Það er komið haust og ég er aftur sest að í götu Henriks Bjelkes. Ég er ekki stödd í sömu íbúð og þegar ég var hér í vor, við fengum leigða rúmbetri og fallegri íbúð hinum megin við götuna. Ég er búin að skrifa lista yfir næstu verkefni sem liggja fyrir í gula bók. Mér finnst gott að skrifa lista yfir það sem ég þarf að gera, á listann set ég bæði stór og smærri verkefni, svo strika ég verkefnin út jafnóðum og þau eru framkvæmd. Gallinn er samt sá að núna eru bara stórverkefni á listanum, sum eru þess eðlis að þau taka daga eða viku, önnur mánuði og jafnvel ár. Ég ætla að reyna að brjóta einhver verkefnanna upp og endurgera listann til að ég geti strikað eitthvað út á næstunni.
Þó að það sé ys og þys rétt fyrir utan hjá mér þá er líka rólegt því að þegar ég er að heiman er rólegra hjá mér en þegar ég er heima. Fólk á reyndar almennt ekki mörg erindi við mig og þegar fólk veit af mér í útlöndum hefur það enn sjaldnar samband en endranær. Og ekki trufla pípin í símanum mig, ég byrja alltaf á að taka flest tilkynningaplíngin af þegar ég fæ nýjan síma og svo er síminn minn líka mjög oft stilltur þannig að hann gefur ekki frá sér nein hljóð. Ykkur að segja hringja líka mjög fáir í mig, ég var að kíkja á símann til að athuga hvenær ég fékk síðast símtal og það var á mánudaginn fyrir viku. Þetta þýðir samt ekki að ég hafi lítið að gera, ég er með mörg verkefni á listanum. Kannski hafa þau aldrei verið fleiri. Mig langar að ljúka við nokkur án þess að bæta meiru á listann.
En nú man ég að ég þarf ég að gera eitt sem stendur ekki á listanum í gulu bókinni, en hefði átt að vera þar. Það er að fara niður í kjallara og bóka þvottatíma. Það kostar tíu krónur að þvo eina stóra þvottavél. Ég fyllist aðdáun yfir slíku fyrirkomulagi og finnst alveg furðulegt að Íslendingar almennt kunni ekki að meta sameiginlegar þvottavélar.
P.S. Myndin fyrir ofan er af bókinni sem ég er að lesa. Hún er eftir ljóðskáldið Søren Ulrik Thomsen og undirtitill hennar er Et essay. Þegar ég hef lokið lestrinum ætla ég að skrifa hvað mér fannst um bókina.
Kommentarer
Skicka en kommentar