Fortsätt till huvudinnehåll

Henrik Bjelke, reiðhjól og bækur

Það er langt síðan ég hef gefið mér tíma til að skrifa eitthvað hérna, en núna, á hvítasunnudegi, pinsedag eins og Danir kalla hann, finnst mér einmitt vera rétti tíminn til að opna þessa síðu aftur. Ég sit í lítilli íbúð við götu á Nørrebro sem kennd er við Henrik Bjelke, nafn sem hlýtur að rifjast upp fyrir öllu gömlu fólki sem gekk í barnaskóla á Íslandi á síðustu öld. Þegar ég var í skóla og við lærðum um erfðahyllinguna og Kópavogsfundinn, sem haldinn var í júlí 1662, fór Rúnar kennari með bekkinn í strætó í Kópavog, þar settum við upp impróviseraðan leikþátt um Kópavogssamninginn, þar sem ég var sett í hlutverk Bjelkes. Það fannst mér ekki skemmtilegt. Henrik Bjelke (1615-1683) byggði víst skansinn á Bessastöðum og lét flytja þangað fallbyssur, en ég ætla nú alls ekki að fara að fjölyrða um þennan mann sem Friðrik þriðji gerði að landsstjóra á Íslandi (enda veit ég ósköp lítið um hann). Hér til hliðar er samt mynd af Bjelke.  

 


Eins og allir vita þá eru reiðhjól mikilvægur ferðamáti í Kaupmannahöfn. Ég keypti mér hjól eitt sunnudagskvöldið og hef hjólað þó nokkra kílómetra. Það er svo sem ekkert nýtt að ég hjóli, frá því ég var barn hef ég yfirleitt haft hjól til taks og hjólað margra erinda minna. Það er þægilegt, skemmtilegt, ódýrt, umhverfisvænt og hressandi. Það var ekki fyrr en fyrir fjórum árum, þegar ég var spurð að því af konu sem ég mætti á Túngötu hvort ég hefði tekið upp bíllausan lífsstíl, að ég gerði mér grein fyrir því að það að nota reiðhjól væri lífsstíll. En það er það auðvitað, alveg eins og að það er lífsstíll að skreppa allra sinna erinda á bíl.

Ég skal viðurkenna að ég er ennþá örlítið smeyk í umferð Kaupmannahafnar á hjólinu. Danir eiga það til að vera reiðir við fólk sem er með vingulshátt, hvort sem er við búðarkassa eða í umferðinni, og nú þegar hefur ein kona æpt á mig út um bílglugga þegar ég snerist áttavillt í hringi og var fyrir henni fyrir utan covid-prófstað í Forum á Friðriksbergi. Hjólið sem ég keypti í Kvickly á Nørrebrogade kostaði eins og eitt heilsársdekk undir bílinn sem tilheyrir fjölskyldu minni (það þurfti að kaupa undir hann umgang í byrjun mánaðarins).

Ég er í airbnb-íbúð og að sjálfsögðu er ég búin að kemba bókahillur þessarar litlu vistarveru. Ég byrjaði að lesa Arv og miljö eftir Vigdis Hjorth en kunni ekki að meta hana svo ég hætti og er núna að lesa sjálfshjálparbók um 13 hluti sem fólk sem býr yfir andlegum styrk gerir ekki. Bókin er skárri en ég bjóst við en mér leiðast mörg dæmin sem tekin eru í henni, þau fjalla sennilega flest um skjólstæðinga höfundarins, sem er amerískur þerapisti, Amy Morin. Svo eru reyndar líka margnotuð dæmi um Madonnu, Andy Warhol og fleira heimsfrægt fólk í henni, þau eiga að hvetja lesendur til að hafa trú á sjálfum sér. Ég er samt almennt mjög fylgjandi því að kennt sé með dæmum eins og gömlu miðaldabiskuparnir gerðu. Stundum finnst mér vísinda- og fræðimenn of ragir við að taka raunveruleg dæmi máli sínu til stuðnings.


Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Óþolandi karlmaður

Um daginn skrifaði sænskur blaðamaður og rithöfundur tvær greinar í dagblaðið Expressen um hvað það hefur reynst honum erfitt í lífinu að fólki líkar ekki við hann. Maðurinn heitir Jens Liljestrand og hafi hann þótt ósympatískur allt sitt líf þá er því að minnsta kosti lokið núna því tvær greinar um eigin vanlíðan vegna þess hvað maður er óvinsæll hafa pottþétt breytt þessu. Það er löngu búið að rannsaka það að opinská viðtöl og játningar gera fólk vinsælt, sérstaklega ef fólkið er karlmenn. Þá eru þeir búnir að opna sig og sýna einlægni og eru þar með skilgreindir sem krútt. En sem sagt, Jens Liljestrand áttaði sig snemma á því að hann væri óvinsæll. Fólki fannst hann með óþægilega nærveru, montinn og ókurteis. Hann hélt að þetta væri eitthvað spes og sérstakt í eigin fari, en eftir að hann skrifaði greinarnar tvær þá lét fullt af fólki í sér heyra og lýsti samskonar upplifunum. Svo hafði blaðakona DN líka samband við Jens, hún las greinarnar hans og tók við hann viðtal. Talandi um ke...

Haustið og froskarnir

Það er næstum liðið ár síðan ég skrifaði síðast á þessa síðu. Á því ári hefur margt gerst. Ég ætla ekki að ræða það neitt frekar hér, datt bara í hug að gera það að haustheiti að endurlífga bloggsíðuna og því þurfti ég að prófa hvort ég kæmist enn hér inn. Það er ýmislegt á döfinni eins og gengur á haustin. Hvað mig varðar snýr það að bókum og fjölmiðlaverkefnum, en nýjasta trendið í örvandi efnum ku hins vegar vera að reykja froska. Það finnst mér vissulega undarlegt áhugamál.  Í Dagens Nyheter í dag er sagt frá því að fólk sem fékk ADHD-greiningu sem börn sé nú að fara í aðra greiningu sem losar það við ADHD-díagnósuna. Kannski er því batnað eða að það var ranggreint með ADHD. Þetta gerir fólk m.a. vegna þess að greiningin hamlar því, t.d. getur það aftrað því að það komist í lögreglunám. Með mér blundar umtalsverður áhugi á menningarbundnum sjúkdómsgreiningum (það kom til dæmis fram hér ), en í þetta skiptið er ég ekki sérstaklega að spá í ADHD-greiningar, heldur er ég að hugsa ...

Baráttudagur kvenna

  Starfandi framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, Mari Pangestu, segir í viðtali við DN að í coronafaraldrinum beri konur þyngsta krossinn. Hún vill kalla þetta alþjóðlega kvennakreppu, að covid-19 hafi breikkað bilið á milli kynjanna og rifið upp gamla mismunun. Kvennastéttir hafa orðið verst úti og konur hugsa mest um börnin sem sum hafa ekki hafa fengið að fara í skólann í lengri tíma. Meðan ég las viðtalið við hana, sem fjallar um konur um allan heim, rifjuðust upp fréttir sem ég hef lesið um að ekki sé hugað að jafnrétti í ákvörðunum á Íslandi, til dæmis er ein nýleg hérna um karllægar aðgerðir stjórnvalda . Í dag verður kynnt kæra níu íslenskra kvenna til Mannréttindadómstóls Evrópu . Konurnar kæra íslenska ríkið fyrir að fella niður mál þeirra. Þær höfðu kært kynferðisof­beldi, heim­il­isof­beldi eða kyn­bundna áreitni en mál þeirra voru felld niður í íslensku réttarkerfi. Ofbeldi í garð kvenna er kerfisbundið. Til hamingju með baráttudag kvenna!

