Fortsätt till huvudinnehåll

Henrik Bjelke, reiðhjól og bækur

Það er langt síðan ég hef gefið mér tíma til að skrifa eitthvað hérna, en núna, á hvítasunnudegi, pinsedag eins og Danir kalla hann, finnst mér einmitt vera rétti tíminn til að opna þessa síðu aftur. Ég sit í lítilli íbúð við götu á Nørrebro sem kennd er við Henrik Bjelke, nafn sem hlýtur að rifjast upp fyrir öllu gömlu fólki sem gekk í barnaskóla á Íslandi á síðustu öld. Þegar ég var í skóla og við lærðum um erfðahyllinguna og Kópavogsfundinn, sem haldinn var í júlí 1662, fór Rúnar kennari með bekkinn í strætó í Kópavog, þar settum við upp impróviseraðan leikþátt um Kópavogssamninginn, þar sem ég var sett í hlutverk Bjelkes. Það fannst mér ekki skemmtilegt. Henrik Bjelke (1615-1683) byggði víst skansinn á Bessastöðum og lét flytja þangað fallbyssur, en ég ætla nú alls ekki að fara að fjölyrða um þennan mann sem Friðrik þriðji gerði að landsstjóra á Íslandi (enda veit ég ósköp lítið um hann). Hér til hliðar er samt mynd af Bjelke.  

 


Eins og allir vita þá eru reiðhjól mikilvægur ferðamáti í Kaupmannahöfn. Ég keypti mér hjól eitt sunnudagskvöldið og hef hjólað þó nokkra kílómetra. Það er svo sem ekkert nýtt að ég hjóli, frá því ég var barn hef ég yfirleitt haft hjól til taks og hjólað margra erinda minna. Það er þægilegt, skemmtilegt, ódýrt, umhverfisvænt og hressandi. Það var ekki fyrr en fyrir fjórum árum, þegar ég var spurð að því af konu sem ég mætti á Túngötu hvort ég hefði tekið upp bíllausan lífsstíl, að ég gerði mér grein fyrir því að það að nota reiðhjól væri lífsstíll. En það er það auðvitað, alveg eins og að það er lífsstíll að skreppa allra sinna erinda á bíl.

Ég skal viðurkenna að ég er ennþá örlítið smeyk í umferð Kaupmannahafnar á hjólinu. Danir eiga það til að vera reiðir við fólk sem er með vingulshátt, hvort sem er við búðarkassa eða í umferðinni, og nú þegar hefur ein kona æpt á mig út um bílglugga þegar ég snerist áttavillt í hringi og var fyrir henni fyrir utan covid-prófstað í Forum á Friðriksbergi. Hjólið sem ég keypti í Kvickly á Nørrebrogade kostaði eins og eitt heilsársdekk undir bílinn sem tilheyrir fjölskyldu minni (það þurfti að kaupa undir hann umgang í byrjun mánaðarins).

Ég er í airbnb-íbúð og að sjálfsögðu er ég búin að kemba bókahillur þessarar litlu vistarveru. Ég byrjaði að lesa Arv og miljö eftir Vigdis Hjorth en kunni ekki að meta hana svo ég hætti og er núna að lesa sjálfshjálparbók um 13 hluti sem fólk sem býr yfir andlegum styrk gerir ekki. Bókin er skárri en ég bjóst við en mér leiðast mörg dæmin sem tekin eru í henni, þau fjalla sennilega flest um skjólstæðinga höfundarins, sem er amerískur þerapisti, Amy Morin. Svo eru reyndar líka margnotuð dæmi um Madonnu, Andy Warhol og fleira heimsfrægt fólk í henni, þau eiga að hvetja lesendur til að hafa trú á sjálfum sér. Ég er samt almennt mjög fylgjandi því að kennt sé með dæmum eins og gömlu miðaldabiskuparnir gerðu. Stundum finnst mér vísinda- og fræðimenn of ragir við að taka raunveruleg dæmi máli sínu til stuðnings.


Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Hraði hins talaða máls

Ef ég héldi mína persónulegu kvikmyndahátíð þá yrði hún gamaldags og full af myndum sem ég sá sem krakki og nokkrum sem ég sá á kvikmyndahátíð þegar ég var í menntaskóla. Mögulega veldi ég einhverja eftir Fassbinder og þessa um kvöldverðarboðið hjá borgarastéttinni eftir Luis Buñuel, Midnight Cowboy yrði líka sýnd og sömuleiðis 3 Women eftir Robert Altman. Psycho væri einhvers staðar á dagskránni, Fílamaðurinn , Nosferatu , Fanny og Alexander, Crossing Delancey, Frankie og Johnny  og kannski Romancing the Stone eða Smokey and the Bandit . Íslenska bíómyndin yrði mögulega Fíaskó , hana sá ég reyndar bara í fyrsta skipti um daginn, en mér fannst hún mjög skemmtileg. Þetta yrði augljóslega mjög illa sótt kvikmyndahátíð og teldist til lítilla tíðinda.  Þetta fór ég nú bara að hugsa um í morgun þegar ég las um norska rannsókn sem sýnir að talhraði fólks hefur aukist um 50 % síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Mér finnst nefnilega allt gerast allt of hratt í nýjum bíómyndum, ég á ...

Ertu að reyna að vera fyndin?

Iris Murdoch með kisunni sinni Fyrir mörgum árum, í viðtali um einhverja bók eftir mig, spurði fjölmiðlamaður mig eftirfarandi spurningar: „Ertu að reyna að vera fyndin?“ Ég hef ekki hugmynd um hverju ég svaraði og reyndar var ég löngu búin að gleyma því að ég hefði verið spurð þegar Snæbjörn minnti mig á það einhvern tíma í fyrra, honum fannst þetta fyndin spurning. Í gærkvöldi horfði ég á viðtal við Babben Larsson, sem er sænsk leikkona, grínisti og uppistandskennari við Dramatiska Institutet í Stokkhólmi. Þar var hún spurð hvað væri fyndið og í stuttu máli sagði hún eitthvað á þá leið að oft þætti fólki það fyndið þegar varpað væri ljósi á aðstæður sem það gæti séð sjálft sig í eða kannaðist við, en á einhvern óvæntan hátt eða í óvæntu samhengi.   Gagnrýnandinn John Self skrifaði grein í fyrra, sem birtist á vef BBC, þar sem hann hélt því fram að skáldskapur sem fengi okkur til að hlæja væri í raun oft sá besti og djúpstæðasti. Self var þarna að gagnrýna Booker-verðlaunalistann ...

Bækur og tré

Fyrrverandi bókaútgefandi sem er núna rithöfundur segir hér að bækur séu að styttast. Ég veit ekki hvort það sé rétt en sumar þykkar bækur eru samt farnar að fara í taugarnar á mér. Vissulega las ég alla doðrantana í ritröð Karls Ove Knausgårds, sem fjalla mestmegnis um hann sjálfan (og svo er langt innslag í einni bókinni um Hitler, en ég nennti nú ekki að lesa það allt), en eftir á hugsaði ég með mér að þetta væri auðvitað óþolandi manspreading hjá karlinum, hvers vegna finnst þessum manni hann mega taka svona mikið pláss í hillum og svona langan tíma af lífi okkar? Ein bók þar sem þetta kemur aðeins við sögu er Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson. Sú bók er 118 blaðsíður, sem mér finnst einmitt rétta lengdin. Hún er líka mjög skemmtileg og ég væri til í að sjá bíómynd eftir henni. Það gerist raunar ekki mikið í bókinni, þarna er einhver maður sem býr í hjólhýsi og málar myndir af trjám og veltir ýmsu fyrir sér. Til dæmis því að bækur séu búnar til úr trjám og að það sé óvistvænt og f...

Eitthvað pínulítið um gagnrýni

Stundum les ég eða heyri að þeir sem tjái sig um bókmenntir fái oft yfir sig ægilegar gusur frá óhressum höfundum eða útgefendum. Þetta hef ég aldrei upplifað persónulega þrátt fyrir að hafa skrifað og spjallað um bókmenntir á ýmsum stöðum. Einu sinni skrifaði ég á fjölmiðil (sem nú er dauður) eitthvað í áttina að því að kafli í ákveðinni, þá nýrri, bók hlyti að vera leiðinlegasti kafli gjörvallrar íslenskrar bókmenntasögu, en enginn sendi mér skammarpóst hvað þá kúk í poka. Í mesta lagi hefur einhver hent mér út af facebook-vinalistanum og það er nú bara hressandi. En ég man að höfundur þakkaði mér einu sinni persónulega fyrir skrif um bók eftir sig. Það gerðist í gamla Blómavali við Sigtún. Viðkomandi höfundur, sem er nýbúinn að gefa út ljóðabók, skrifar á þessa síðu . Ég tek það samt fram að ég hef aldrei þurft að gefa bókum stjörnur. Þegar ég skrifaði gagnrýni fyrir Morgunblaðið, það var sennilega fyrir áratug, var stjörnugjöf ekki enn orðin regla. Fyrir nokkrum árum hætti Páll B...

