Fortsätt till huvudinnehåll

Henrik Bjelke, reiðhjól og bækur

Það er langt síðan ég hef gefið mér tíma til að skrifa eitthvað hérna, en núna, á hvítasunnudegi, pinsedag eins og Danir kalla hann, finnst mér einmitt vera rétti tíminn til að opna þessa síðu aftur. Ég sit í lítilli íbúð við götu á Nørrebro sem kennd er við Henrik Bjelke, nafn sem hlýtur að rifjast upp fyrir öllu gömlu fólki sem gekk í barnaskóla á Íslandi á síðustu öld. Þegar ég var í skóla og við lærðum um erfðahyllinguna og Kópavogsfundinn, sem haldinn var í júlí 1662, fór Rúnar kennari með bekkinn í strætó í Kópavog, þar settum við upp impróviseraðan leikþátt um Kópavogssamninginn, þar sem ég var sett í hlutverk Bjelkes. Það fannst mér ekki skemmtilegt. Henrik Bjelke (1615-1683) byggði víst skansinn á Bessastöðum og lét flytja þangað fallbyssur, en ég ætla nú alls ekki að fara að fjölyrða um þennan mann sem Friðrik þriðji gerði að landsstjóra á Íslandi (enda veit ég ósköp lítið um hann). Hér til hliðar er samt mynd af Bjelke.  

 


Eins og allir vita þá eru reiðhjól mikilvægur ferðamáti í Kaupmannahöfn. Ég keypti mér hjól eitt sunnudagskvöldið og hef hjólað þó nokkra kílómetra. Það er svo sem ekkert nýtt að ég hjóli, frá því ég var barn hef ég yfirleitt haft hjól til taks og hjólað margra erinda minna. Það er þægilegt, skemmtilegt, ódýrt, umhverfisvænt og hressandi. Það var ekki fyrr en fyrir fjórum árum, þegar ég var spurð að því af konu sem ég mætti á Túngötu hvort ég hefði tekið upp bíllausan lífsstíl, að ég gerði mér grein fyrir því að það að nota reiðhjól væri lífsstíll. En það er það auðvitað, alveg eins og að það er lífsstíll að skreppa allra sinna erinda á bíl.

Ég skal viðurkenna að ég er ennþá örlítið smeyk í umferð Kaupmannahafnar á hjólinu. Danir eiga það til að vera reiðir við fólk sem er með vingulshátt, hvort sem er við búðarkassa eða í umferðinni, og nú þegar hefur ein kona æpt á mig út um bílglugga þegar ég snerist áttavillt í hringi og var fyrir henni fyrir utan covid-prófstað í Forum á Friðriksbergi. Hjólið sem ég keypti í Kvickly á Nørrebrogade kostaði eins og eitt heilsársdekk undir bílinn sem tilheyrir fjölskyldu minni (það þurfti að kaupa undir hann umgang í byrjun mánaðarins).

Ég er í airbnb-íbúð og að sjálfsögðu er ég búin að kemba bókahillur þessarar litlu vistarveru. Ég byrjaði að lesa Arv og miljö eftir Vigdis Hjorth en kunni ekki að meta hana svo ég hætti og er núna að lesa sjálfshjálparbók um 13 hluti sem fólk sem býr yfir andlegum styrk gerir ekki. Bókin er skárri en ég bjóst við en mér leiðast mörg dæmin sem tekin eru í henni, þau fjalla sennilega flest um skjólstæðinga höfundarins, sem er amerískur þerapisti, Amy Morin. Svo eru reyndar líka margnotuð dæmi um Madonnu, Andy Warhol og fleira heimsfrægt fólk í henni, þau eiga að hvetja lesendur til að hafa trú á sjálfum sér. Ég er samt almennt mjög fylgjandi því að kennt sé með dæmum eins og gömlu miðaldabiskuparnir gerðu. Stundum finnst mér vísinda- og fræðimenn of ragir við að taka raunveruleg dæmi máli sínu til stuðnings.


Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Kynlíf langömmu þinnar

Í Politiken er greinarflokkur þar sem starfsfólk safna er spurt um áhugaverða gripi á söfnunum sínum. Í dag var ég að lesa um græju sem var víst til á langflestum dönskum heimilum á fyrri hluta síðustu aldar og var að sögn safnvarðar á dönsku safni notuð sem getnaðarvörn í áratugi. Tækið var notað til að skola út sæði eftir samfarir, en einnig til skolunar eftir fæðingar og ólögleg þungunarrof. Ílátið var fyllt af vatni og hengt hátt upp og svo var spúlað út með hjálp þrýstings og vatns. Þetta tæki mun hafa verið algengt frá 1920 til 1950, en var einnig töluvert notað eftir það því pillan kom jú ekki á markaðinn fyrr en á sjöunda áratugnum. Ýmist var notað hreint vatn eða að út í það var blandað ediki eða sítrónusafa, en það mun ekki hafa verið hollt fyrir líkamann, sýrustigið gat farið í tómt rugl. Svo er þetta ekki sérlega góð getnaðarvörn heldur, en sennilega betra en ekki neitt.  Safnvörðurinn sem er til viðtals í Politiken segir að þessi græja hafi verið gríðarlega mikið notuð...

Baráttudagur kvenna

  Starfandi framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, Mari Pangestu, segir í viðtali við DN að í coronafaraldrinum beri konur þyngsta krossinn. Hún vill kalla þetta alþjóðlega kvennakreppu, að covid-19 hafi breikkað bilið á milli kynjanna og rifið upp gamla mismunun. Kvennastéttir hafa orðið verst úti og konur hugsa mest um börnin sem sum hafa ekki hafa fengið að fara í skólann í lengri tíma. Meðan ég las viðtalið við hana, sem fjallar um konur um allan heim, rifjuðust upp fréttir sem ég hef lesið um að ekki sé hugað að jafnrétti í ákvörðunum á Íslandi, til dæmis er ein nýleg hérna um karllægar aðgerðir stjórnvalda . Í dag verður kynnt kæra níu íslenskra kvenna til Mannréttindadómstóls Evrópu . Konurnar kæra íslenska ríkið fyrir að fella niður mál þeirra. Þær höfðu kært kynferðisof­beldi, heim­il­isof­beldi eða kyn­bundna áreitni en mál þeirra voru felld niður í íslensku réttarkerfi. Ofbeldi í garð kvenna er kerfisbundið. Til hamingju með baráttudag kvenna!

Launbarnið - framhald

Í gær skrifaði ég að ég hefði fundið sönnun þess í skrá Mæðrahjálpar Kaupmannahafnar að Elín Elísabet Jónsdóttir hefði eignast son með Jóhanni Jónssyni. Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, sem er að safna efni í bók um Jóhann, er sá sem hafði samband við mig um hvort ég hefði rekist á nafn Elínar og það var svo skemmtileg tilviljun að það hafði ég gert alveg óvænt. Eftir að hafa verið í sambandi við Guðmund og hann sent mér eitt heimilisfang og ég síðan fundið eitthvað um ferðir Elínar í Kaupmannahöfn sagði ég honum að skrár yfir fæðingar á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn væru á vef danska Ríkisskjalasafnsins en að það væri þolinmæðisverk að stauta sig í gegnum þær. Eftir að ég sendi honum póstinn datt mér samt í hug að taka smástund í að lesa nöfn fæðandi kvenna í Protokol over ugifte fødende (hemmeligfødende) á Ríkisspítalanum. Árið sem nafn Elínar er í bók Mæðrahjálparinn er 1917 svo ég gerði ráð fyrir að barnið hefði fæðst snemma það ár, hún mun hafa komið til Danmerkur 1916. Ég ...

Drottninggatan

Ég er stödd á gistiheimili í Stokkhólmi. Í gærkvöldi át ég salat upp úr plastboxi í kvöldmat og hámhorfði svo á Skam. Mér finnst þetta skemmtilegir þættir en ég og vinir mínir vorum nú ekki alveg jafn þroskuð við upphaf menntaskólanáms eins og norsku ungmennin. Þau eru líka sennilega eldri en þau eiga að vera, ég meina sko leikararnir. Þannig virkar kannski leiklistarbransinn, fyrst leikur fólk niður fyrir sig og síðan upp fyrir sig og svo er það rekið. Hádegismaturinn var bökuð kartafla með skagenröra. Í kvöld ætla ég að hitta þýðanda og forleggjara og drekka með henni bjór. Á morgun held ég ferðinni áfram, þá er sex klukkustunda lestarferð á dagskrá.

