Þetta er mynd af opnu í Alt for damerne sem liggur á borðinu |
Á meðan ég bjó til croque madame í hádeginu rifjaðist upp fyrir mér að ég þyrfti að skrifa áfangaskýrslu og senda til Rannís og semja svo umsókn um listamannalaun. Mér finnst þeir dagar sem ég ver ár hvert í að skrifa svoleiðis umsókn ótrúlega nálægir hver öðrum, tíminn líður svo hratt. Umsókn um listamannalaun þarf að fylgja ferilsskrá. Ég er, því miður, trassi og fylli ekki út ferilsskrána (það má líka skrifa ferilskrá en ég ætla að hafa tvö s) jafnóðum, þannig að ég þarf að rifja upp hvað ég hef gert undanfarið sem ég þarf að bæta á gömlu ferilsskrána. Þá hugsa ég með mér að ég ætti að taka í notkun heimasíðuna sem sonur minn (sem varði meistararitgerð í tölvunarfræði í síðustu viku) er búinn að leggja drög að. Ég þarf bara að ákveða hvað á að vera á þeirri síðu og setja það inn - og þar stendur hnífurinn í kúnni, ég humma þær vangaveltur fram af mér. En ferilsskrá væri eitt sem gæti verið á heimasíðunni.
Við uppfærslu ferilsskrárinnar taldist mér svo til að eftir sjálfa mig hafi komið út tuttugu og ein bók (nokkrar hef ég þó skrifað í samstarfi við aðar konur) og ég hef sennilega þýtt jafn margar bækur, tuttugu og eina. Það gera samtals fjörutíu og tvær bækur á ekkert mjög mörgum árum. Reyndar er þetta ekki allt komið út, innan skamms kemur bók sem ég skrifaði með Hildi Knútsdóttur og þýðing á þeirri mögnuðu bók Gift eftir dönsku skáldkonuna Tove Ditlevsen kemur líka út fljótlega.
Mér finnst ég aldrei vinna nóg, samt hef ég auk þessara þýðinga og frumsaminna bóka skrifað margar greinar, leikrit, útvarpspistla og þætti og gert hitt og þetta annað, en mér finnst ég oft allt of mikið að dóla mér. Um þetta hugsaði ég þegar ég var að velta fyrir mér ferilsskránni. Svo hugsaði ég líka með mér að ég ætti kannski að eiga meiri pening á reikningnum mínum miðað við að þetta er nú alveg slatti af bókum. Reglulega fæ ég þá flugu í höfuðið að hætta þessu harki (að vera rithöfundur og þýðandi er einhvers konar hark - það verð ég að segja) og fá mér fasta vinnu eða stofna fyrirtæki. Þegar ég geng framhjá blómabúð í Jægersborggade eða bókabúð á einhverri lítilli götu hér á Nørrebro eða forngripaverslun á Friðriksbergi hvarflar jafnvel að mér að þarna gæti ég kannski fengið vinnu, ég er alveg þokkaleg búðarkona. En líklega myndi enginn vilja ráða mig sem forngripasala á Friðriksbergi. Og ég nenni ekki einu sinni að uppfæra ferilsskrána mína svo ég væri líklega ekki góð í fyrirtækjarekstri.
Í nótt var ég andvaka og hlustaði á spjall Guðna Tómassonar við Braga Ólafsson í þætti á RÚV sem heitir Börn tímans. Þetta er notalegt spjall um vinnuaðferðir rithöfundar sem vinnur öðruvísi en ég. Höfundar nota mjög ólíkar vinnuaðferðir, það hef ég rekið mig á.
Mér sýnist vera rigningarsuddi úti, sólin skín alla vega ekki í Kaupmannahöfn í dag. Og verkefni dagsins bíða - áfram gakk!
Kommentarer
Skicka en kommentar