Fortsätt till huvudinnehåll

Þægindahrammurinn

Reykjavíkurdætur glöddu mig í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi, töff, skemmtilegar og klárar.

Ég hef eignast nýjan, gylltan síma og eins og búast má við sef ég með hann við höfðalagið og kíki á hann þegar ég vakna. Í morgun, þegar ég vaknaði örlítið þunn, hafði gömul kórsystir mín póstað auglýsingu á facebook-vegginn sinn um leikfimi í Garðabæ. Umrædd kona lítur alltaf út eins og ferskasta ferskjan í búðinni svo að í svefnrofunum fannst mér mjög góð hugmynd að ég tæki hana mér til fyrirmyndar og færi þrisvar í viku klukkan sjö á morgnana í leikfimi. Og það var eins og við manninn mælt, ég sendi póst og bókaði mig og mun því mæta í Garðabæ, klædd eins og Jane Fonda utan á vídeóspólu sem ég átti einu sinni og viðeigandi ennisbandi í stíl, við fyrsta hanagal á mánudaginn. Nú velti ég því fyrir mér hvort ég sé í maníu eða heilaþvegin af þulum lífsleikniráðgjafa um nauðsyn reglubundinna stökka út fyrir þægindarammann. Ég held samt að þessi svokallaði þægindarammi sé ekki til, lífið fer auðvitað aðallega fram innan einhvers óskilgreinds óþægindaramma. Það hefur reyndar oftar en einu sinni verið sagt við mig að ég hafi aldeilis stigið út fyrir þægindarammann þegar ég hætti í þægilegri innivinnu fyrir nokkrum árum og gaf út fyrstu bókina 45 ára. Síðan hef ég skrifað svona tólf bækur og líklega þýtt álíka margar, en mér fannst ég eiginlega einmitt stíga inn í þægindarammann þegar ég "hætti í vinnunni".

Í morgun kom hingað maður og setti upp gríðarlega hraðskreitt internet. Auk nýja símans míns hefur heimilið líka eignast nýtt sjónvarp, sem er á stærð við biljarðborð, svo hér er aldeilis nútímavæðing í gangi. Nú verð ég að reyna að temja mér að hafa gaman af hasarmyndum.

Hitinn er um 10 gráður í Norðurmýri, sólin skín og nágrannarnir eru berir að ofan og í stuttbuxum. 

Heggurinn og gulir túlípanar í skugga, sem springa út á næstu dögum

Kommentarer