Fortsätt till huvudinnehåll

Myndasmíði

Þegar yngri sonur minn var á leikskóla í Svíþjóð komu einu sinni skilaboð frá leikskólastarfsmönnum þar sem foreldrar voru beðnir að hætta að mæta með myndavélar á viðburði skólans. Ég man sérstaklega eftir nokkrum foreldrum frá Asíulöndum sem stóðu fremst þegar börnin sýndu leikrit eða sungu og byrgðu öðrum sýn á meðan þeir mynduðu börnin sín með vídeótökuvélum. Skilaboðunum fylgdi létt-passív agressív nóta um að það væri skemmtilegt að horfa á börnin koma fram og njóta þess bara meðan á uppákomunni stæði. Þetta var fyrir tíma farsíma með myndavélum, en mér datt þetta í hug  í gærkvöldi þegar instagramið fylltist af sólarlögum. Þá hugsaði ég með mér að það væri kannski gaman ef fólk hætti að taka myndir af sólarlaginu og horfði bara á það. Ég verð sennilega svona yfirlætisfull þegar síminn minn er ónýtur og ég get ekki tekið myndir og sett á instagram. Auk þess sést aldrei sólarlag heima hjá mér því ég bý á lægsta punktinum í Norðurmýri. Þegar yfirborð sjávar hækkar að ráði verður kjallarinn minn kannski eins og neðri hæðin í múmínhúsinu eftir flóðið í Örlaganóttinni; íbúar hússins munu þurfa að kafa eftir kaffidósinni og bollunum.

Múmínsnáðinn kafar í eldhúsinu


Stolin mynd af sólarlagi

Kommentarer