|
Rue du Boeuf |
Við Snæbjörn erum búin að vera í Frakklandi síðan á föstudaginn. Flugið til Parísar var dúnmjúkt, enginn hristingur með tilheyrandi handsvita. Frá flugvellinum í París tókum við þægilega hraðlest hingað til Lyon, hún var bara tvo tíma að þeytast 470 kílómetra til borgarinnar við fljótið Rhône og leigubílstjóri ók okkur upp að dyrum á húsi númer 9 við Rue du Boeuf. Gatan er reyndar göngugata í gamla hverfinu en leigubílar mega hökta alla leið á áfangastað með ferðalúna góðborgara. Ég talaði frönsku við bílstjórann, þ.e.a.s. ég sagði götuheitið og númerið á húsinu. Það svínvirkaði. Annars er ég voðalega slök í frönsku, menntaskólalærdómurinn rétt nægir til að taka leigubíl og kaupa café au lait. Við hittum leigusalana, Stephane og Claire, sem ég fann á netinu og þau afhentu okkur lyklana og íbúðina sem er í húsi frá því um 1700 ef ég man rétt. Ferðahandbókin segir mér að gamla hverfið hafi verið í mikilli niðurníðslu eftir stríð og að upp úr 1950 hafi planið verið að rífa það en þá rak André Malraux, rithöfundurinn sem þá var orðinn ráðherra, sem betur fór niður hælana og barðist fyrir verndun hverfisins og síðan hefur það verið endurbyggt og er nú alveg ljómandi fínt og fallegt.
Helgin fór í að þramma um og borða og drekka á nokkrum af óteljandi veitingahúsum borgarinnar. Lyon er sannkölluð matarhola,
hér má lesa meira um það.
|
Handan við hornið |
Borgin sýnist mér annars vera þægileg og falleg og fólkið virðist almennt lítið uppáþrengjandi og yfirvegað. Þetta gæti auðvitað verið tómur misskilningur með íbúa Lyon, kannski eru menn hér upp til hópa kraumandi undir niðri og alveg á barmi taugaáfalla, hvað veit ég svo sem um það?
Í dag hófst vinnuvikan og ég tók hana svo alvarlega að ég byrjaði að vinna klukkan sjö í morgun en meiningin er að skrifa hér barnabók sem ég er þegar komin með útlínurnar að. Úthaldið var þó ekki margir klukkutímar en það stendur auðvitað til bóta og næstu daga mun ég ekki slá slöku við. Au revoir.
|
Á veitingahúsi. Ameríska konan fremst var matarbloggari eða
blaðakona sem skrifaði um það sem hún át. Baunamaukið sem
hún fékk var silkimjúkt og pylsan mild á bragðið. Hún hrósaði
kertastjökunum á staðnum alveg sérstaklega. |
Kommentarer
Skicka en kommentar