Kann ég ennþá að blogga? Erla er byrjuð aftur og mér finnst það svo skemmtilegt að ég ákvað að taka líka upp þráðinn. Mér finnst þessi bloggsíða reyndar ekki sérlega fallega útlítandi, kannski föndra ég eitthvað í henni við tækifæri og fegra hana. Nema ég láti það vera og verði mér úti um alvöru heimasíðu (svoleiðis halda margir rithöfundar úti) og hafi bloggmöguleika á henni, en það er annað mál. Ástæða þess að ég nota þessa síðu, en ekki gamla bloggið mitt sem ég skrifaði á um árabil, er sú að þessi var aðallega ferðablogg. Síðast þegar ég skrifaði á þessa síðu var ég stödd í Lyon í Frakklandi þar sem ég skrifaði Randalín og Mundi í Leynilundi. Sú bók er auðvitað löngu komin út og síðan hef ég skrifað þó nokkrar bækur á ýmsum stöðum. Á morgun legg ég af stað í mánaðarlangt ferðalag og ætlunin er að vinna í tveimur bókum í ferðinni. Önnur er framhald af þessari hérna en hin er ekki framhald af neinu. Ég býst við að bærinn sem ég ætla að dvelja í næstu vikurnar líkist ekki vitund Lyon í Frakklandi.
Starfandi framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, Mari Pangestu, segir í viðtali við DN að í coronafaraldrinum beri konur þyngsta krossinn. Hún vill kalla þetta alþjóðlega kvennakreppu, að covid-19 hafi breikkað bilið á milli kynjanna og rifið upp gamla mismunun. Kvennastéttir hafa orðið verst úti og konur hugsa mest um börnin sem sum hafa ekki hafa fengið að fara í skólann í lengri tíma. Meðan ég las viðtalið við hana, sem fjallar um konur um allan heim, rifjuðust upp fréttir sem ég hef lesið um að ekki sé hugað að jafnrétti í ákvörðunum á Íslandi, til dæmis er ein nýleg hérna um karllægar aðgerðir stjórnvalda . Í dag verður kynnt kæra níu íslenskra kvenna til Mannréttindadómstóls Evrópu . Konurnar kæra íslenska ríkið fyrir að fella niður mál þeirra. Þær höfðu kært kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi eða kynbundna áreitni en mál þeirra voru felld niður í íslensku réttarkerfi. Ofbeldi í garð kvenna er kerfisbundið. Til hamingju með baráttudag kvenna!
Kommentarer
Skicka en kommentar