Fortsätt till huvudinnehåll

Hlemmur

Ég held ekki að ég sýni dómgreindarleysi varðandi eigin persónu þó að ég haldi því fram að ég sé sjaldan utan við mig. Ég er ekki vön því að týna hlutum og gleyma, fara í öfug föt, koma of seint eða ruglast á dóti. En í morgun tókst mér samt að bursta tennurnar með andlitskremi úr túpu sem var keypt í sænsku apóteki um daginn. Ég var búin að bursta duglega í svona tíu sekúndur þegar ég fann beiskt krembragðið. Oj!

Ég er ekki meðlimur í Costco svo ekki fer ég þangað í bili. Hins vegar fór ég áðan í pólsku búðina á Hlemmi og keypti pipar. Það er svolítið erfitt að versla þar vegna þess að allt er merkt á pólsku, en ég get nú ráðið í ýmislegt. Þar fæst líka brauð sem heitir chleb. Og talandi um Hlemm þá er spurning hvort mögulegt ofmat á fjölda túrista verði til þess að hótelið sem verið er að ljúka við, ásamt fjölda annarra hótela í grenndinni, muni kannski standa hálftómt. Ég hef reyndar litla trú á því, og fjölgi túristum ekki eins og kanínum verður örugglega hægðarleikur að breyta hótelunum í huggulegar íbúðir, ekki veitir af. Annars fíla ég ferðamenn og Hlemm og hlakka til þegar Mathöllin í gömlu skiptistöðinni verður opnuð. Ég sé það samt ekki alveg vera að gerast. Ég kíkti auðvitað inn áðan, eins og ég geri gjarna þegar framkvæmdir vekja áhuga minn, og þetta er allt í rúst.

Það er leikur einn að mæta í leikfimi í Garðabæ eldsnemma á morgnana. Á þessum tíma árs er (of) erfitt að sofa og ég vakna gjarna klukkan fimm og fer á fætur klukkan sex og elda hafragraut. Það væri samt betra ef leikfimin væri nær, mér leiðist að aka bíl og það er flest slæmt við einkabíla. Það væri fullkomið ef einhver myndi opna leikfimisstað á Hlemmi.

Hótel á Hlemmi og það sést smávegis í hornið á Utanríkisráðuneytinu, sem lítur út eins og bygging í amerískum þáttum frá síðust öld, kannski Matlock. Í efra horninu hægra megin sést örlítið í þakskegg á húsinu þar sem Háskóli Íslands rekur spilavíti. Þá starfsemi ætti að stöðva og nýta húsnæðið undir eitthvað annað og gáfulegra. Svo þarf að þrengja meira að einkabílnum á Hlemmi

Kommentarer