Fortsätt till huvudinnehåll

Sænskir bókmenntafantar?

Ég les stundum umræður á sænsku síðunni Flashback forum. Þar eru þúsundir spjallþráða um allt mögulegt og sumir ná áratugi aftur í tímann. Margt er verulega fróðlegt þarna fyrir forvitnar sálir og þar sem hægt er að koma ekki fram undir nafni er ýmislegt slúðrað og rætt um, allt frá dægurþrasi til margra áratuga gamalla óleystra morðmála. Það hefur komið fyrir að mig hafi grunað að aðilar ýmissra mála séu að koma fram á spjallinu undir dulnefni og einnig fjölmiðlafólk sem hikar við að birta undir nafni eitthvað vafasamt sem gæti þó þótt fréttnæmt.

Fyrir stuttu síðan las ég á spjallþræði á Flashback að hinn metnaðarfulli sænski fréttaskýringaþáttur Uppdrag granskning hefði á síðustu stundu hætt við að sýna þriggja þátta röð þar sem sænski bókmenntaheimurinn er til umræðu. Eins og mörg vita kannski er Uppdrag granskning þáttur sem alltaf vekur athygli, til dæmis áttu umsjónarmenn hans þátt í því að fletta ofan af þáverandi forsætisráðherra Íslands, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þegar Panamaskjölin voru efst á baugi (nú eru þau mörgum gleymd). En hvað er svona rosalegt í sænska bókmenntaheiminum að það þoli ekki dagsins ljós? Á síðum hinna og þessara sænskra fjölmiðla segir að lengi hafi verið slúðrað um að SVT væri að rannsaka umboðsmanninn Niklas Salomonsson og umboðsskrifstofuna hans, Salomonsson Agency. Tökumenn með myndavélar hafa elt Salomonsson og starfsfólk hans á bókamessum í Gautaborg og Frankfurt og ýmislegt á að hafa þótt vafasamt í störfum umboðsmannsins. Fyrsti þáttur var kominn á dagskrá þann 10. maí í vor. Beðið var eftir einhverju meiriháttar skúbbi, meðal annars hefur höfundurinn David Lagercrantz sagst hafa farið í viðtöl við SVT og lýst ófögrum samskiptum við Salomonsson. 

Niklas Salomonsson hefur verið áberandi í sænska bókmenntaheiminum í mörg ár. Hann er ekki einhver gaur sem gefur út ósöluvænlega höfunda, hann er með mikið af glæpasagnahöfundum á sínum snærum og er sagður eiga sinn þátt í því að Hollywood og ameríski glæpaþáttaheimurinn hefur heillast af skandinavískum glæpasögum. En Niklas Salomonsson er líka með myrka fortíð, hann var einu sinni dæmdur fyrir ofbeldi og hótanir gagnvart fyrri eiginkonu sinni, Unni Drougge, og þess vegna fannst mörgum hneyksli þegar Liza Marklund réði hann sem umboðsmann, hún hefur skrifað um menn sem beita konur ofbeldi og þjáninguna sem þeir valda og talað fyrir munn kvenna sem hafa verið beittar ofbeldi í samböndum. Síðdegisblaðið Expressen segir að Salomonsson eigi sinni þátt í heimsfrægð margra höfunda, til dæmis Jo Nesbø og umboðsskrifstofan hans er með íslenska höfunda á sínum lista líka, hér eru höfundarnir.

Í tímaritinu Vi var í vor grein um Uppdrag granskning og þættina sem áttu að skaka litteratur-Sverige, eins og það var orðað. Þar segir að fréttamenn Uppdrag granskning vinni eins og spæjarar á leynilegum stað bak við luktar dyr og með gluggatjöldin dregin fyrir. Reyndir og verðlaunaðir fjölmiðlamenn sem sjá um þessa þætti velja umfjöllunarefnin af kostgæfni, þeir fá mikið af ábendingum utan úr bæ og eru snuðrandi víða og þeim er oft hótað öllu illu af glæpamönnum og valdamiklu fólki. En rannsókn á menningarkimanum sem er bókmenntaheimur Svíþjóðar er mjög óvenjuleg. Bókaútgáfubransinn er sennilega almennt ekki álitinn mjög heitt fréttaefni. En hann er það samt greinilega. Það komu víst hótanir frá stjörnulögfræðingum (segja fjölmiðlar og slúðurveitur) og sænska ríkissjónvarpið ákvað að hætta við að senda út þrjá þætti um meinta fanta í sænska bókmenntaheiminum. 


Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Hórur bókmenntanna

Fyrir nokkrum dögum sagði ég frá því að Camilla Läckberg sæti undir ámæli um að vera ekki höfundur bóka sinna heldur hefði hún ráðið annan höfund í að skrifa að minnsta kosti tvær. Nú hafa umræðurnar um þetta undið upp á sig og höfundapar eitt, Leif og Caroline Grimwalker, tjáði sig í vikunni í sænska ríkisútvarpinu þar sem þau segjast eiga bækur frá öllum stóru forlögunum á metsölulistum, nema hvað bækurnar eru ekki sagðar eftir þau heldur aðra fræga höfunda. Aðspurð segja þau að ekkert sé athugavert við þetta, sumir höfundar anni bara ekki eftirspurn, allir geti ekki verið jafn handfljótir og þau, sem skrifa fimmtán bækur á ári hvort, eða þrjátíu samtals.  Parið Leffe og Caroline Grimwalker er þekkt hjá áhugamönnum um sænskar afþreyingarbókmenntir. Þau gefa út gríðarlegan fjölda verka og skrifa það allt á skipulagshæfni sína og vinnusemi, nú og löngun til að þéna mikla peninga. Þau segjast vera bókmenntaverksmiðja og fyrir einhverju síðan las ég viðtal við þau þar sem þau sögðust s

Damelitteratur

Á Bókmenntahátíð í Reykjavík í vor ræddi ég, í minglveislu, um Tove Ditlevsen við fremur ungan danskan útgefanda sem var gestur á hátíðinni. Hann sagði að honum fyndist gaman hvað Tove væri loks að ná út í stóra heiminn hátt í hálfri öld eftir andlát sitt. Hann sagði mér líka að þegar hann var að læra bókmenntafræði, sem var varla fyrir mjög löngu þessi maður er örugglega ekki orðinn fertugur, sagði prófessor sem kenndi honum einhver námskeið það vera dæmi um slæman bókmenntasmekk að kunna að meta Tove Ditlevsen. Hún var sögð banal og gamaldags og Nanna Mogensen sem er gagnrýnandi hjá Danmarks Radio sagði líka að bækur Tove Ditlevsen hefðu fyrir nokkrum áratugum verið afgreiddar sem „damelitteratur“ það þarf ekkert að útskýra hvað sá stimpill gerir fyrir bókmenntaverk. Tove Ditlevsen gaf út fyrstu bók sína, ljóðasafnið Pigesind árið 1939, þá var hún rúmlega tvítug og gift mörgum áratugum eldri manni, Viggo F. Møller, sem hún skildi síðan fljótlega við eins og sagt er frá í Gift , sem

Engin mynd

Í morgun lá ég í rúminu og las grein á símaskjánum um konur sem eru neyddar til að stunda sjálfsmorðshryðjuverkaárásir fyrir Boko Haram. Þegar ég lauk við greinina gaf síminn minn upp öndina. Skjárinn sortnaði og það slokknaði á símanum og nú er ekki hægt að kveikja á honum. Kannski er allt í lagi að vera símalaus, ekki langar mig mikið til að hringt sé í mig, ég vil miklu frekar fá tölvupósta. Ég er annars einhvern veginn hálfpartinn utan þjónustusvæðis þessa dagana, fylgist ekki með Eurovision hvað þá þvargi og dramatískum orðaskiptum um meint völd Rithöfundasambandsins til að láta svipta menn sjálfræði. Ég nenni ekki einu sinni að horfa á fréttirnar. En í kvöld horfði ég á mynd um Emmanuel Macron, sem er forvitnilegur maður miðað við að vera pólitíkus, ég hef eiginlega aldrei neinn áhuga á ókunnugum pólitíkusum. Í dag drakk ég kaffi úti í garði með Þorgerði, bakaði síðan brauð og las töluvert í bókinni De urolige eftir Linn Ullmann. Mér sýnist þetta vera fín bók en hún heillar mi

My friend and I

Undanfarið hef ég svolítið verið að hugsa um bókmenntagagnrýni, já eða mögulegan skort á henni og bókmenntaumræðu almennt, og um eitthvað sem Páll Baldvin Baldvinsson skrifaði í opnu bréfi fyrir nokkrum árum, þegar hann hætti að gagnrýna bækur. Í morgun, þegar ég vaknaði allt of snemma, datt mér í hug að fara á fætur og skrifa það sem ég var að hugsa og finna bréf Páls og hugleiðingu sem ég skrifaði í norska blaðið Klassekampen þar sem gagnrýni var til umræðu. Ég fór á fætur og inn á baðherbergi og rak þá augun í bók Jóhanns Hjálmarssonar, Malbikuð hjörtu , lúið eintak sem kom út árið 1961 og er með teikningu eftir Alfreð Flóka á kápunni. Ég fór að fletta bókinni (já, á klósettinu) og las meðal annars ljóð sem  heitir Skugginn . Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hefði heyrt að Jóhann Hjálmarsson hefði einhvern tíma lögsótt hljómsveitina Trúbrot fyrir að stela frá sér texta ljóðsins. Það tók ekki margar sekúndur að finna útúr því hvernig málinu lauk (dómurinn féll í desember árið 1974).

Stjörnurnar í Alabama

Er ein á skrifstofunni að hlusta á Ellu Fitzgerald syngja Stars fell on Alabama og Blue Moon. Ég á ný föt, það er ýmislegt að frétta og það er snjór í sendiráðshverfinu.

