Fyrir nokkrum dögum sagði ég frá því að Camilla Läckberg sæti undir ámæli um að vera ekki höfundur bóka sinna heldur hefði hún ráðið annan höfund í að skrifa að minnsta kosti tvær. Nú hafa umræðurnar um þetta undið upp á sig og höfundapar eitt, Leif og Caroline Grimwalker, tjáði sig í vikunni í sænska ríkisútvarpinu þar sem þau segjast eiga bækur frá öllum stóru forlögunum á metsölulistum, nema hvað bækurnar eru ekki sagðar eftir þau heldur aðra fræga höfunda. Aðspurð segja þau að ekkert sé athugavert við þetta, sumir höfundar anni bara ekki eftirspurn, allir geti ekki verið jafn handfljótir og þau, sem skrifa fimmtán bækur á ári hvort, eða þrjátíu samtals.
Parið Leffe og Caroline Grimwalker er þekkt hjá áhugamönnum um sænskar afþreyingarbókmenntir. Þau gefa út gríðarlegan fjölda verka og skrifa það allt á skipulagshæfni sína og vinnusemi, nú og löngun til að þéna mikla peninga. Þau segjast vera bókmenntaverksmiðja og fyrir einhverju síðan las ég viðtal við þau þar sem þau sögðust síðustu 10 árin hafa skrifað um 50 bækur undir nöfnum annarra höfunda, bæði glæpasögur og ævisögur, auk sinna eigin verka.
Leffe Grimwalker (f. 1969) skrifar ævisögur þannig að hann tekur viðtöl við manneskjuna á Skype og skrifar samtölin og bætir svo við einhverju sniðugu dúlleríi frá eigin brjósti og þá er þetta bara komið sagði Leffe í viðtali við DN í vetur. Hann er menntaður rafvirki, sem upphaflega hét Leif Keinänen og ólst upp í stokkhólmsku úthverfi sem heitir Hökarängen. Pabbi hans var ofbeldisfullur, finnskur alkóhólisti og mamman frá Baskalandi, hún átti við alvarleg geðræn vandamál að stríða. Leffe gerðist smáglæpon á barnsaldri og stal fyrsta bílnum 14 ára. Smám saman segist hann svo hafa orðið harðsvíraður bófi sem ferðaðist með peninga til aflandseyja fyrir sænsk fyrirtæki sem forðuðust að borga skatta. Hann segist aldrei hafa hlotið dóma fyrir þetta og þegar hann kynntist Caroline kúventi hann lífi sínu. Caroline, fæddist Bengtsson og hét síðan Jensen, en hún er skánsk og á foreldra sem eru lögfræðingur og kennari. Hún vann um tíma fyrir sér með því að koma nakin fram og gaf út fyrstu bókina 2008, bókin er byggð á fortíð hennar og heitir Champagneflickan, en svensk strippa berättar (Kampavínsstúlkan, sænsk nektardansmær segir frá) og bókin seldist í 70.000 eintökum, eftir því sem höfundurinn segir. Hún menntaði sig í lögfræði og ritlist og starfaði meðfram námi á Biskops-Arnö á klúbbnum Vida Loca í Kaupmannahöfn þar sem hún umgekkst gestina berbrjósta, kannski svona fimm manns á kvöldi, og hún var full sex daga í viku því innifalið var kampavín.
Hjónin komu sér upp ættarnafninu Grimwalker og búa í stóru húsi með heitum potti. Þau stefna lóðbeint inn á kvikmynda- og sjónvarpsmarkaðinn og eru búin að gera einhverja samninga til að komast þangað. Þau eru líka einbeitt í hljóðbókabyltingunni og stefna á Austur-Evrópu í því samhengi, vilja hífa upp markaðinn þar. Þau fengu í fyrra fyrirspurn frá Gyldendal um hvort þau gætu skrifað tíu bækur á sex mánuðum og gert sjónvarpsseríu meðfram og þau héldu það nú. Ég veit ekki hvort serían og bækurnar eru tilbúnar en þær hljóta að vera langt komnar. Leffe segist einu sinni hafa skrifað bók á 18 dögum og Caroline, sem kennir líka ritlist, segir nemendum sínum að það sé ekkert mál að skrifa 300 bls. bók á mánuði, fólk þurfi bara að hætta að flytja kommur fram og til baka eins og einhver Flaubert. Rithöfundar eigi bara að drulla texta á skjáinn og svo kemur einhver ritstjóri og grautar saman textanum og lagar hann til, sagði Caroline í viðtalinu við DN. Þau hika ekki við að kalla sig hórur með samvisku (horor med moral) og í heita pottinum að loknum vinnudegi láta þau sig dreyma um að minnka aðeins við sig, skrifa kannski bara tvær bækur á ári og flytja til Balí.
Leif og Caroline Grimwalker í heita pottinum (mynd fengin að láni úr DN) |
Kommentarer
Skicka en kommentar