Nú hefur það, að sögn sænsks vefmiðils, verið afhjúpað af gervigreindarforriti að Camilla Läckberg hafi ekki skrifað öll sín verk með eigin hendi, heldur sé hún í seinni verkum með draugapenna sér á hægri hönd. Nýrri verk hennar eru sögð í öðrum stíl en hin fyrri og sagt er að vinsæll glæpasagnahöfundur, Pascal Engman, sé hinn líklegi höfundur. Camilla vísar þessu á bug á Instagramsíðunni sinni og segir að það næði einfaldlega um hana eins og títt er um fólk sem nær á toppinn. Hún segir hins vegar líka að hún hafi fengið aðstoð hjá Pascal Engman við að breyta stílnum og að hann hafi kennt henni að skrifa á nýjan hátt. Pascal sjálfur segir að allt fólk sem hefur gefið út bók viti að það sé verk ritstjóra að vinna með höfundinum með ýmsum hætti.
Mér finnst þetta áhugavert, kannski sérstaklega þar sem ég flokkast sennilega sem mjög gamaldags rithöfundur að því leyti að ég nýti mér takmarkað ritstjóra í mínum skrifum. Ég varði hins vegar meiri hluta ævinnar í að æfa mig að skrifa og gaf ekki út bók undir eigin höfundarnafni fyrr en ég var 45 ára, svo ég var komin í ágæta æfingu. Nú og svo er ég auðvitað engin Camilla, ég er meira svona að kafa djúpt niðri á botni bókmenntaheimsins á meðan hún stendur á tindinum með sixpack og vel snyrtar augabrúnir, förum ekki nánar út í það.
Hvað sem þessu líður þá eru næstu bækur mínar einhvers staðar í höndum prentara úti í heimi. Annars vegar er um að ræða þýðingu á Barndom eftir Tove Ditlevsen og hins vegar smásagnasafnið Aksturslag innfæddra. Titil síðarnefndu bókarinnar fékk ég að gjöf frá góðu fólki en annað er mitt eigið verk, ég yrði alla vega forviða ef gervigreind kæmist að þeirri niðurstöðu að einhver annar höfundur hefði skrifað fyrir mig. Bækurnar koma út innan nokkurra vikna.
Kommentarer
Skicka en kommentar