Fortsätt till huvudinnehåll

Féll í dá

Þegar ég var barn fletti ég dagblöðum sem urðu á vegi mínum, Þjóðviljanum, Mogganum, Tímanum og jafnvel Alþýðublaðinu, en á einhverjum tíma varð það svo þunnt að það var kallað Alþýðublaðsíðan. Í þessum blöðum voru stundum  greinar og fréttir sem ég var mjög spennt fyrir og á tímabili var ég sérstaklega spennt fyrir greinum um fólk sem hafði fallið í dá. Sennilega komu svoleiðis fréttir dálítið í staðinn fyrir dramatísk tilfinningaklámsviðtöl sem síðar fóru að birtast. Frá tíu ára aldri og fram undir tvítugt fylgdist ég eins náið og ég gat með Karen Ann Quinlan sem féll í dá eftir að hafa svelt sig til að komast í of lítinn kjól, samt var hún bara um 50 kíló. Hún fór mjög svöng í partý og fékk sér pillur og vín og sofnaði og vaknaði ekki aftur. Í dáinu var hún í áratug og mikið var fjallað um hvort leyfa ætti að taka öndunarvél og mögulega einhverjar fleiri vélar úr sambandi svo hún gæti dáið.

Svo var það Sunny von Bülow, gríðarlega rík kona sem féll í dá um 1980. Ég fylgdist ekki eins náið með henni og með fyrrnefndri Karen, en danskfæddur eiginmaður Sunny var dæmdur í þrjátíu ára fangelsi fyrir að gefa henni insúlín og valda dáinu en síðan var dóminum snúið við og hann losnaði úr prísundinni. Maðurinn, Claus von Bülow, er víst enn á lífi og frægur fyrir að halda glæsileg partý, en Sunny, sem hét reyndar Marta, dó 2008 og hafði þá verið í dái í 28 ár. Ég missti alveg af andlátinu, enda ekki jafn spennt fyrir sögum af fólki í dái eftir að ég fullorðnaðist. Í gær horfði ég samt á hálfa bíómynd um þetta mál, þar leika Glenn Close og Jeremy Irons Sunny og Claus og sá síðarnefndi er afar ógeðfelldur.

Já og þegar ég var unglingur sá ég líka myndina Coma með Geneviève Bujold og Michael Douglas. Kærkomin sú mynd fyrir ungmenni með áhuga á dásvefni. Ég man reyndar lítið úr myndinni en hún snerist um að verið var að selja líffæri úr fólki sem illir læknar létu falla í dá, mig minnir að myndin hafi valdið mér einhverjum vonbrigðum, það gera bíómyndir stundum.

Nú og svo var það Girlfriend in a coma sem The Smiths sungu um.

Stundum birtust fréttir af fólki sem vaknaði úr dái, jafnvel gjörbreytt. Þá talaði það kannski með torkennilegum hreim eða hafði tekið miklum persónuleikabreytingum frá því hvernig það hafði verið fyrir dásvefninn.Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Ljótar ljósmyndir

Í krummaskuðinu Krummaborg er gamalt leikhús sem á sér langa sögu. Það stendur við götu sem heitir Horní og er um 200 metra frá aðaltorginu þar sem ég er stödd núna. Í leikhúsinu er kaffihús/bar, eina slíka lókalið ég hef komið inn á í Tékklandi þar sem ekki má reykja. Anddyri leikhússins minnir mig pínulítið á gamla Nýja bíó eða jafnvel Hafnarfjarðarbíó (sem var eitt fallegasta bíó Íslands - en auðvitað var það eyðilagt), það er einhver svoleiðis stemning þarna. Kaffihúsið á neðstu hæð er skemmtilega gamaldags og ekkert of fínt, mismunandi ljósakrónur og lampar og þjónustustúlkan var hressileg. Mér leið samt dálítið eins og á kaffistofu sagnfræðinga við Háskóla Íslands þarna inni í gærkvöldi. Á svæðinu voru nefnilega tólf karlar og ein kona (ég). Já og skömmu síðar bættist þrettándi karlinn í hópinn.

Kannski hanga tékkneskar konur lítið á kaffihúsum og börum en þegar ég fór á klósettið datt mér í hug önnur skýring á fjarveru þeirra. Í anddyri leikhússins er nefnilega hörmulega ósmek…