Niklas Salomonsson hefur verið áberandi í sænska bókmenntaheiminum í mörg ár. Hann er ekki einhver gaur sem gefur út ósöluvænlega höfunda, hann er með mikið af glæpasagnahöfundum á sínum snærum og er sagður eiga sinn þátt í því að Hollywood og ameríski glæpaþáttaheimurinn hefur heillast af skandinavískum glæpasögum. En Niklas Salomonsson er líka með myrka fortíð, hann var einu sinni dæmdur fyrir ofbeldi og hótanir gagnvart fyrri eiginkonu sinni, Unni Drougge, og þess vegna fannst mörgum hneyksli þegar Liza Marklund réði hann sem umboðsmann, hún hefur skrifað um menn sem beita konur ofbeldi og þjáninguna sem þeir valda og talað fyrir munn kvenna sem hafa verið beittar ofbeldi í samböndum. Síðdegisblaðið Expressen segir að Salomonsson eigi sinni þátt í heimsfrægð margra höfunda, til dæmis Jo Nesbø og umboðsskrifstofan hans er með íslenska höfunda á sínum lista líka, hér eru höfundarnir.
Í tímaritinu Vi var í vor grein um Uppdrag granskning og þættina sem áttu að skaka litteratur-Sverige, eins og það var orðað. Þar segir að fréttamenn Uppdrag granskning vinni eins og spæjarar á leynilegum stað bak við luktar dyr og með gluggatjöldin dregin fyrir. Reyndir og verðlaunaðir fjölmiðlamenn sem sjá um þessa þætti velja umfjöllunarefnin af kostgæfni, þeir fá mikið af ábendingum utan úr bæ og eru snuðrandi víða og þeim er oft hótað öllu illu af glæpamönnum og valdamiklu fólki. En rannsókn á menningarkimanum sem er bókmenntaheimur Svíþjóðar er mjög óvenjuleg. Bókaútgáfubransinn er sennilega almennt ekki álitinn mjög heitt fréttaefni. En hann er það samt greinilega. Það komu víst hótanir frá stjörnulögfræðingum (segja fjölmiðlar og slúðurveitur) og sænska ríkissjónvarpið ákvað að hætta við að senda út þrjá þætti um meinta fanta í sænska bókmenntaheiminum.
Kommentarer
Skicka en kommentar