Fortsätt till huvudinnehåll

Henrik Bjelke, reiðhjól og bækur

Það er langt síðan ég hef gefið mér tíma til að skrifa eitthvað hérna, en núna, á hvítasunnudegi, pinsedag eins og Danir kalla hann, finnst mér einmitt vera rétti tíminn til að opna þessa síðu aftur. Ég sit í lítilli íbúð við götu á Nørrebro sem kennd er við Henrik Bjelke, nafn sem hlýtur að rifjast upp fyrir öllu gömlu fólki sem gekk í barnaskóla á Íslandi á síðustu öld. Þegar ég var í skóla og við lærðum um erfðahyllinguna og Kópavogsfundinn, sem haldinn var í júlí 1662, fór Rúnar kennari með bekkinn í strætó í Kópavog, þar settum við upp impróviseraðan leikþátt um Kópavogssamninginn, þar sem ég var sett í hlutverk Bjelkes. Það fannst mér ekki skemmtilegt. Henrik Bjelke (1615-1683) byggði víst skansinn á Bessastöðum og lét flytja þangað fallbyssur, en ég ætla nú alls ekki að fara að fjölyrða um þennan mann sem Friðrik þriðji gerði að landsstjóra á Íslandi (enda veit ég ósköp lítið um hann). Hér til hliðar er samt mynd af Bjelke.  

 


Eins og allir vita þá eru reiðhjól mikilvægur ferðamáti í Kaupmannahöfn. Ég keypti mér hjól eitt sunnudagskvöldið og hef hjólað þó nokkra kílómetra. Það er svo sem ekkert nýtt að ég hjóli, frá því ég var barn hef ég yfirleitt haft hjól til taks og hjólað margra erinda minna. Það er þægilegt, skemmtilegt, ódýrt, umhverfisvænt og hressandi. Það var ekki fyrr en fyrir fjórum árum, þegar ég var spurð að því af konu sem ég mætti á Túngötu hvort ég hefði tekið upp bíllausan lífsstíl, að ég gerði mér grein fyrir því að það að nota reiðhjól væri lífsstíll. En það er það auðvitað, alveg eins og að það er lífsstíll að skreppa allra sinna erinda á bíl.

Ég skal viðurkenna að ég er ennþá örlítið smeyk í umferð Kaupmannahafnar á hjólinu. Danir eiga það til að vera reiðir við fólk sem er með vingulshátt, hvort sem er við búðarkassa eða í umferðinni, og nú þegar hefur ein kona æpt á mig út um bílglugga þegar ég snerist áttavillt í hringi og var fyrir henni fyrir utan covid-prófstað í Forum á Friðriksbergi. Hjólið sem ég keypti í Kvickly á Nørrebrogade kostaði eins og eitt heilsársdekk undir bílinn sem tilheyrir fjölskyldu minni (það þurfti að kaupa undir hann umgang í byrjun mánaðarins).

Ég er í airbnb-íbúð og að sjálfsögðu er ég búin að kemba bókahillur þessarar litlu vistarveru. Ég byrjaði að lesa Arv og miljö eftir Vigdis Hjorth en kunni ekki að meta hana svo ég hætti og er núna að lesa sjálfshjálparbók um 13 hluti sem fólk sem býr yfir andlegum styrk gerir ekki. Bókin er skárri en ég bjóst við en mér leiðast mörg dæmin sem tekin eru í henni, þau fjalla sennilega flest um skjólstæðinga höfundarins, sem er amerískur þerapisti, Amy Morin. Svo eru reyndar líka margnotuð dæmi um Madonnu, Andy Warhol og fleira heimsfrægt fólk í henni, þau eiga að hvetja lesendur til að hafa trú á sjálfum sér. Ég er samt almennt mjög fylgjandi því að kennt sé með dæmum eins og gömlu miðaldabiskuparnir gerðu. Stundum finnst mér vísinda- og fræðimenn of ragir við að taka raunveruleg dæmi máli sínu til stuðnings.


Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Kveðjubréf látinnar móður (eða sjálfsvíg í gulli slegnu baðherbergi)

Ég hef mjög gaman af sögum um fjölskylduleyndarmál. Allskonar safaríkum og leyndardómsfullum sögum sem Íslendingabók og minningargreinar afhjúpa ekki, því fólki er svo umhugað að leyndarmálin komi ekki upp á yfirborðið. Það er oft ekki fyrr en í þriðju kynslóð, þegar þeir sem málið varðar eru komnir í gröfina, að afkomendur fara að leita sér upplýsinga eða kveikja á perunni, að flettist ofan af sögunum. Svona leyndarmál eru mun algengari en margt fólk heldur, það eru mjög margar manneskjur sem eiga sér dulafulla fortíð, eru narsissísk flögð undir fögru skinni eða hafa eitthvað magnað að dylja. Um síðustu helgi skemmti ég mér yfir svakalegri fjölskyldusögu í sex þáttum sem er á vef Danmarks radio og er vinsælasta hlaðvarpssería Dana um þessar mundir. Þættirnir heita Mors afskedsbrev . Adrian Lloyd Hughes er tæplega sextugur, vel þekktur og snobbaður, danskur fjölmiðlamaður sem gerði þetta vinsæla hlaðvarp. Þar fjallar hann um mömmu sína, Jette Dreyer Hughes, og hennar fjölskyldu og það

Karl skrifar bók - kona les bók

Nú er ég búin að lesa aðra bókina sem ég hef keypt hérna í Kaupmannahöfn. Það er bókin Store Kongensgade 23 eftir Søren Ulrik Thomsen (f.1956). Ég held að mér sé óhætt að segja að Søren Ulrik sé eitt þekktasta ljóðskáld Dana. Hann byrjaði sem módernisti en hefur seinni árin verið að færa sig yfir í alþýðlegri kveðskap (þetta las ég einhvers staðar og sel ekki dýrar en ég keypti, ekki ætla ég að þykjast vera vel lesin eða búin að ígrunda ljóð hans). Litla bókin ( et essay , kallar hann hana), sem ber nafn heimilisfangs þar sem hann bjó í eitt ár þegar hann flutti með fjölskyldunni til Kaupmannahafnar utan af landi 17 ára ga mall, er eins konar endurminningabók. Hún fjallar um mótunarár höfundarins og móður hans sem veiktist á geði þegar hann var ungur. Søren Ulrik Thomsen er níu árum eldri en ég. Það má auðvitað segja að við séum bæði svolítið roskin og með annan fótinn á grafarbakkanum, en mér finnst samt fyndið að hann skrifar svolítið eins og hann sé háaldraður maður. Það er samt ka

Aftur í Höfn

Það er komið haust og ég er aftur sest að í götu Henriks Bjelkes. Ég er ekki stödd í sömu íbúð og þegar ég var hér í vor, við fengum leigða rúmbetri og fallegri íbúð hinum megin við götuna. Ég er búin að skrifa lista yfir næstu verkefni sem liggja fyrir í gula bók. Mér finnst gott að skrifa lista yfir það sem ég þarf að gera, á listann set ég bæði stór og smærri verkefni, svo strika ég verkefnin út jafnóðum og þau eru framkvæmd. Gallinn er samt sá að núna eru bara stórverkefni á listanum, sum eru þess eðlis að þau taka daga eða viku, önnur mánuði og jafnvel ár. Ég ætla að reyna að brjóta einhver verkefnanna upp og endurgera listann til að ég geti strikað eitthvað út á næstunni. Þó að það sé ys og þys rétt fyrir utan hjá mér þá er líka rólegt því að þegar ég er að heiman er rólegra hjá mér en þegar ég er heima. Fólk á reyndar almennt ekki mörg erindi við mig og þegar fólk veit af mér í útlöndum hefur það enn sjaldnar samband en endranær. Og ekki trufla pípin í símanum mig, ég byrja allt

Ertu að reyna að vera fyndin?

