Um daginn minntist ég hérna á rithöfundinn Lars Gustafsson og bókina hans um ógeðfellda flísaleggjarann. Þar sem ég á ekki þá bók þá fór ég að lesa endurminningabók eftir LG, bókin heitir Ett minnespalats eða Höll minninganna. Eftir Lars Gustafsson liggja þó nokkrar ljóðabækur og hann valdi líka ljóð í safnrit. Hann segir í endurminningabókinni að honum finnist sænsk ljóðskáld sem hafa náð einhvers konar frama eða vinsældum skiptast í tvo hópa. Annar hópurinn samanstendur af skáldjöfrum, þeir eru óþolandi belgingslegir og tala gjarna illa um verk kollega sinna í skáldastétt, svo tekur hann dæmi um slíka menn og segir sögu af einum sem kallaði ljóðlist annars skálds pissuskálaskáldskap. Svo er hin gerðin af skáldum, það eru menn sem yrkja auk þess að vinna við eitthvað annað, eru svona ljóðaföndrarar og líta á ljóðagerðina eins dund á borð við að sumir smíða líkön úr eldspýtum eða hnýta flugur. Slík skáld verða undrandi þegar þau fá viðurkenningu fyrir ljóðin sín. Þannig var víst Tomas Tranströmer, sem kom fyrir eins og honum fyndist öll athygli óþægileg og framandi. Svo segir Lars Gustafsson sögu af Tranströmer sem starfaði sem fangelsissálfræðingur. Einu sinni, þegar Tranströmer var orðinn frægt og mikils metið skáld, strauk einn fanginn, og skjólstæðingur hans, úr fangelsinu. Hann var týndur í heilan dag en var handtekinn um kvöldið á hóteli. Ástæða þess að upp um hann komst var sú að hann skráði sig inn á hótelið sem T. Tranströmer, sálfræðingur. Hótelstarfsmaðurinn varð strax efins um að þetta væri hið eina og sanna skáld og sálfræðingur og hringdi í lögregluna sem kannaðist við strokufangann. Fanginn varð mjög undrandi yfir að hann kæmist ekki upp með að gefa upp þetta nafn en Tomas Tranströmer varð enn meira undrandi á að einhver maður úti í bæ kannaðist við nafnið hans. (Já og auðvitað er hvergi minnst á konur í þessari umræðu, bara karla). Nú man ég ekki hvers vegna ég var að skrifa þessa sögu. Sennilega hafði ég hugsað mér hana sem inngang að einhverju en ég man ekki hvað það var.
Nýjustu fréttir af Dylanræðunni sem ég minntist á hérna í gær eru þær að Dylan ku hafa stolið einhverju af henni af kennslusíðu um bókmenntir. Það var sem sagt skýring á skólaritgerðartóninum sem blaðakonan, sem fékk yfir sig gusurnar, taldi sig skynja.
Nýjustu fréttir af Dylanræðunni sem ég minntist á hérna í gær eru þær að Dylan ku hafa stolið einhverju af henni af kennslusíðu um bókmenntir. Það var sem sagt skýring á skólaritgerðartóninum sem blaðakonan, sem fékk yfir sig gusurnar, taldi sig skynja.
Kommentarer
Skicka en kommentar