Listakona á Rolfsvej

   Elín Pjet. Bjarnason Sumir rithöfundar og bloggarar fá mörg símtöl, bréf og pósta frá lesendum sínum þar sem brugðist er við skrifunum með ýmsum hætti. Ég fæ lítið af slíkum viðbrögðum nema í formi þumla og einstaka skilaboða á samfélagsmiðlum, sem eru reyndar kærkomnir miðlar sem ég kann að meta. Ég á samt nokkur bréf og pósta frá lesendum, en það er ekki mikið að vöxtum. Kannski eru hinir skrifararnir bara að ljúga eða ýkja viðbrögðin við skrifum sínum til að vekja á sér athygli, það gæti svo sem alveg verið. En hvað sem þessu líður þá fékk ég um daginn, eftir að ég hafði skrifað um höfund lagsins sem sungið er við íslenska þjóðsönginn og eiginkonu hans og húsið sem Sveinbjörn dó í á Friðriksbergi, afar skemmtilega  pósta frá einum lesanda þessarar síðu. Lesandinn sagði mér frá mjög áhugaverðri og jafnframt býsna óþekktri íslenskri listakonu, Elínu Pjet. Bjarnason (1924-2009), sem bjó mestan hluta ævinnar og dó í Danmörku, seinni árin bjó hún einmitt á Friðriksbergi...

Maður og hauskúpa

Um daginn keypti ég ljósmynd á nytjamarkaði. Mér fannst augljóst að hún væri mjög gömul og mér fannst hún ólík þeim gömlu myndum sem ég hef skoðað á vefsíðum safna undanfarin ár, og eru þær þó býsna margar. Myndin er nokkuð stór, um 18x23 cm. og í fallegum, greinilega býsna gömlum tréramma með gyllingu. Hún er merkt P. Brynjólfssyni, ljósmyndara. Myndin sýnir ungan mann í vönduðum fötum sem situr við borð og reykir pípu. Hann hrærir í kaffibolla. Á borðinu er pottaplanta (pálmi, eins og var í tísku upp úr þarsíðustu aldamótum) og nokkrar myndir og á veggjunum eru líka myndir, bæði af fólki sem virðist vera íslenskt alþýðufólk en líka glæsilegar konur og hópmyndir. Á öðru borði má sjá lampa, hauskúpu og sennilega mjaðmagrind, stjaka með snúnu kerti og fleira. Í hillu er lítil hauskúpa sem virðist vera úr nagdýri. Bækur, merkta krús eða bolla, vekjaraklukku og ýmislegt fleira áhugavert má líka sjá á þessari mynd.   Ég byrjaði á að lesa það sem ég gat auðveldlega fundið um P...

Með hausinn í sandinum?

Húsið hans Jespers í Florida. Það var auglýst til sölu á 10,7 milljónir dollara Eldsnemma í morgun, eiginlega í nótt, las ég grein í DN eftir sjónvarpsmanninn Janne Josefsson. Það er þessi sem gerir þættina Uppdrag granskning , en hann er reyndar hættur og kominn á eftirlaun, samt greinilega ekki alveg hættur á fjölmiðlum. Janne er að velta því fyrir sér sem margir ræða þessa dagana, hvort það hafi verið rétt að stöðva rantið í Donald Trump á samfélagsmiðlum. Ég held að það hafi verið fínt að gera það og mér finnst ekkert sjálfsagt að hann hafi yfirleitt fengið að ausa skítnum úr sér þarna. Ég fylgdi ekki Trump á Twitter, hef meira að segja lengi verið með nafnið hans á bannorðalista svo innlegg þar sem hann kemur fyrir hafa ekki sést mikið á mínum vegg. Á einhverju stigi málsins bara nennti ég ekki að vera sífellt að sjá innlegg þessa mannkertis og umræður um þau. Þannig er nefnilega hægt að umgangast samfélagsmiðla, velja sér einfaldlega vini og hverjum maður fylgir. Þess vegna finn...