Gráar flísar og bókmenntir

Ég er að svipast um eftir flísum á herbergin í kjallaranum. Eftir ferðir í sérverslanir og byggingavöruverslanir hef ég komist að því að gráar flísar eru í tísku. Grátt er augljóslega tískuliturinn. Ég ætla samt ekki að setja gráar flísar á kjallaragólfin. Það er hálfkalt en kræklótta eplatréð blómstrar Mér finnst ég ekki vinna nóg þessa dagana. Held samt að það geti verið vitleysa hjá vertíðarþrælnum sem býr innra með mér og ákvað að reyna að slaka á áhyggjum af afköstum þegar ég las viðtal við Arundhati Roy í Guardian í fyrradag. Tuttugu ár er samt kannski fulllangur tími á milli skáldverka, að minnsta kosti er lítið upp úr því að hafa fyrir íslenskan örsöluhöfund. Við Hildur erum annars á lokasprettinum með nýja bók um unglinginn Dodda, Pawel vin hans og Huldu Rós. Já, eða reyndar erum við að lesa yfir, breyta og bæta og snurfusa handritið. Og þess má líka geta að bókin hennar Hildar, Vetrarfrí, er nýkomin út á frönsku . Í gær þýddi ég þrjú ljóð eftir sænska konu, þau þarf ég

2021

Í gær gekk ég úr Norðurmýri til Hafnarfjarðar. Á leið um Garðabæ sá ég þetta hús og tók mynd af því. 

Næstsíðasti dagurinn í Åmål

Líður að lokum dvalarinnar í menningarhúsinu bænum við Vänern. Búið að panta lestarferð suður á bóginn á fimmtudag og ég verð á Íslandi í næstu viku. Þar bíða beð sem þarf að róta í og safnhaugur sem þarf að snúa á hvolf. Veðrið hefur verið frekar ömurlegt allan mánuðinn hér í Svíþjóð; kalt, rigning, haglél, slydda og rok. Ekki hefur strandlíf og drykkja á sólpöllum tafið mig frá vinnu, enda hefur mér orðið mikið úr verki, ég hef bæði lesið og skrifað og líka andað djúpt og hugsað. Erla er ekki neitt sérlega iðin við bloggið, en ég bind vonir við að senn skrifi hún eitthvað. Ef þið vitið um íslensk blogg sem ég ætti að lesa þá má láta mig vita. Nokkur önnur blogg  sem ég les: Ráðlagður jazzkammtur Kaktusinn Bragi Ólafsson Fjallabaksleiðin

Bækur

Ég hef ekki opnað þetta blogg síðan ég var á Sikiley fyrir tæpum tveimur mánuðum, en ákvað rétt í þessu að ég hefði tíma og væri í stuði til að skrifa smávegis. Það er dálítið mikið að gera, ég þeysist um landið ásamt Atla/Kött Grá Pje því við erum skáld í skólum þessa dagana. Í vikunni höfum við verið í skólum í Reykjavík, á Flúðum og í Grindavík að hitta skemmtilega unglinga en í dag er frí frá því verkefni. Í dag þarf ég hins vegar að flengjast upp á Funahöfða og lesa úr nýrri bók sem við Hildur skrifuðum saman, það er framhald af bókinni um Dodda sem kom út fyrir nákvæmlega ári, ég mæli með henni! Nú og svo er ég byrjuð að þýða nýja (en samt gamla) bók. Í gærkvöldi horfði ég á heimildarmynd á Netflix um Joan Didion. Myndin er alveg ágæt, kannski dálítið yfirborðsleg, en mér finnst samt heimildarmyndir um áhugavert fólk alltaf forvitnilegar. Í myndinni kom fram að Joan drakk (eða drekkur) kók og borðaði hnetur í morgunmat, það finnst mér svalt. Í kjölfarið rifjaði ég upp blogg sem

Panill

Ég er óvenju andlaus þessa dagana. Kannski er það vegna þess að ég borða og drekk of mikið. Ég held samt að það sé frekar vegna þess að ég mála of mikið. Það er verið að mála sumarkofann og þar sem hann var eins og gamalt saunabað að innan, klæddur með brún-gulnuðum panil, er það ærin vinna. Síðasti eigandi, sá sem kom á eftir borgarlækninum, var málari og líklega bílamálari. Það sem var á annað borð málað, til dæmis dökkbláar hurðir, hafði hann örugglega málað með bílamálningu. Það þarf fjórar umferðir af hvítu með 40% gljáa til að þekja þessi ósköp. Ekki hef ég lesið mikið undanfarið. Ég er nýbyrjuð á ævisögu Zöruh Leander eftir Beata Arnborg, bókin heitir Se på mig! Næsta bók með mínu höfundarnafni verður með upphrópunarmerki eins og ævisaga Leander, það er þessi hérna sem nú er í umbroti. Kápuna gerði Elín Elísabet Einarsdóttir, sem ég rakst á á Laugaveginum í fyrra að selja póstkort og sá strax að hún væri hæfileikarík listakona. Fólk er mikið í sumarfríum þessa dagana. Mar