Ekki hef ég mátt vera að því að skrifa mikið hér undanfarið. Trúið mér eða trúið mér ekki en ég hef haft mikið að gera. Um daginn skrapp ég til Svíþjóðar, nánar til tekið til Emmaboda í Smálöndum þar sem var tekið vel á móti mér. Þangað tók ég lest frá Kaupmannahöfn og auðvitað eru lestar langbesti ferðamátinn. Ég var með nesti og bókað sæti og rak stelpu úr sætinu mínu við gluggann. Fékk auðvitað samviskubit (ég er svo vonlaus í að vera frekjubeygla og á svo erfitt með að láta hafa fyrir mér) en ég hef svo oft verið rekin úr bókuðum sætum sem ég hef hlammað mér í í sænskum og dönskum lestum að ég ákvað að taka þetta alla leið. Skandinavíska kerlingaleiðin er að vera jobbig týpa sem kann mun á réttu og röngu og er með prinsipp. Ég þekki mitt fólk og hef ákveðið að svara í sömu mynt.
Undanfarið hef ég vanið mig á að hlusta á podköst áður en ég sofna. Margt fólk segist láta hlaðvarpsþætti svæfa sig svo ég ákvað að prófa. Í fyrstu valdi ég of áhugaverða þætti, ég var oftast svo áhugasöm að ég sofnaði alls ekki. Þá fór ég yfir í minna áhugaverð podköst og hef svona smátt og smátt fundið hvað getur mögulega svæft mig. Þetta er samt oft á tæpasta vaði því stundum heyri ég óljóst eitthvað áhugavert eða skræka rödd í óáhugaverðum umræðum og samstundis sperri ég eyrun. Þannig komst ég smám saman að því að það er röddin sem skiptir mestu máli í kvöldþáttunum.
Eitt kvöldið í vikunni náði ég að hlusta á danskan þátt sem heitir Hvad tænder du på? þar sem kona sem heitir Helene Marie ræðir um það sem Danir kalla lyst við margfalt grammyverðlaunaða rapparann og DJ-inn Nick Coldhands (þið munið kannski eftir laginu Spændt op til li’r með Den Gale Pose – ef ekki þá finnið þið það á Spotify). Þetta er svona kynlífsspjallþáttur með undirleik lyftutónlistar og mér tókst að láta hann vagga mér í svefn því Nick Coldhands er með sérlega kósí rödd og viðkunnanlegt viðhorf til lyst. Hann talaði samt líka um bókina sem hann er með í smíðum og fjallar um málshætti. Ég ætlaði að endurtaka leikinn kvöldið eftir og hlusta meira á Handkalda-Nikka en fann bara einn annan þátt þar sem hann talar og sá þáttur fjallar um tónlist og er með tóndæmum og þau eru mér ekki að skapi. Nick Coldhands heitir reyndar Nicholas Kvaran í opinberum skjölum og er sonur Gunnars Kvaran, eins okkar allra besta sellóleikara, sem er örugglega alveg jafn viðkunnanlegur maður og sonurinn.
Í fyrrakvöld kveikti ég á fyrsta hlaðvarpinu sem sænska ríkisútvarpið sýndi þegar ég opnaði síðuna þeirra, sennilega er það bara það nýjasta sem þau hafa sett inn í spilarann, nema það vinsælasta birtist fyrst. Sá þáttur heitir Uteliggaren som blev advokat (Heimilislausi maðurinn sem varð lögmaður) og fjallar um Stefan sem nú sprangar um í dýrum og stífum fatnaði en fyrir nokkrum árum bjó hann á götunni, var heimilislaus sprautufíkill og glæpamaður. Ég var ekki kominn langt inn í þáttinn þegar klippt er inn viðtal við móður aðalpersónunnar, sem þáttarstjórnandi kallaði Helgu. Nú veit ég mínu viti og hef góð eyru þegar tungumál eru annars vegar og þó að Helga tali góða sænsku þá heyrði ég samstundis að þessi kona væri af íslensku bergi brotin. Ég reif upp símann, opnaði Íslendingabók og fór að leita að þessu fólki. Tveimur mínútum seinna hafði ég komist að því að Stefán, sá sem tókst til allrar hamingju að snúa baki við ógæfunni og gerast próper maður sem lætur gott af sér leiða, er fimmmenningur við mig.
Í kvöld er ég að hugsa um að reyna að sofna eftir að hafa hlustað á Gunnar Kvaran flytja fagra tónlist eftir Schubert.
P. S. Hér fyrir neðan birtast Saga Garðarsdóttir og Ragnar Kjartansson í mynd úr myndbandi sem ég sá í verki þess síðarnefnda í Louisiana í gær. Ég mæli með sýningunni en mun ekki fjalla neitt um ættir þessara skötuhjúa á þessum vettvangi að svo stöddu.
Kommentarer
Skicka en kommentar