Svalir og ósvalari höfundar

Ég sakna Lesbókar Morgunblaðsins. Þegar hún fylgdi blaðinu var ég helgaráskrifandi og las greinar á íslensku um menningu og bókmenntir með morgunkaffinu á laugardögum. Núna les ég greinar um bókmenntir og menningu á ensku eða norðurlandamálunum af skjá. Það er ekki eins gaman. Ég man til dæmis eftir að hafa lesið eitthvað um Thomas Pynchon í Lesbókinni. Ég hef aldrei lesið bók eftir þann mann og það er ósennilegt að ég geri það nokkurn tíma. Ég held að bækurnar hans séu mér ekki að skapi. Mér finnst þessi Pynchon samt forvitnileg týpa, eins og ég held að flestum þyki. Um hann hefur skapast heilmikið költ, eiginlega heill heimur , en höfundurinn fer aldrei í viðtöl og vill ekki láta taka af sér myndir. Ég hef blendnar tilfinningar til höfunda sem eru svona rosalega mannafælnir, mér finnst þetta stælar og yfirlæti, en um leið finnst mér höfundar sem eru út um allt að plögga sjálfa sig líka svolítið ósvalir. Hér er grein sem ég las í morgun um Pynchon , hún er mjög skemmtileg.  Það se...

Táin á Tollundmanninum

Í Silkeborg á Jótlandi eru varðveittar leifar af manni sem fannst í danskri mýri um miðja síðustu öld. Þegar ég var unglingur fór ég og skoðaði Tollundmanninn og fékk þessa rúmlega tvö þúsund ára gömlu múmíu svolítið á heilann og póstkort af karlinum hékk árum saman uppi á vegg í herbergjum sem ég bjó í. Á þeim árum var ekki til neitt internet og ég fann sáralitla umfjöllun um þennan forvitnilega mann svo póstkortið varð að duga mér í mörg ár. Þegar ég, ásamt góðum meðhöfundi, skrifaði kennslubók fyrir miðstig grunnskóla fyrir nokkrum árum, sá ég til þess að koma Tollundmanninum inn í bókina og ég vona að börnin sem lesa hana og kennarar þeirra kunni að meta það. Þegar ég sé fjallað um Tollundmanninn, og fleira fólk sem hefur fundist í mýrum í Danmörku, verð ég alltaf forvitin og meðal þess sem mér hefur fundist skemmtilegt er frétt sem birtist í dönskum fjölmiðlum fyrir nokkru síðan. Fréttin fjallar um tá sem var á fæti Tollundmannsins en lenti á flækingi. Það hafa ýmis vandamál ko...

Fuglasöngur

Spói ( Numenius phaeopus) Í gær fékk ég póst frá ritstjóra tímarits. Þar var ég beðin um að skrifa pistil um ákveðið efni í tímaritið. Að launum fyrir pistilinn er í boði árs áskrift að tímaritinu. Ég brást vel við erindi ritstjórans, ég hef sjálf verið ritstjóri tímarits og veit að það er ekki hlaupið að því að fá fólk til að skrifa pistla eftir dyntum ritstjóra og ég veit líka að það er erfitt að halda úti tímaritum í örlitlu málsamfélagi. Ég kýs að líta á skrifin sem eins konar samfélagsþjónustu, svona svipað og að Vitabar sinnir ýmsum þörfum samborgaranna (þessi loðna samlíking þyrfti hugsanlega útskýringar við en ég stend ekki í því að útskýra neitt, þetta les hvort sem er enginn). Gallinn við pistlaskrifin er hins vegar sá að ég þarf að skila pistlinum fyrir mánudag. Ég passaði mig á því þegar ég var ritstjóri að biðja fólk um að skila skrifum með löngum fyrirvara, fólk tekur miklu frekar vel í það að gera eitthvað smáræði ef því er sagt að það hafi marga mánuði til að vinna verk...