Kynlíf langömmu þinnar

Í Politiken er greinarflokkur þar sem starfsfólk safna er spurt um áhugaverða gripi á söfnunum sínum. Í dag var ég að lesa um græju sem var víst til á langflestum dönskum heimilum á fyrri hluta síðustu aldar og var að sögn safnvarðar á dönsku safni notuð sem getnaðarvörn í áratugi. Tækið var notað til að skola út sæði eftir samfarir, en einnig til skolunar eftir fæðingar og ólögleg þungunarrof. Ílátið var fyllt af vatni og hengt hátt upp og svo var spúlað út með hjálp þrýstings og vatns. Þetta tæki mun hafa verið algengt frá 1920 til 1950, en var einnig töluvert notað eftir það því pillan kom jú ekki á markaðinn fyrr en á sjöunda áratugnum. Ýmist var notað hreint vatn eða að út í það var blandað ediki eða sítrónusafa, en það mun ekki hafa verið hollt fyrir líkamann, sýrustigið gat farið í tómt rugl. Svo er þetta ekki sérlega góð getnaðarvörn heldur, en sennilega betra en ekki neitt.  Safnvörðurinn sem er til viðtals í Politiken segir að þessi græja hafi verið gríðarlega mikið notuð...

Að gubba af stressi

Jólabókaflóðið er brostið á. Ég kíkti í Eymundsson á Skólavörðustíg í gær og sá að það er hellingur af nýjum bókum, þýddum og sömdum á íslensku, á borðunum, flestar þeirra hef ég ekki heyrt minnst á. Kannski fá margar þeirra enga umfjöllun í fjölmiðlum, nema kannski í einkafjölmiðlum höfundanna og þýðendanna, samfélagsmiðlunum. Það eru þó, sem betur fer, alltaf einhverjar bækur sem fá alvöru fjölmiðlaumfjöllun. Í Morgunblaðinu um daginn birtist gagnrýni um nýja bók þar sem þessi setning kemur fyrir: Bókin er flókin að því leyti að gagnrýnandi skilur ekki hvert hún er að fara . Gagnrýnandinn sem skrifar þetta gefur svo bókinni þrjár og hálfa stjörnu.  Í vikunni var pistill í sænska blaðinu Expressen eftir Lyru Ekström Lindbäck, sem er rithöfundur, blaðakona og doktor í heimspeki, þar sem því er haldið fram að bókmenntirnar þoli ekki lengur gagnrýni og að fólk þoli ekki að lesa eða hlusta á alvöru gagnrýni um bækur. Greinin er örugglega svar við því að nýlega ákvað ritstjórn Aftonbl...

Maður og hauskúpa

Um daginn keypti ég ljósmynd á nytjamarkaði. Mér fannst augljóst að hún væri mjög gömul og mér fannst hún ólík þeim gömlu myndum sem ég hef skoðað á vefsíðum safna undanfarin ár, og eru þær þó býsna margar. Myndin er nokkuð stór, um 18x23 cm. og í fallegum, greinilega býsna gömlum tréramma með gyllingu. Hún er merkt P. Brynjólfssyni, ljósmyndara. Myndin sýnir ungan mann í vönduðum fötum sem situr við borð og reykir pípu. Hann hrærir í kaffibolla. Á borðinu er pottaplanta (pálmi, eins og var í tísku upp úr þarsíðustu aldamótum) og nokkrar myndir og á veggjunum eru líka myndir, bæði af fólki sem virðist vera íslenskt alþýðufólk en líka glæsilegar konur og hópmyndir. Á öðru borði má sjá lampa, hauskúpu og sennilega mjaðmagrind, stjaka með snúnu kerti og fleira. Í hillu er lítil hauskúpa sem virðist vera úr nagdýri. Bækur, merkta krús eða bolla, vekjaraklukku og ýmislegt fleira áhugavert má líka sjá á þessari mynd.   Ég byrjaði á að lesa það sem ég gat auðveldlega fundið um P...