Hraði hins talaða máls

Ef ég héldi mína persónulegu kvikmyndahátíð þá yrði hún gamaldags og full af myndum sem ég sá sem krakki og nokkrum sem ég sá á kvikmyndahátíð þegar ég var í menntaskóla. Mögulega veldi ég einhverja eftir Fassbinder og þessa um kvöldverðarboðið hjá borgarastéttinni eftir Luis Buñuel, Midnight Cowboy yrði líka sýnd og sömuleiðis 3 Women eftir Robert Altman. Psycho væri einhvers staðar á dagskránni, Fílamaðurinn , Nosferatu , Fanny og Alexander, Crossing Delancey, Frankie og Johnny  og kannski Romancing the Stone eða Smokey and the Bandit . Íslenska bíómyndin yrði mögulega Fíaskó , hana sá ég reyndar bara í fyrsta skipti um daginn, en mér fannst hún mjög skemmtileg. Þetta yrði augljóslega mjög illa sótt kvikmyndahátíð og teldist til lítilla tíðinda.  Þetta fór ég nú bara að hugsa um í morgun þegar ég las um norska rannsókn sem sýnir að talhraði fólks hefur aukist um 50 % síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Mér finnst nefnilega allt gerast allt of hratt í nýjum bíómyndum, ég á ...

Svalir og ósvalari höfundar

Ég sakna Lesbókar Morgunblaðsins. Þegar hún fylgdi blaðinu var ég helgaráskrifandi og las greinar á íslensku um menningu og bókmenntir með morgunkaffinu á laugardögum. Núna les ég greinar um bókmenntir og menningu á ensku eða norðurlandamálunum af skjá. Það er ekki eins gaman. Ég man til dæmis eftir að hafa lesið eitthvað um Thomas Pynchon í Lesbókinni. Ég hef aldrei lesið bók eftir þann mann og það er ósennilegt að ég geri það nokkurn tíma. Ég held að bækurnar hans séu mér ekki að skapi. Mér finnst þessi Pynchon samt forvitnileg týpa, eins og ég held að flestum þyki. Um hann hefur skapast heilmikið költ, eiginlega heill heimur , en höfundurinn fer aldrei í viðtöl og vill ekki láta taka af sér myndir. Ég hef blendnar tilfinningar til höfunda sem eru svona rosalega mannafælnir, mér finnst þetta stælar og yfirlæti, en um leið finnst mér höfundar sem eru út um allt að plögga sjálfa sig líka svolítið ósvalir. Hér er grein sem ég las í morgun um Pynchon , hún er mjög skemmtileg.  Það se...

Fuglasöngur

Spói ( Numenius phaeopus) Í gær fékk ég póst frá ritstjóra tímarits. Þar var ég beðin um að skrifa pistil um ákveðið efni í tímaritið. Að launum fyrir pistilinn er í boði árs áskrift að tímaritinu. Ég brást vel við erindi ritstjórans, ég hef sjálf verið ritstjóri tímarits og veit að það er ekki hlaupið að því að fá fólk til að skrifa pistla eftir dyntum ritstjóra og ég veit líka að það er erfitt að halda úti tímaritum í örlitlu málsamfélagi. Ég kýs að líta á skrifin sem eins konar samfélagsþjónustu, svona svipað og að Vitabar sinnir ýmsum þörfum samborgaranna (þessi loðna samlíking þyrfti hugsanlega útskýringar við en ég stend ekki í því að útskýra neitt, þetta les hvort sem er enginn). Gallinn við pistlaskrifin er hins vegar sá að ég þarf að skila pistlinum fyrir mánudag. Ég passaði mig á því þegar ég var ritstjóri að biðja fólk um að skila skrifum með löngum fyrirvara, fólk tekur miklu frekar vel í það að gera eitthvað smáræði ef því er sagt að það hafi marga mánuði til að vinna verk...

Reynsluheimar lesenda

  Í gær hélt ég útgáfuboð í lokaðri bókabúð sem hafði orðið fyrir tölvuárás og verið skellt í lás. Það mættu samt margir og ég gat farið glöð að sofa í gærkvöldi. Í boðinu var ég spurð hvort ég væri ekki komin í frí. Það fannst mér skemmtilegt því að þó að mér finnist ég eiginlega ekki beinlínis vera í vinnu þá finnst mér ég aldrei eiga frí. Vegna þessarar spurningar ákvað ég samt að taka mér frí í dag frá því að skrifa útvarpsþátta- og sjónvarpsþáttahandrit, sem eru helstu verkefni mín þessa dagana. Ég get ekki afsakað mig með því að þykjast vera upptekin við kynningar á nýjum bókum mínum, þýðingu og smásagnasafni, ég er bókuð á tvo upplestra og alls ekki neitt annað. Þetta er aldeilis eitthvað annað en Eiríkur Örn Norðdahl sem þýtur umhverfis landið með posa og bókakassa og kynnir og selur nýju bókina sína og segist vera til í að mæta í viðtöl í næstu viku. Ég er auðvitað bara miklu latari en Eiríkur og svo er mér svakalega illa við að aka eftir þjóðvegum Íslands að vetrarlagi....

