa mér að næsta máli: Það bjó svokallaður svikahrappur í íbúð Félagsbústaða í um það bil áratug og át þar lyf út á resept látinnar

Við Eyrarsund

Nú er ég stödd á Kastrup-flugvelli og er að drekka mjög dýrt kaffi. Hvaða bjöllusauður ákvað að nútímalegar flughafnir væru svona þreytandi staðir og hvernig stendur á því að hérna eru veitingastaðir sem spila stöðuga dúnki-dúnki-tónlist? Alveg er ég viss um að ef haldin yrði atkvæðagreiðsla meðal farþega um hvort þeir kjósi þetta andrúmsloft þá yrði stemningin hérna kolfelld. En við áttum góða daga á Skáni og í Kaupmannahöfn. Í Malmö hittum við Cillu vinkonu okkar sem býr í Kanada en var að heimsækja vini og fjölskyldu í Svíþjóð. Í Kaupmannahöfn hittum við son og tengdadóttur sem búa á Fredriksberg. Við fórum í góða göngutúra um Nørrebro, Østerbro og Frederiksberg, borðuðum góðan mat og svo kom vorið. Mér skilst að það sé líka komið til Íslands. Ég þarf að skrifa bók og ég held að vorveður henti mjög vel til þeirra skrifta. Svo bíða framkvæmdir hér og þar. Bæði innan húss og utan. Og í annarri ferðatöskunni sem var tékkuð inn er róla en í hinni hengistóll. P.S. Hér er umfjöllun um

Vígt vatn af skornum skammti

Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.

Ævisögur og fíkniefnastríð

Til að byggja mig upp fyrir ýmis verkefni sem ég er með á minni könnu (ég er að reyna að forðast orðið frestunarárátta) les ég ævisögur. Í gær las ég Þjófur, fíkill, falsari - Sjálfsævisaga síbrotamanns eftir Guðberg Guðmundsson og með morgunkaffinu las ég Sendiherrafrúin segir frá , eftir Hebu Jónsdóttur. Þessar bækur eru báðar um og eftir gallaðar og brothættar manneskjur en mjög áhugaverðar á margan hátt. Þær gjalda þó fyrir það (eins og kannski allar ævisögur) að það er skautað of mikið á yfirborðinu, kannski vegna þess að höfundarnir sjá ekki vel undir yfirborðið eða hugsanlega vegna þess að þau eru ekki fær um að ræða það sem hefði mátt ræða, og auk þess hefðu bækurnar þá orðið allt of langar og ruglingslegar. Þarna kemur líka inn í takmörkun tungumálsins og frásagnarinnar. En þá kemur að lesandanum að túlka og reyna að skilja. Ég tek fyrrnefndu bókina með mér á skrifstofuna á eftir og þar tekur annar lesandi við henni og fljótlega getum við rætt atburði og allan þann aragrúa pe