Fortsätt till huvudinnehåll

Portúgal og Fönix

Horfði með öðru auganu á söngvakeppnina á tölvuskjánum. Mér sýndist þetta mikið strákafestival en ég gaf mér ekki tíma til að telja hausa og reikna prósentur eins og ég á alveg til stundum. Á meðan keppnin fór fram lék ég líka svokallaðan kaffihúsaleik, hann fólst aðallega í því að sitja á gólfinu og borða poppkorn. Krúttlegir þessir Portúgalar en ég er nú ekki svo hrifnæm að ég hafi tárast, hvað þá grátið á portúgölsku eins og einn ágætur maður sagðist á facebookvegg hafa gert. Það þarf nú eitthvað meira en þetta raul til að mitt ískalda steinhjarta bráðni.

Í dag var enn eina ferðina fugl í kamínunni í sumarhöll vindanna. Við heyrðum í honum í reykrörinu þar sem hann sat kannski fastur. Eftir bank í rörið og tilraunir okkar Lísu til að lokka hann niður með tekexi og vatni hrundi hann loks niður í ofninn. Þá var hægt að opna fyrir honum og hann flaug út í vorið. Þetta var enginn Fönix, bara ungur stari.

Þessa mynd tók ég fyrir nákvæmlega einu ári í Póvoa de Varzim í Portúgal.

Kommentarer