Iris Murdoch með kisunni sinni Fyrir mörgum árum, í viðtali um einhverja bók eftir mig, spurði fjölmiðlamaður mig eftirfarandi spurningar: „Ertu að reyna að vera fyndin?“ Ég hef ekki hugmynd um hverju ég svaraði og reyndar var ég löngu búin að gleyma því að ég hefði verið spurð þegar Snæbjörn minnti mig á það einhvern tíma í fyrra, honum fannst þetta fyndin spurning. Í gærkvöldi horfði ég á viðtal við Babben Larsson, sem er sænsk leikkona, grínisti og uppistandskennari við Dramatiska Institutet í Stokkhólmi. Þar var hún spurð hvað væri fyndið og í stuttu máli sagði hún eitthvað á þá leið að oft þætti fólki það fyndið þegar varpað væri ljósi á aðstæður sem það gæti séð sjálft sig í eða kannaðist við, en á einhvern óvæntan hátt eða í óvæntu samhengi.   Gagnrýnandinn John Self skrifaði grein í fyrra, sem birtist á vef BBC, þar sem hann hélt því fram að skáldskapur sem fengi okkur til að hlæja væri í raun oft sá besti og djúpstæðasti. Self var þarna að gagnrýna Booker-verðlaunalistann árið

Menningarsjúkdómar, velferðarsjúkdómar og sjúkdómsgreiningar

  Undanfarið hef ég lesið ýmislegt þar sem sjúkdómar koma við sögu. Í fyrsta lagi nýja sænska bók um konu sem er að veslast upp heima á stofusófanum sínum. Bókin er önnur skáldsaga höfundar, ég skrifaði einu sinni um fyrstu skáldsöguna hennar á Druslubókabloggið, hér er krækja á þá færslu . Fyrrnefnd ný skáldsaga Önnu Ringberg (hún heitir Till minne av Berit Susanne Fredriksson ) var eiginlega hliðarspor því ég er aðallega búin að vera að lesa þrjár aðrar bækur, tvær eftir hugmyndasöguprófessorinn Karin Johannisson, sem dó í fyrra vetur, og greinasafn þar sem hún á líka grein. Þessar bækur fjalla allar meira og minna um geðsjúkdóma, sjúkdómsgreiningar og menningarsjúkdóma. Það er nefnilega ekki þannig að sjúkdómar og sjúkdómsgreiningar séu einhver fasti. Sjúkdómsgreiningar eru mismunandi eftir þjóðfélögum, þær koma og fara og ýmislegt sem var greint sem sjúkdómur fyrir ekki mjög löngu síðan er hætt að vera til sem díagnósunúmer, en síðan hafa margar díagnósur bæst við undanfarin ár. Sv

Höll fótahvíslaranna og dauð blóm

Í Danmörku eru jafn margir fótaaðgerðafræðingar að störfum og sálfræðingar og þerapistar í Frakklandi. Í götunni minni í Kaupmannahöfn er meira að segja stór höll sem merkt er fótahvíslarastéttinni. En ég er reyndar komin til Reykjavíkur og mun ekki sjá þetta hús aftur fyrr en síðsumar þegar ég ætla aftur að koma mér fyrir í götu Henriks og fótaþerapistanna. Í gærkvöldi varð ég mjög sorgmædd. Ég fór út í garð að leita að digitalis, sem heita fingurbjargarblóm á íslensku. Þau hafa vaxið í fimmtán ár í garðinum, alveg síðan ég sáði þeim. Þarna hafa þessar tvíæru jurtir viðhaldið sér í flestum garðshornum, en skelfilega kalt vor með allt of mörgum frostnóttum hefur greinilega drepið allar digitalisplöntrnar. Æ, æ, og ó, ó.