Berum höfuðið hátt!

Um daginn var ég að spjalla um borgina Lyon og þá rifjaðist upp fyrir mér að á meðan ég dvaldi þar, fyrir nokkrum árum, hefði ég skrifað eitthvað á þessa bloggsíðu. Hún var alveg horfin úr huga mér, ég mundi ekki einu sinni slóðina. Bloggið tókst mér samt að finna og setja inn eina mynd úr göngu minni til Hafnarfjarðar.   Á meðan ég eldaði hafragrautinn fyrir stundu, og hlustaði á viðtal Sigurlaugar Margrétar við Hönnu Birnu, hugsaði ég með mér að nú væri einmitt rétti tíminn til að byrja aftur að skrifa blogg; nýtt ár, ný áform og breytingar í vændum. Mér fannst Hanna Birna segja margt skemmtilegt og áhugavert. Það kom mér alls ekkert á óvart, við unnum einu sinni saman í Kaupfélagi Hafnfirðinga, mér fannst Hanna Birna skemmtileg þá og yfirleitt er fólk sem er skemmtilegt fimmtán ára líka skemmtilegt þegar það er komið á sextugsaldur. En varðandi mínar breytingarnar þá eru þær töluverðar. Á eftir fer ég og geng frá á skrifborðinu mínu og tæmi skúffurnar því ég ætla að taka m...

Norræn hlaðvörp og íslensk ættfræði

Ekki hef ég mátt vera að því að skrifa mikið hér undanfarið. Trúið mér eða trúið mér ekki en ég hef haft mikið að gera. Um daginn skrapp ég til Svíþjóðar, nánar til tekið til Emmaboda í Smálöndum þar sem var tekið vel á móti mér. Þangað tók ég lest frá Kaupmannahöfn og auðvitað eru lestar langbesti ferðamátinn. Ég var með nesti og bókað sæti og rak stelpu úr sætinu mínu við gluggann. Fékk auðvitað samviskubit (ég er svo vonlaus í að vera frekjubeygla og á svo erfitt með að láta hafa fyrir mér) en ég hef svo oft verið rekin úr bókuðum sætum sem ég hef hlammað mér í í sænskum og dönskum lestum að ég ákvað að taka þetta alla leið. Skandinavíska kerlingaleiðin er að vera jobbig týpa sem kann mun á réttu og röngu og er með prinsipp. Ég þekki mitt fólk og hef ákveðið að svara í sömu mynt.  Undanfarið hef ég vanið mig á að hlusta á podköst áður en ég sofna. Margt fólk segist láta hlaðvarpsþætti svæfa sig svo ég ákvað að prófa. Í fyrstu valdi ég of áhugaverða þætti, ég var oftast svo áhuga...

Ævisögur og fíkniefnastríð

Til að byggja mig upp fyrir ýmis verkefni sem ég er með á minni könnu (ég er að reyna að forðast orðið frestunarárátta) les ég ævisögur. Í gær las ég Þjófur, fíkill, falsari - Sjálfsævisaga síbrotamanns eftir Guðberg Guðmundsson og með morgunkaffinu las ég Sendiherrafrúin segir frá , eftir Hebu Jónsdóttur. Þessar bækur eru báðar um og eftir gallaðar og brothættar manneskjur en mjög áhugaverðar á margan hátt. Þær gjalda þó fyrir það (eins og kannski allar ævisögur) að það er skautað of mikið á yfirborðinu, kannski vegna þess að höfundarnir sjá ekki vel undir yfirborðið eða hugsanlega vegna þess að þau eru ekki fær um að ræða það sem hefði mátt ræða, og auk þess hefðu bækurnar þá orðið allt of langar og ruglingslegar. Þarna kemur líka inn í takmörkun tungumálsins og frásagnarinnar. En þá kemur að lesandanum að túlka og reyna að skilja. Ég tek fyrrnefndu bókina með mér á skrifstofuna á eftir og þar tekur annar lesandi við henni og fljótlega getum við rætt atburði og allan þann aragrúa pe...