Ég er að svipast um eftir flísum á herbergin í kjallaranum. Eftir ferðir í sérverslanir og byggingavöruverslanir hef ég komist að því að gráar flísar eru í tísku. Grátt er augljóslega tískuliturinn. Ég ætla samt ekki að setja gráar flísar á kjallaragólfin.
Mér finnst ég ekki vinna nóg þessa dagana. Held samt að það geti verið vitleysa hjá vertíðarþrælnum sem býr innra með mér og ákvað að reyna að slaka á áhyggjum af afköstum þegar ég las viðtal við Arundhati Roy í Guardian í fyrradag. Tuttugu ár er samt kannski fulllangur tími á milli skáldverka, að minnsta kosti er lítið upp úr því að hafa fyrir íslenskan örsöluhöfund. Við Hildur erum annars á lokasprettinum með nýja bók um unglinginn Dodda, Pawel vin hans og Huldu Rós. Já, eða reyndar erum við að lesa yfir, breyta og bæta og snurfusa handritið. Og þess má líka geta að bókin hennar Hildar, Vetrarfrí, er nýkomin út á frönsku. Í gær þýddi ég þrjú ljóð eftir sænska konu, þau þarf ég að betrumbæta og hreinskrifa í dag. Ljóðskáld frá Svíþjóð eru á leið til landsins og það verður dagskrá á kaffihúsinu Norðurbakkanum í Hafnarfirði og í Norræna húsinu í næstu viku.
Á morgun fer ég í sveitarferð með leikskólabörnum og annað kvöld ætla ég að hlusta á Karl Ove Knausgård í Hörpu. Ég var að hugsa um að sleppa honum, mér fannst ég búin að sjá og lesa svo mörg viðtöl við hann og svo er ég auðvitað löngu búin að spæna mig í gegnum allar þessar þúsundir síðna í öllum sex bindunum af Min kamp. Þegar ég hugsaði málið snerist mér hugur og keypti miða. Þetta verður örugglega áhugaverð bókmenntauppákoma.
Það er hálfkalt en kræklótta eplatréð blómstrar |
Á morgun fer ég í sveitarferð með leikskólabörnum og annað kvöld ætla ég að hlusta á Karl Ove Knausgård í Hörpu. Ég var að hugsa um að sleppa honum, mér fannst ég búin að sjá og lesa svo mörg viðtöl við hann og svo er ég auðvitað löngu búin að spæna mig í gegnum allar þessar þúsundir síðna í öllum sex bindunum af Min kamp. Þegar ég hugsaði málið snerist mér hugur og keypti miða. Þetta verður örugglega áhugaverð bókmenntauppákoma.
Kommentarer
Skicka en kommentar