Dylanmennirnir

Bob Dylan er nýorðinn áttræður. Eins og var fyrirsjáanlegt spruttu Dylanmennirnir fram úr öllum hornum og fögnuðu í einkamiðlum og á opinberum vettvangi. Fréttatími RÚV í gær fagnaði líka afmælinu með veglegri umfjöllun og einn menningarblaðamaður sagði í yfirskrift blaðagreinar að afmælinu fögnuðu allir góðir menn. Í morgun minntist vinkona mín á tíu ára gamla sænska grein, sem birtist í tilefni sjötugsafmælis nóbelsverðlaunahafans í nöldurkenndu rími (textinn við Positively 4th street hlýtur að vera eitt magnaðasta nöldur bókmenntasögunnar). Greininn Män som missbrukar Dylan , er eftir Hönnu Fahl og þar fjallar hún um Dylanmennina, en Hanna kveðst hafa hitt margan Dylanmanninn í lífi sínu. Nánasti vinur Hönnu, sagnfræðingurinn og skjalavörðurinn Fredrik Egefur, er Dylanmaður (hann er samt kannski fyrrverandi Dylanmaður núna), en Dylanmenn eru þeir sem vímast gjarna allir upp þegar Dylan berst í tal, þeir geta verið á öllum aldri og með ólíkar pólitískar skoðanir en eiga það sameigin

Þýðing

Fyrir áratugum tók ég námskeið við Háskóla Íslands í hagnýtum skrifum og þýðingum. Lokaverkefni mitt í námskeiðinu var þýðing á upphafsköflum bókar eftir kvenkyns höfund, sem hafði þá verið látin í nokkur ár, en ég hafði lengi haft miklar mætur á þessu skáldi og hef lesið bækur hennar reglulega í gegnum árin. Upp úr 1970 komu út, að ég held, þrjár bækur eftir höfundinn á íslensku. Ein þeirra fékk ekki mjög lofsamlega dóma hjá Jóhanni Hjálmarssyni í Morgunblaðinu, sem er óskiljanlegt því bókin er frábærlega vel skrifuð og áhugaverð og margútgefin í heimalandinu. En ég fékk alla vega góða umsögn um þýðingarverkefnið og ákvað að fara með það til útgefanda og spyrja hvort ekki væri hugmynd að halda áfram að gefa út bækur þessa góða höfundar, ég væri alveg til í að þýða alla bókina. Í minningunni finnst mér útgefandinn hafa hlegið að mér þegar hann sagði að hann hefði engan áhuga á þessari bók. Það var svo sem allt í lagi, ég bara fór heim og gleymdi þessu. Í vetur sendi annar útgefandi mér

Skipulagsmál

Merkilegt hvernig manneskja maður er eða verður. Mér finnst svolítið berangurslegt í þessum fallega bæ sem Stykkishólmur er og í gönguferðum hugsa ég með mér að þarna í brekkuna myndi ég planta nokkrum reynitrjám, fengi ég einhverju ráðið, og þarna sunnan megin við þetta eða hitt húsið færu rifsberjarunnar afar vel. Ég er meira að segja með ákveðnar hugmyndir um hvernig mætti þétta byggðina og gera götumyndir heilsteyptari.  Í gærkvöldi var mér boðið í kvöldverð í Sýslumannshúsinu með áhugakonu um bókmenntir og sögu Stykkishólms og rithöfundi sem einnig er heildsali. Það voru sagðar sögur af lifandi og látnum persónum, bæði raunverulegum og skálduðum, sem er einmitt eitt áhugamál mitt (ásamt trjárækt og þéttingu byggðar). Þetta var mjög gott boð. Í morgun þegar ég kom niður í hótelsetustofuna var einhver búinn að búa til kaffi sem stóð sjóðheitt í Moccamaster-könnunni. Hér hefur sem sé verið lifandi vera í dag, svipir fortíðar hella ekki upp á.