Ég hef mjög gaman af sögum um fjölskylduleyndarmál. Allskonar safaríkum og leyndardómsfullum sögum sem Íslendingabók og minningargreinar afhjúpa ekki, því fólki er svo umhugað að leyndarmálin komi ekki upp á yfirborðið. Það er oft ekki fyrr en í þriðju kynslóð, þegar þeir sem málið varðar eru komnir í gröfina, að afkomendur fara að leita sér upplýsinga eða kveikja á perunni, að flettist ofan af sögunum. Svona leyndarmál eru mun algengari en margt fólk heldur, það eru mjög margar manneskjur sem eiga sér dulafulla fortíð, eru narsissísk flögð undir fögru skinni eða hafa eitthvað magnað að dylja. Um síðustu helgi skemmti ég mér yfir svakalegri fjölskyldusögu í sex þáttum sem er á vef Danmarks radio og er vinsælasta hlaðvarpssería Dana um þessar mundir. Þættirnir heita Mors afskedsbrev.
Adrian Lloyd Hughes er tæplega sextugur, vel þekktur og snobbaður, danskur fjölmiðlamaður sem gerði þetta vinsæla hlaðvarp. Þar fjallar hann um mömmu sína, Jette Dreyer Hughes, og hennar fjölskyldu og það er ekkert tíðindaleysi þar á ferð. Mamman dó fyrir þó nokkrum árum, ekki mjög öldruð, en skildi eftir sig biturt bréf til sona sinna fimm. Bréfið er fullt af illsku og hatri og þar úthúðar hún sonum og tengdadætrum mismikið, en Ghita Nørby les upp úr bréfinu í þáttunum.
Afi Adrians, Thorvald Dreyer, var þekktur arkitekt á sínum tíma og með mikil umsvif. Hann var samt reyndar ekki arkitekt, hann var múrari. En hann var alla vega umsvifamikill og mjög ríkur og á hans vegum voru byggð mörg hús sem þykja almennt fremur litlum tíðindum sæta. Þegar Adrian fór að skoða sögu móðurfjölskyldunnar komst hann að því að Dreyer, afi hans, var ekki með neitt venjulega margar beinagrindur í skápunum. Eftir dauða fyrstu eiginkonu sinnar, ömmu Adrians Hughes og mömmu Jette Dreyer (sem komst reyndar að því fullorðin að hún var ættleidd) giftist hann vændiskonu sem hrapaði við grunsamlegar aðstæður út um glugga á Sikiley og dó. Þá höfðu þau eignast tvær dætur, sem voru ættleiddar, en konan gekk með púða inni á sér og þóttist vera ólétt og fæða börnin. Eina vitnið að þessu dauðaslysi konunnar var borgarstjóri Frederiksberg og eftir þennan voveiflega dauðdaga giftist Thorvald Dreyer einmitt opinberu viðhaldi þessa borgarstjóra. Það er margt fleira sögulegt og furðulegt í þessari sögu en inn í hana fléttast meðal annars fyrrum forsætisráðherra Dana, Jens Otto Krag, og þá sögu segir hin 104 ára gamla Lise Nørgaard, sem varð vitni að atburðum. Niðurstaða þáttanna held ég að sé að Jette Dreyer, vonda mamman, hafi orðið beisk, ofbeldisfull og drykkfelld tík vegna vanrækslu og skorts á ástúð í æsku.
Ég ætla ekki að rekja efni sögunnar frekar nema bara eitt í viðbót sem er extra áhugavert við þessa fjölskyldusögu: Síðasta eiginkona Þorvaldar múrara stytti sér aldur inni á baðherbergi í 680 fermetra stóru húsi þeirra hjóna við Fuglebakkevej 70 á Friðriksbergi og það baðherbergi var, grínlaust, klætt gulli. Þetta baðherbergi er í húsi sem er sameign Íslendinga og er sendiherrabústaðurinn í Danmörku. Eitthvað segir mér að markaðsvirði hússins, sem var engin smásumma fyrir, hafi tvöfaldast eftir hlaðvarp Adrians Hughes.
Áhugafólk um bilaðar fjölskyldur ætti ekki að láta þetta hlaðvarp framhjá sér fara. Hér er mjög góð ástæða til að rifja upp dönskuna.
Þann 7. október verður Adrian Hughes með fyrirlestur um þetta allt. Mín er freistað að kaupa aðgöngumiða.
Fuglabakkavegur 70 (af google maps) |
Kommentarer
Skicka en kommentar