Í gær rigndi mikið með reglulegum þrumum og eldingum hérna í Split. Það kom ekki á óvart, ég fylgist með veðurspánum. Hins vegar var ekkert sem varaði okkur við jarðskjálftanum sem dundi yfir um tíuleytið í gærkvöldi. Hann mældist eitthvað í kringum 5 og húsið skalf og nötraði í að minnsta kosti 8 sekúndur. Mér fannst það frekar stressandi. Ég hef ekki hugmynd um burðarþol og járnabindingu húsa sem eru frá því snemma á miðöldum og bjóst þess vegna við að þetta þúsund ára gamla hús sem ég dvel í myndi breytast í grjóthrúgu.
Í vikunni fékk ég fyrirspurn frá höfundi, sem nýlega gaf út fyrstu bók, hvort það sem viðkomandi kallaði útgáfu high væri ávanabindandi. Því gat ég ekki svarað því ég finn ekki svo mikið fyrir slíku. Eiríkur Örn Norðdahl talar um að gíra sig upp í jólabókaflóðið og honum finnst þetta greinlega taugatrekkjandi. Ég er annað hvort of gömul (sem kunnugt er gaf ég út fyrstu bók 45 ára og hafði þá auðvitað marga fjöruna sopið) eða tilfinningasljó eða meðvituð um geðorðin tíu og að halda blóðþrýstingnum í lagi, til að tjúnast upp vegna bókaútgáfu. Í komandi (eða yfirstandandi) jólabókaflóði verð ég með eigin bók og jafnvel þýðingu líka (en mögulega er búið að fresta útgáfu hennar fram á næsta ár vegna pappírsskorts, pappír heimsins hefur víst að mestu farið í grímuframleiðslu undanfarið ár) en ég verð fjarri Íslandi fram í miðjan desember og hafði lítið velt því fyrir mér þar til í fyrradag. Kannski er ég að bregðast skyldum við útgefendur og lesendur, en ég hef stundum verið erlendis í jólabókaflóðum og ég hef verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna að mér fjarverandi. Ég á hvorki í ástar- eða haturssambandi við jólabókaflóðið, samt líklega frekar ástar- því ég hlakka alltaf til að lesa nýjar bækur annarra höfunda. Mér finnst auðvitað gaman að fá mínar eigin bækur og ekki síður þýðingar í hendurnar, en það stressar mig meira að ég valdi útgefendum mínum vonbrigðum með afkastaleysi og ömurlegum handritum en að ég stressi mig eftir að bókin er farin í prentun og komin í sinn eigin farveg.
Það sem hvílir dálítið á mér þessa dagana er hvað barnafataheimurinn er ömurlega kynjaskiptur. Í Benetton eru strákadeild og stelpudeild þar sem eru hörmulega ljót föt ætluð stelpum en frekar falleg föt sem eiga að vera á stráka, nema hvað þetta er allt meira og minna merkt Benetton og hvern langar að láta krakkann sinn ganga um eins og Benetton-auglýsingu? Og í Zöru er það sama uppi á teningnum, öllu er rækilega kynjaskipt og litaskipt, hvaða siðleysi er þetta? Árið 1981 vann ég í fatadeild Kaupfélags Hafnfirðinga. Þar var bara barnafatahorn þar sem aðallega voru röndóttir bolir og flauelsbuxur og engum datt í hug að börn þyrftu að vera í öðru en barnafatnaði.
Kommentarer
Skicka en kommentar