Ég hef verið að lesa dönsku bókina Rúmmálsreikningur I eftir Solvej Balle í vandaðri þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur. Sú bók fékk, ásamt tveimur næstu bindum í röðinni (bækurnar verða samtals sjö), Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í fyrra og hún er verulega skemmtileg og áhugaverð. Ég geymdi mér að lesa hana þar til hún kom í íslenskri þýðingu, ekki vegna þess að ég lesi ekki dönsku heldur vegna þess að þó að ég lesi frummálið þá vel ég frekar góðar þýðingar á íslensku þegar þær eru í boði. Og talandi um þýðingar úr dönsku þá var einmitt verið að laga síðustu próförk að bókinni Bernsku/Barndom eftir Tove Ditlevsen. Sú bók fer senn í prentun ásamt smásagnasafninu Aksturslag innfæddra, sem ég ákvað í fyrradag að hætta að stytta svo smásögurnar umbreytist ekki í örsögur. Nú bíða verkefnin sem hafa verið í salti og setið á hakanum.
Þegar ég kveikti á útvarpinu fyrir stundu var Svanhildur að leika lagið þar sem koma fyrir orðin munablossar ginna, það er lag sem lætur mig langa að skrúfa upp í tækinu og setja á mig gúmmíhanska. Sennilega er kominn tími á hausthreingerningu.
Kommentarer
Skicka en kommentar