Prófessor í hamingju

Við Handelshögskolan í Stokkhólmi er búið að stofna Center for wellbeing, wellfare and happiness , sem á að verða fjölþjóðlegt þekkingarsetur um hamingju og vellíðan. Það er líka búið að ráða prófessor við þetta setur, hann heitir Micael Dahlén og var áður prófessor við sama skóla í markaðsfræði og neytendahegðun. Micael Dahlén hef ég oft séð í sjónvapsviðtölum, hann er skemmtilegur og mjög töff prófessor, svo töff að hann er með húðflúr á puttunum, það er auðvitað bara ofursvalt fólk sem er með svoleiðis. Micael Dahlén er fæddur 1973 og varð prófessor 34 ára, yngstur Svía. Hann er líka svo töff að hann gerir æfingavídeó fyrir fólk og hefur skrifað bók um líkamsrækt, hann fjuff-tränar, eins og hann kallar það, sem þýðir að hann æfir lítið og oft.  Í morgun las ég viðtal við Micael Dahlén sem er tekið í tilefni af nýja prófessorsstarfinu (sem ég öfunda hann smá af, hversu mikið væri ég ekki til í að vera hálaunaður prófessor í hamingjufræðum einmitt núna þegar listamannalaunatímabi...

Að gubba af stressi

Jólabókaflóðið er brostið á. Ég kíkti í Eymundsson á Skólavörðustíg í gær og sá að það er hellingur af nýjum bókum, þýddum og sömdum á íslensku, á borðunum, flestar þeirra hef ég ekki heyrt minnst á. Kannski fá margar þeirra enga umfjöllun í fjölmiðlum, nema kannski í einkafjölmiðlum höfundanna og þýðendanna, samfélagsmiðlunum. Það eru þó, sem betur fer, alltaf einhverjar bækur sem fá alvöru fjölmiðlaumfjöllun. Í Morgunblaðinu um daginn birtist gagnrýni um nýja bók þar sem þessi setning kemur fyrir: Bókin er flókin að því leyti að gagnrýnandi skilur ekki hvert hún er að fara . Gagnrýnandinn sem skrifar þetta gefur svo bókinni þrjár og hálfa stjörnu.  Í vikunni var pistill í sænska blaðinu Expressen eftir Lyru Ekström Lindbäck, sem er rithöfundur, blaðakona og doktor í heimspeki, þar sem því er haldið fram að bókmenntirnar þoli ekki lengur gagnrýni og að fólk þoli ekki að lesa eða hlusta á alvöru gagnrýni um bækur. Greinin er örugglega svar við því að nýlega ákvað ritstjórn Aftonbl...

Sænskir bókmenntafantar?

Ég les stundum umræður á sænsku síðunni Flashback forum . Þar eru þúsundir spjallþráða um allt mögulegt og sumir ná áratugi aftur í tímann. Margt er verulega fróðlegt þarna fyrir forvitnar sálir og þar sem hægt er að koma ekki fram undir nafni er ýmislegt slúðrað og rætt um, allt frá dægurþrasi til margra áratuga gamalla óleystra morðmála. Það hefur komið fyrir að mig hafi grunað að aðilar ýmissra mála séu að koma fram á spjallinu undir dulnefni og einnig fjölmiðlafólk sem hikar við að birta undir nafni eitthvað vafasamt sem gæti þó þótt fréttnæmt. Fyrir stuttu síðan las ég á spjallþræði á Flashback að hinn metnaðarfulli sænski fréttaskýringaþáttur Uppdrag granskning hefði á síðustu stundu hætt við að sýna þriggja þátta röð þar sem sænski bókmenntaheimurinn er til umræðu. Eins og mörg vita kannski er Uppdrag granskning þáttur sem alltaf vekur athygli, til dæmis áttu umsjónarmenn hans þátt í því að fletta ofan af þáverandi forsætisráðherra Íslands, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þegar ...