Það er langt síðan ég hef gefið mér tíma til að skrifa eitthvað hérna, en núna, á hvítasunnudegi, pinsedag eins og Danir kalla hann, finnst mér einmitt vera rétti tíminn til að opna þessa síðu aftur. Ég sit í lítilli íbúð við götu á Nørrebro sem kennd er við Henrik Bjelke, nafn sem hlýtur að rifjast upp fyrir öllu gömlu fólki sem gekk í barnaskóla á Íslandi á síðustu öld. Þegar ég var í skóla og við lærðum um erfðahyllinguna og Kópavogsfundinn, sem haldinn var í júlí 1662, fór Rúnar kennari með bekkinn í strætó í Kópavog, þar settum við upp impróviseraðan leikþátt um Kópavogssamninginn, þar sem ég var sett í hlutverk Bjelkes. Það fannst mér ekki skemmtilegt. Henrik Bjelke (1615-1683) byggði víst skansinn á Bessastöðum og lét flytja þangað fallbyssur, en ég ætla nú alls ekki að fara að fjölyrða um þennan mann sem Friðrik þriðji gerði að landsstjóra á Íslandi (enda veit ég ósköp lítið um hann). Hér til hliðar er samt mynd af Bjelke.
Eins og allir vita þá eru reiðhjól mikilvægur ferðamáti í Kaupmannahöfn. Ég keypti mér hjól eitt sunnudagskvöldið og hef hjólað þó nokkra kílómetra. Það er svo sem ekkert nýtt að ég hjóli, frá því ég var barn hef ég yfirleitt haft hjól til taks og hjólað margra erinda minna. Það er þægilegt, skemmtilegt, ódýrt, umhverfisvænt og hressandi. Það var ekki fyrr en fyrir fjórum árum, þegar ég var spurð að því af konu sem ég mætti á Túngötu hvort ég hefði tekið upp bíllausan lífsstíl, að ég gerði mér grein fyrir því að það að nota reiðhjól væri lífsstíll. En það er það auðvitað, alveg eins og að það er lífsstíll að skreppa allra sinna erinda á bíl.
Eins og allir vita þá eru reiðhjól mikilvægur ferðamáti í Kaupmannahöfn. Ég keypti mér hjól eitt sunnudagskvöldið og hef hjólað þó nokkra kílómetra. Það er svo sem ekkert nýtt að ég hjóli, frá því ég var barn hef ég yfirleitt haft hjól til taks og hjólað margra erinda minna. Það er þægilegt, skemmtilegt, ódýrt, umhverfisvænt og hressandi. Það var ekki fyrr en fyrir fjórum árum, þegar ég var spurð að því af konu sem ég mætti á Túngötu hvort ég hefði tekið upp bíllausan lífsstíl, að ég gerði mér grein fyrir því að það að nota reiðhjól væri lífsstíll. En það er það auðvitað, alveg eins og að það er lífsstíll að skreppa allra sinna erinda á bíl.
Ég skal viðurkenna að ég er ennþá örlítið smeyk í umferð Kaupmannahafnar á hjólinu. Danir eiga það til að vera reiðir við fólk sem er með vingulshátt, hvort sem er við búðarkassa eða í umferðinni, og nú þegar hefur ein kona æpt á mig út um bílglugga þegar ég snerist áttavillt í hringi og var fyrir henni fyrir utan covid-prófstað í Forum á Friðriksbergi. Hjólið sem ég keypti í Kvickly á Nørrebrogade kostaði eins og eitt heilsársdekk undir bílinn sem tilheyrir fjölskyldu minni (það þurfti að kaupa undir hann umgang í byrjun mánaðarins).
Ég er í airbnb-íbúð og að sjálfsögðu er ég búin að kemba bókahillur þessarar litlu vistarveru. Ég byrjaði að lesa Arv og miljö eftir Vigdis Hjorth en kunni ekki að meta hana svo ég hætti og er núna að lesa sjálfshjálparbók um 13 hluti sem fólk sem býr yfir andlegum styrk gerir ekki. Bókin er skárri en ég bjóst við en mér leiðast mörg dæmin sem tekin eru í henni, þau fjalla sennilega flest um skjólstæðinga höfundarins, sem er amerískur þerapisti, Amy Morin. Svo eru reyndar líka margnotuð dæmi um Madonnu, Andy Warhol og fleira heimsfrægt fólk í henni, þau eiga að hvetja lesendur til að hafa trú á sjálfum sér. Ég er samt almennt mjög fylgjandi því að kennt sé með dæmum eins og gömlu miðaldabiskuparnir gerðu. Stundum finnst mér vísinda- og fræðimenn of ragir við að taka raunveruleg dæmi máli sínu til stuðnings.
Kommentarer
Skicka en kommentar