 |
Spói (Numenius phaeopus) |
Í gær fékk ég póst frá ritstjóra tímarits. Þar var ég beðin um að skrifa pistil um ákveðið efni í tímaritið. Að launum fyrir pistilinn er í boði árs áskrift að tímaritinu. Ég brást vel við erindi ritstjórans, ég hef sjálf verið ritstjóri tímarits og veit að það er ekki hlaupið að því að fá fólk til að skrifa pistla eftir dyntum ritstjóra og ég veit líka að það er erfitt að halda úti tímaritum í örlitlu málsamfélagi. Ég kýs að líta á skrifin sem eins konar samfélagsþjónustu, svona svipað og að Vitabar sinnir ýmsum þörfum samborgaranna (þessi loðna samlíking þyrfti hugsanlega útskýringar við en ég stend ekki í því að útskýra neitt, þetta les hvort sem er enginn). Gallinn við pistlaskrifin er hins vegar sá að ég þarf að skila pistlinum fyrir mánudag. Ég passaði mig á því þegar ég var ritstjóri að biðja fólk um að skila skrifum með löngum fyrirvara, fólk tekur miklu frekar vel í það að gera eitthvað smáræði ef því er sagt að það hafi marga mánuði til að vinna verkið. Nú er þessi pistill kominn á langan lista yfir verkefni vikunnar og ég sé fram á að ýta honum á undan mér fram á sunnudag.
Fyrsta verkefni dagsins, eftir morgunkaffi, var að hringja í þjónustuver Arion banka og láta opna debetkortið sem ég hélt í gær að væri týnt og lét frysta. Svo var það ekki týndara en svo að seinni part dagsins var ég komin með það í hendurnar. Ég ætla ekki að tjá mig frekar um ferðir umrædds korts. Annað verkefni dagsins er miklu leiðinlegra en að hringja í bankastarfsmann, í því felst að ég þarf að lesa excelskjal og fylla út í annað slíkt og það er svo lítið spennandi að ég ætla að fresta því til morguns. Þriðja verkefnið verður að rifja upp hvaða hráefni þarf í ákveðinn matrétt sem á ættir sínar að rekja til Indlands, skrifa innkaupalista og ganga síðan í Bónus í Skipholti og kaupa í matinn. Fjórða verkefnið felst í því að skrifa eitthvað allt annað en innkaupalista.
Í gærkvöldi rakst ég á fjögurra tíma langan útvarpsþátt sem fluttur er eingöngu af smálenskum fuglum. Gott ef þátturinn hefst ekki á hljóðum frá hrossagauk.
Hér er krækja á þáttinn.
Kommentarer
Skicka en kommentar