Þetta fór ég nú bara að hugsa um í morgun þegar ég las um norska rannsókn sem sýnir að talhraði fólks hefur aukist um 50 % síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Mér finnst nefnilega allt gerast allt of hratt í nýjum bíómyndum, ég á of erfitt með að fylgjast með mörgum þeirra. Ég er eiginlega viss um að fólk talar miklu hægar í gömlum bíómyndum og hreyfir sig hægar og það hentar mér betur. Þetta er reyndar dálítið furðulegt því almennt er ég fremur óþolinmóð og vil helst vera að gera nokkra hluti samtímis og á erfitt með sjónvarpskokka sem hræra hægt í sósunni.
Fyrir um fimmtán árum starfaði ég í eitt ár sem vefritstjóri og sá um að skrifa og þýða fréttir fyrir vef í eigu Norrænu ráðherranefndarinnar. Þegar ég tók við starfinu fór ég á stutt námskeið í Kaupmannahöfn um skrif frétta fyrir vefmiðla. Þar lærði ég að frétt á vefnum mætti bara vera ákveðið margar línur, mig minnir að það hafi mest mátt taka sjö mínútur að lesa umfjöllunina. Einhver rannsókn, sem sagt var frá í mjög stuttri kennslubók örnámskeiðsins, hafði sýnt að lengri fréttir læsi fólk ekki á skjánum. Nú er tíminn líklega orðinn miklu styttri, fólk nennir mögulega bara að verja tveimur mínútum í að lesa fréttir á vefjum ráðherranefnda.
Mér skilst að fólk hlusti gjarna á hljóðbækur á tvöföldum hraða og lögin á Spotify styttast víst stöðugt í takt við að nettengingarnar verða sífellt hraðari. Kannski eru messur og leikritin í Þjóðleikhúsinu það eina sem hefur ekki verið stytt eða hraðað. Mögulega væri ráð að leikhúsin létu leikarana tala hraðar og gætu þá sýnt tvær sýningar á kvöldi. Ég er stundum óþolinmóð í leikhúsum og finnst ekki afleit hugmynd að geta séð Sölumaður deyr á tvöföldum venjulegum leikhraða.
Á þessari stundu er verið að dreifa bókinni Aksturslag innfæddra í verslanir. Í henni eru sjö sögur, þær eru ýmist fyndnar eða sorglegar og sumar bæði í einu og einhverjar bjóða upp á óvænt endalok. Flestar skrifaði ég á þessu ári en ein er nokkurra ára gömu. Ein sagan var upphaflega ljóð sem lengdist í sífellu, en hún er samt ekkert lík ljóði. Mörg ljóð sem ég hef skrifað eru sennilega líka miklu líkari smásögum en ljóðum. Bókin er hvorki hnausþykk né seinlesin svo fólk sem er að flýta sér ætti jafnvel að íhuga að kaupa sér eintak.
Þetta er útsýnið út um gluggann þar sem ég sit nú í Kaupmannahöfn. Eitt sinn var gosdrykkjaverksmiðja í þessu húsi en nú er þar bílaverkstæði. |
Kommentarer
Skicka en kommentar