|
Hús sem ég geng oft framhjá |
Líkt og í Norðurmýri er líklegt að maður vakni við svartþrastarsöng í gamla hverfinu í Lyon. Flest annað er ólíkt. Fyrir utan Nautastræti 9 er oft mjög margt um manninn seinnipart dags og um helgar. Það eru veitingahús í næstum öllum húsum í grenndinni, nema það sé bakarí, slátrari eða einhver smákaupmaður. Það er samt alveg magnað að ég verð næstum ekkert vör við allt fólkið sem er á sveimi um hverfið þegar ég er inni. Íbúðin snýr út að bakgarði og hér inni er yfirleitt algjör þögn.
Ferðahandbókin heldur því fram að í borginni séu flestir veitingastaðir á kjaft í heimi. Og það er engin lygi að það sé mikið af góðum mat í Lyon. Allt sem ég hef keypt til að borða og drekka hefur verið gott. Misgott að vísu en samt alltaf gott og oftast mjög-mjög gott. Meira að segja texmex-borgarinn á McDonalds var með ætu brauði og góðu salati.
|
Á torginu við dómkirkjuna |
Internetið í íbúðinni datt út fyrir viku. Skýringin er sú að leigusalinn okkar deildi þráðlausa netinu með nágranna og sá granni ákvað skyndilega að flytja og lét eigandann vita með tveggja daga fyrirvara að hann væri búinn að segja upp netáskriftinnni. Það er auðvitað minniháttar katastrófa að vera netlaus. Hér þurfti að undirbúa fyrirlestur um vísindalegar rannsóknir, gera ýmsar staðreyndakannanir vegna bókarskrifa, svara póstum, lesa sér til um Frakkland, læra frönsku á netinu (það er nýbúið að kaupa áskrift að kennsluvef), svo fátt eitt sé talið. En sem sagt ekkert net í viku nema í boði bjórsalans í húsinu við hliðina og sú nettenging virkaði bara frammi í stigagangi, sem er í raun utandyra, þar til rétt áðan að ég uppgötvaði að hún virkar líka ef ég hef tölvuna í eldhúsvaskinum. Leigusalinn lofar nýju neti á morgun en þangað til er bjórsalanetið notað. Og fyrst minnst var á stigagang þá eru stigagangarnir í gömlu Lyon stórfengleg mannvirki og fræðigrein út af fyrir sig,
hér má lesa um þá.
Annars er flest fallegt hér í borginni, já, mannlífið sýnist
mér reyndar almennt fremur fagurt í Lyon. Mannvirkin eru líka mörg hver býsna fín, bæði hús og brýr. Ég bý rétt hjá dómkirkjunni, en innan stokks og utan höfðar svoleiðis höll til glysgjarnra skurðgoðadýrkenda á borð við mig. Reyndar er sá galli á að vandalar í trúarbragðastríði brutu einu sinni hausana af dýrlingunum sem eru hundruðum saman (nú hauslausir) utan á kirkjunni. Það sem æstu fólki dettur í hug! Við hliðina á þessari kirkju eru byggingaminjar frá fyrstu árum kristninnar. Þeim var líka rústað rækilega á sínum tíma en það verður nú að fyrirgefa fólki sem er að gera nauðsynlegar byltingar.
Sú hugmynd hefur komið upp að stinga af úr rigningu og þrumuveðrum og fara til dæmis til Arles og skoða staðinn þar sem Van Gogh skar af sér eyrað eða á Íslendingaslóðir í Suður-Frakklandi. Hafa slóðir Péturs Gunnarssonar í Aix-en-Provence og slóðir Alberts Guðmundssonar í Nice helst komið til tals. Á morgun verða að minnsta kosti keyptir lestarmiðar og farið í ferðalag með léttan farangur.
|
Sumir fyllast valkvíða í stórmarkaðinum |
Kommentarer
Skicka en kommentar